Skipulags- og mannvirkjanefnd

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
478. fundur 07. júní 2017 kl. 08:00 - 10:00 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Sigurður Jón Hreinsson formaður
  • Lína Björg Tryggvadóttir aðalmaður
  • Inga Steinunn Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Jón Kristinn Helgason varamaður
  • Guðfinna M Hreiðarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Brynjar Þór Jónasson sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs
  • Axel Rodriguez Överby skipulags- og byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Axel Rodriguez Överby skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Hábrún ehf - fiskeldi í Ísafjarðardjúpi - 2017050072

Skipulagsstofnun óskar umsagnar Ísafjarðarbæjar á þorsk- og silungaeldi Hábrúnar í Skutulsfirði, skv. umsagnarbeiðni dags. 15.maí 2017, jafnframt er óskað er eftir afstöðu bæjaryfirvalda um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
Í umsögninni skal koma fram eftir því sem við á, hvort Ísafjarðarbær telji að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun. Einnig óskar Skipulagsstofnun eftir því að í umsögn komi fram, eftir þvi sem við á, hvaða leyfi framkvæmdin er háð og varðar starfssvið umsagnaraðila.
Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur vel í áform Hábrúnar um aukningu á ársframleiðslu á þorski og regnbogasilungi í Skutulsfirði.
Áform fyrirtækisins eru rökrétt framhald á góðum árangri við eldi regnbogasilungs og áframeldis á þorski í firðinum. Eldi á þessu svæði hefur verið án áfalla frá upphafi, síðustu 20 ár, og á þeim tíma hefur ekki sloppið fiskur. Eldissvæðið er utan siglingaleiðar og hefur það ekki haft áhrif á siglingar skipa, legu skemmtiferðaskipa á firðinum né heldur aðrar sjávarnytjar á svæðinu.
Skipulags- og mannvirkjanefnd telur að í skýrslu dags. 12.05.2017 Þorsk- og silungaeldi Hábrúnar í Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi, sé nægjanlega gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi, mótvægisaðgerðum og vöktun. Hábrún áætlar að auka framleiðslu úr 200 tonnum í 1000 tonn í kvíum í Skutulsfirði. Miðað við þær forsendur flokkast framkvæmdin í B flokk 1. viðauka í lögum um umhverfismat nr.106/2000.
Með hliðsjón af viðauka 2 telur skipulags- og mannvirkjanefnd að aukningin þurfi ekki að fara í umhverfismat miðað við þær forsendur sem gefnar eru upp í skýrslu og m.t.t. til staðsetningar, umfangs og afturkræfi eldisins. Nefndin bendir á að komi til aukningar í firðinum með gæti þurft að huga að sammögnunaráhrifum. Nefndin vísar jafnframt til matsskýrslu Hafrannsóknarstofnunar frá 2017, um burðarþol Ísafjarðardjúps. Umrædd aukning verður að rúmast innan þess.
Skipulags og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar telur að skipulagsvald yfir strandsvæðum eigi að fela sveitarfélögum og skilja það þannig frá skipulagsvaldi yfir hafsvæðum sem ætti að vera á hendi ríkisvaldsins. Víða um heim eru strandsvæðin innan einnar sjómílu utan við grunnlínu á skipulagsvaldi sveitarfélaga, þannig er það td. í Noregi, auk þess miðast Vatnatilskipun Evrópusambandsins við eina sjómílu utan við grunnlínu. Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands Vestfirðinga var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð og er það mjög miður að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að samsvarandi vinna hafi farið fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps.

2.Frumvörp og þingsályktunartillögur til umsagnar 2017 - 2017020032

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis óskar eftir umsögnum vegna eftirfarandi frumvörpum til laga.

Mál nr. 406 frumvarp til laga um landgræðslu.
Mál nr. 407 frumvarp til laga um skóga og skógrækt.
Mál nr. 408. frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 2. júní
Lagt fram til kynningar.

3.Smávirkjanir á Vestfjörðum - 2017050080

Lagður fram tölvupóstur Aðalsteins Óskarssonar, f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga, dagsettur 19. maí sl., ásamt viðhengjum; bréfi Orkustofnunar frá 16. mars sl., og greinargerðinni 'Tillögur að smávirkjunum á Vestfjörðum', sem Fjórðungssambandið vann að beiðni Orkustofnunar.
Bæjarráð tók erindið fyrir á 975. fundi sínum, 22. maí sl. og vísaði til skipulags- og mannvirkjanefndar.
Lagt fram til kynningar.

