Skipulags- og mannvirkjanefnd

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
623. fundur 11. janúar 2024 kl. 10:30 - 11:45 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir formaður
  • Guðmundur Ólafsson varaformaður
  • Jóna Símonía Bjarnadóttir aðalmaður
  • Anton Helgi Guðjónsson aðalmaður
  • Steinunn Guðný Einarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðmundur Rafn Kristjánsson verkefnastjóri
  • Hjördís Þráinsdóttir skjalastjóri
Fundargerð ritaði: Hjördís Þráinsdóttir skjalastjóri
Dagskrá

1.Snjóflóðavarnir í Ísafjarðarbæ - Hnífsdalur - Bakkahyrna - 2024010038

Lögð fram frumathugun „Snjóflóðavarnir í Ísafjarðarbæ - Bakkahyrna,“ unnin af Verkís, dags. 8. janúar 2024.

Þar er gerð grein fyrir niðurstöðum frumathugunar á ofanflóðavörnum í sunnanverðum Hnífsdal neðan Bakkahyrnu. Tillögur að vörnum miða að því að uppfylla kröfur um öryggi skv. reglugerð.
Lagt er til að reisa um 410 m langan og um 6-17 m háan þvergarð ofan við Bakkaveg og um 2,1 km af upptakastoðvirkjum austar í Bakkahyrnu. Lagt er til að efni úr skeringum verði nýtt eftir því sem hægt er við uppbyggingu garðsins og jarðvegsstyrkingarkerfi verði notað til þess að tryggja bratta flóðhlið (flái 1:0,25, lóðrétt:lárétt). Heildarefnismagn í snjóflóðavarnargarð er um 110 þús. m3. Umframefnismagn úr skeringum er a.m.k. 15-60 þús. m3, háð notkunarmöguleikum jökulruðnings.
Lagt fram til kynningar.

2.Dynjandisheiði, Þverá - Búðavík. Umsókn um framkvæmdaleyfi 3ja áfanga - 2024010014

Lögð fram umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 21. desember 2023, frá Vegagerðinni til áframhaldandi uppbyggingar Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði frá Þverá við Rjúpnabeygju að Búðavík í Arnarfirði. Jafnframt lagðar fram teikningar og sniðmyndir ásamt yfirlitsmynd, dags. 17. nóvember 2023.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi vegna uppbyggingar Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði frá Þverá við Rjúpnabeygju að Búðavík í Arnarfirði samkvæmt framlagðri umsókn og fylgigögnum, með því skilyrði að kjarr verði ekki endurheimt svo nálægt vegöxl, eins og kemur fram í umsókninni, þar sem það gæti haft áhrif á snjósöfnun á veginum.

3.Sindragata 4a 2. Umsókn um byggingarlóð undir fjölbýlishús - 2023010235

Lagt fram bréf frá SEI, f.h. Vestfirskra verktaka ehf, dags. 9. janúar 2024, þar sem óskað er eftir því gerð verði óveruleg breyting á núgildandi deiliskipulagi, þar sem kveðið er á um hámarkshæð þaks: 10,5 m yfir gólfkóta jarðhæðar, eða K=13,5 í hæðarkerfi Ísafjarðarbæjar.

Meðfylgjandi uppdrættir sýna hámarkshæð upp á 11,5 m yfir gólfkóta jarðhæðar, eða 1 m hærra en leyfilegt er samkvæmt deiliskipulagi.
Ástæðan fyrir ósk um hækkun er að verkkaupinn og verktakinn, sem í þessu tilfelli er sami aðilinn, reisti núverandi hús sem stendur á lóðinni (Sindragata 4A) og í því tilfelli var gerður fullniðurgrafinn kjallari niður á u.þ.b. 3 m dýpi eða K=0,0 í hæðarkerfi Ísafjarðarbæjar. Á þessu dýpi skapast alls kyns vandamál vegna sjávarfalla og krefst dælubúnaðar með miklum tilkostnaði.
Skipulags- og mannvirkjanefnd heimilar að fram fari grenndarkynning skv. 2 mgr. 44. gr. skipulagslaga 123/2010, fyrir eigendum fasteigna við Sindragötu 4 og 4a og Aðalstrætis 8 og 10.
Guðmundur Ólafsson víkur af fundi kl 10:58, vegna vanhæfis.

