Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1246. fundur 26. júní 2023 kl. 08:10 - 10:10 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Gylfi Ólafsson formaður
  • Nanný Arna Guðmundsdóttir varaformaður
  • Kristján Þór Kristjánsson aðalmaður
  • Jóhann Birkir Helgason áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
  • Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Framtíðarskipulag Torfnes - Starfshópur - 2020090001

Á 242. fundi íþrótta- og tómstundanefndar þann 21. júní 2023, voru kynnt fyrstu drög að tillögu að framtíðarskipulagi íþróttamannvirkja á Torfnessvæðinu, ásamt þarfagreiningu sem starfshópur um framtíðarskipulag íþróttamannvirkja á Torfnessvæði vann árið 2021-2022. Með hliðsjón af framlögðum gögnum og tillögu taldi íþrótta- og tómstundanefnd að vinnu starfshópsins væri lokið og þyrfti nú að finna framkvæmdum stað með deiliskipulagsbreytingum.

Lagði nefndin til við bæjarráð að finna þessu stað í deiliskipulagi.

Til fundar bæjarráðs er nú mættur Kjartan Árnason, arkitekt, til kynningar um mögulegt framtíðarskipulag svæðisins.

Bæjarráð telur málið ekki komið á þann stað að því verði komið fyrir í deiliskipulagi og telur þarft að vinna málið frekar.

Kjartan yfirgaf fund kl. 8.40.

Gestir

  • Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs - mæting: 08:10
  • Axel R. Överby, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs - mæting: 08:10
  • Kjartan Árnason, KOA arkitektum - mæting: 08:10

2.Knattspyrnusvæði á Torfnesi - 2023 - 2023060095

Á 242. fundi íþrótta- og tómstundanefndar þann 21. júní 2023 var rætt um framkvæmdir við lagningu nýs gervigrass á Torfnesvöll. Með hliðsjón af öryggiskröfum KSÍ þarf annað hvort hlaupabrautin að víkja eða göngustígurinn að hliðrast, sem þýðir að fórna yrði bílastæðunum við knattspyrnuvöllinn. Íþrótta- og tómstundanefnd telur heppilegra að hlaupabrautin á Torfnesi víki frekar og óskaði eftir afstöðu bæjarráðs til málsins.

Er málið nú lagt fyrir bæjarráð, ásamt yfirlitsmyndum útboðsgagna.
Bæjarráð er sammála afstöðu íþrótta- og tómstundanefndar, og samþykkir að hlaupabrautin verði tekin undir öryggissvæði nýs vallar.
Hafdís yfirgaf fund kl. 8:50.

3.Umsókn um lóð við Sundabakka - 2022090020

Á 611. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar þann 22. júní 2023, mættu fulltrúar Þryms hf. vélsmiðju til fundar til að kynna fyrirætlanir um uppbyggingu á lóð sem fyrirtækið hefur sótt um við Sundabakka á Ísafirði. Skipulags- og mannvirkjanefnd vísaði erindinu til kynningar í bæjarráði.

Er málið nú lagt fyrir fund bæjarráðs til kynningar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera viljayfirlýsingu við Þrym hf. á grundvelli kynningarinnar, og leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

4.Brekkugata 46, 470. Umsókn um endurnýjun á lóðarleigusamningi - 2023060048

Á 611. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar þann 22. júní 2023, var lögð fram umsókn Sigurðar Þ. Gunnarssonar, þinglýstum eiganda fasteignarinnar við Brekkugötu 46 á Þingeyri, dags. 9. júní 2023, um endurnýjun á lóðarleigusamningi. Jafnframt var lagt fram mæliblað tæknideildar frá 20. júní 2023.

Skipulags- og mannvirkjanefnd lagði til við bæjarstjórn að heimila útgáfu lóðarleigusamnings undir Brekkugötu 46 á Þingeyri miðað við framlagt mæliblað tæknideildar.
Bæjarráð samþykkir að heimila útgáfu lóðarleigusamnings undir Brekkugötu 46 á Þingeyri miðað við framlagt mæliblað tæknideildar, með öllum greiddum atkvæðum.

Meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur fer bæjarráð með fullnaðarákvörðun mála, samkvæmt 8. gr. samþykktar um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

5.Aðalstræti 12 á Þingeyri. Umsókn um endurnýjun á lóðarleigusamningi - 2023060091

Á 611. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar þann 22. júní 2023, var lögð fram um umsókn dags. 16. júní 2023, frá þinglýstum eigendum fasteignarinnar við Aðalstræti 12 á Þingeyri, um endurnýjun á lóðarleigusamningi vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar.
Jafnframt var lagt fram mæliblað tæknideildar frá 20. júní 2023.

Skipulags- og mannvirkjanefnd lagði til við bæjarstjórn að heimila útgáfu á lóðarleigusamningi undir Aðalstræti 12 á Þingeyri í samræmi við gildandi deiliskipulag við Tjarnarreit.
Bæjarráð samþykkir að heimila útgáfu lóðarleigusamnings undir Aðalstræti 12 á Þingeyri í samræmi við gildandi deiliskipulag við Tjarnarreit, með öllum greiddum atkvæðum.

Meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur fer bæjarráð með fullnaðarákvörðun mála, samkvæmt 8. gr. samþykktar um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.
Axel yfirgaf fund kl. 9:25.

6.Byggðakvóti fiskveiðiárið 2022-2023 - 2022120086

Lagt fram minnisblað Bryndísar Óskar Jónsdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, dags. 23. júní 2023, vegna yfirlits um byggðakvótareglur 2022/2023. Jafnframt lagt fram minnisblað Örnu Láru Jónsdóttur, dags. 24. júní 2023, vegna samþykktra reglna um byggðakvóta fyrir 2022-2023.
Með vísan til framlagðs minnisblaðs leggur bæjarstjóri fram tillögu til bæjarráðs, sem fer með fullnaðarákvörðun mála í sumarleyfi bæjarstjórnar skv. 8. gr. samþykktar um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, um að 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1370/2022, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2022/2023, breytist og verði þannig:

„Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi sveitarfélags á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022.“

Þá verði bæjarstjóra falið að hafa samband við ráðuneytið og koma nýrri tillögu á framfæri til breytingar á auglýsingu nr. 454/2023, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2022/2023.

Bæjarráð samþykkir tillögu bæjartjóra með öllum greiddum atkvæðum.

7.Jafnlaunavottun - 2018020060

Lögð fram til kynningar skýrsla endurvottunarúttektar, dagsett 21. júní 2023, vegna jafnlaunakerfis Ísafjarðarbæjar, en niðurstaða úttektarstjóra er að jafnlaunakerfi ÍFB uppfyllir áfram kröfur staðalsins ÍST 85:2012. Úttektarstjóri mælir, að lokinni endurvottunarúttekt með vottun á jafnlaunakerfi ÍFB á nýjan leik innan hins tilgreinda gildissviðs, „allir starfsmenn Ísafjarðarbæjar“.
Lagt fram til kynningar.
Baldur yfirgaf fund kl. 9:40.

Gestir

  • Baldur I. Jónasson, mannauðsstjóri - mæting: 09:35

8.Frumvörp og þingsályktunartillögur til umsagnar 2023 - 2023010001

Á 1245. fundi bæjarráðs, þann 19. júní 2023, var lögð fram tilkynning frá samráðsgátt stjórnvalda, dagsett 13. júní 2023, þar sem innviðaráðuneyti kynnir til samráðs mál nr. 112/2023, „Drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038“. Umsagnarfrestur er til og með 31. júlí.

Málinu var frestað til næsta fundar, og nú lagt fram á nýjan leik.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna umsögn á grundvelli umræðna og leggja fyrir bæjarráð á nýjan leik.

9.Fundargerðir 2023 - Samband íslenskra sveitarfélaga - 2023010260

Lagðar fram til kynningar tvær fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga; 929. fundar frá 9. júní 2023, og 930. fundar frá 15. júní 2023.
Lagt fram til kynningar.

10.Íþrótta- og tómstundanefnd - 242 - 2306012F

Lögð fram til kynningar fundargerð 242. fundar íþrótta- og tómstundanefndar, en fundur var haldinn 21. júní 2023.

Fundargerðin er í sex liðum.
Lagt fram til kynningar.

11.Skipulags- og mannvirkjanefnd - 611 - 2306013F

Lögð fram til kynningar fundargerð 611. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar, en fundur var haldinn 22. júní 2023.

Fundargerðin er í níu liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:10.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?