4.Umsókn um stöðuleyfi fyrir aðstöðu á Mávagarði - 2017050086

Ragnar Ágúst Kristinsson, f.h. Amazing Westfjords ehf., sækir um stöðuleyfi fyrir aðstöðugám fyrir farþega vegna ferða Ölvers ÍS-38, jafnframt er óskað heimildar til þess að tengja frárennsli frá gám inn á niðufallslögn. Fylgigögn eru eftirfarandi, erindisbréf dags. 19. maí, formleg umsókn með samþykki hafnarstjóra og yfirlitsmynd með fyrirhugaðri staðsetningu.
Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir stöðuleyfi til 1. október 2017. Nefndin leggur ríka áherslu á að gámur og umhverfi sé snyrtilegt.

5.Deiliskipulag-Suðurtangi - 2016060017

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi við Suðurtanga frá Verkís dags. 19.05.2017 lögð fram. Breytingin felst í því að lóðir eru sameinaðar þannig að þeim fækkar úr 33 í 18 lóðir. Öll ytri mörk lóða haldast óbreytt, að undanskilinni lítilli tilfærslu vegna breikkunar Ásgeirsgötu. Lóðum fyrir hafnsækna starfsemi fækkar úr 17 í 4 lóðir, lóðum fyrir iðnað fækkar úr 14 í 12 lóðir.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillaga frá Verkís dags. 19.05.2017 verði auglýst skv. 1.mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010

6.Umsókn um byggingarleyfi - Sæborg lóð 3 - 2017050111

Eftirfarandi erindi var tekið fyrir á 21. afgreiðslufundi byggingafulltrúa 31. maí 2017.
Einar Hreinsson leggur fram ódagssetta fyrirspurn um byggingarleyfi á lóð nr. 3 í landi Sæborgar í Aðalvík.
Þar sem ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir svæðið, vísar byggingafulltrúi umsókninni til skipulags- og mannvirkjanefndar, með vísan í gr. 5.9.1 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013
Skipulags- og mannvirkjanefnd felur byggingarfulltrúa að óska eftir áliti Skipulagsstofnunar í samræmi við gr. 5.11.2 skipulagsreglugerðar 90/2013

7.Umsókn um stöðuleyfi - Skrúður Dýrafirði - 2017060005

Framkvæmdasjóður Skrúðs í Dýrafirði, sækir um stöðuleyfi fyrir salernisgáma. Fylgigögn eru ódags. umsóknareyðublað, afstöðumynd og ljósmynd af fyrirhuguðum salernisgám.
Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir að veita stöðuleyfi til 1. október 2017

8.Skrúður, þjónustuhús. - 2017010006

Lögð fram deiliskipulagstillaga frá Landform dags. 01.06.2017 vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi við Skrúð í Dýrafirði. Breytingin felst í þvi að byggingarreitur er færður út fyrir 15 metra friðhelgunarsvæði Skrúðs.
Skipulags- og mannvirkjanefnd telur að ekki þurfi að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi Skrúðs með vísan í 5.9.3. gr. skipulagsreglugerðar 90/2013, breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjandans sjálfs.

9.Sindragata 4 - Deiliskipulag - 2016110020

Lögð fram deiliskipulagstillaga frá Tækniþjónustu Vestfjarða dags. 30. maí 2017, breytingin nær til lóðarinnar Sindragata 4, þar sem henni er skipt upp í Sindragötu 4 og 4a, jafnframt eru lóðamörk til suðvesturs færð út um 4 metra þannig að heildarlengd lóðanna er 40 metrar í stað 36 metrar.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstórn að heimila að deiliskipulagstillaga fyrir Sindragötu 4 verði auglýst skv. 1.mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010

10.Móholt 2 - Umsókn um byggingaleyfi - 2017060010

Gunnar Páll Eydal sækir um byggingaleyfi vegna breytinga á þaki bílskúrs við Móholt 12, skv. umsókn dags. 29.05.2017 og meðfylgjandi útlitsuppdrætti og afstöðumynd frá Húseining HF. dagsett febrúar 1977. Meðfylgjandi er skriflegt samþykki nágranna við Móholt 9 og Lyngholti 9, íbúar við Móholt 11 staðfesta samþykki með tölvupósti dags. 4.júní 2017 og íbúar við Lyngholt 11 staðfesta með tölvupósti dags. 02.06.2017
Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir svæðið og vísar byggingafulltrúi umsókninni til skipulags- og mannvirkjanefndar með vísan í gr. 5.9.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013
Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir erindi og er skilyrðum um grenndarkynningu talið fullnægt með skriflegu samþykki hagsmunaaðila. Skipulagsnefnd er heimilt að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir með áritun sinni á kynningargögn áður en fjórar vikur eru liðnar að þeir geri ekki athugasemdir við skipulagstillöguna eða hina leyfisskyldu framkvæmd með vísan í gr. 5.9.2. skipulagsreglugerðar 90/2013.

Fundi slitið - kl. 10:00.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?