4.Notkun ásætuvarna Arctic Sea Farm í Arnarfirði. Umsagnarbeiðni - 2024010009

Lögð fram umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar um tilkynningarskylda framkvæmd vegna áforma Arctic Sea Farm um að nota ásætuvarnir sem innihalda ECONEA® (Tralopyril) og Zinc Pyrithione á nætur eldiskvía fyrirtækisins í Arnarfirði til að fjarlægja gróður og aðrar lífverur sem setjast á net og búnað eldiskvía og vaxa þar og valda auka álagi á búnaðinn.

Umsagnarfrestur er til 29. janúar 2024.
Skipulags- og mannvirkjanefnd telur að nægjanlega sé gert grein fyrir framkvæmdinni í framlögðum gögnum framkvæmdaaðila og telur að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat.
Guðmundur kemur aftur til fundar kl. 11:00.

5.Tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði í Súðavíkurhreppi - 2024010039

Lögð fram matsskyldufyrirspurn frá Skipulagsstofnun úr Skipulagsgáttinni.

Matsskyldufyrirspurnin varðar tímabundna notkun á tveimur svæðum með mismunandi árgöngum innan sama árgangasvæðis. Um er að ræða Ytra-Kofradýpi, með laxaseiði sem fóru í sjókvíar árið 2023, og Seyðisfjörð, þar sem fyrirhugað er að setja út seiði árið 2024. Hér er um að ræða frávik frá matsskýrslu Háafells frá árinu 2020 en þar er gert ráð fyrir að eldissvæðin Seyðisfjörður og Ytra-Kofradýpi séu innan sama árgangasvæðis. Gert er ráð fyrir að frávikið vari frá vori 2024 til vorsins 2026.

Frestur til athugasemda er til 5. febrúar 2024.
Lagt fram til kynningar.

6.Hönnun Gamli Gæsló Ísafirði - 2022120021

Lagður fram til kynningar úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 133/2023, vegna kæru á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2023 vegna erindis kæranda um leikvöll á Eyrartúni á Ísafirði. Var kærumálinu vísað frá nefndinni.

Jafnframt lagt fram minnisblað skipulagsfulltrúa, dags. 10. janúar 2024, vegna mats á því hvort framkvæmdin er framkvæmdaleyfisskyld.

Einnig lagt fram bréf frá Berghildi Árnadóttur, dags. 4. janúar 2024, þar sem hún leggur til lausn vegna uppsetningu aparólu.
Úrskurður og minnisblað lagt fram til kynningar. Samkvæmt bókun 1268. fundar bæjarráðs frá 8. janúar 2024, var bæjarstjóra falið að vinna málið áfram.
Starfsmanni falið að uppfæra minnisblað um mat á framkvæmdaleyfi í samræmi við umræður á fundi.

Varðandi flutning aparólu inn í Holtahverfi, þá er þessi framkvæmd gerð fyrir framkvæmdafé hverfisráðs eyrar og efri byggða í Skutulsfirði.

7.Mjósund - hreinsun jarðvegs - 2023110072

Lagt fram bréf Olíudreifingar, dags. 4. janúar 2024, varðandi skil á lóð við Mjósund.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkja skil á lóð við Mjósund í samræmi við tillögu Olíudreifingar.

8.Hlíðarvegur 50, 400. Umsókn um stofnun byggingarlóðar - 2023110126

Lagðar fram athugasemdir vegna lóðarinnar Hlíðarvegs 50 á Ísafirði, dags. 20. desember 2023, sem barst á grenndarkynningartíma, vegna stofnunar lóðarinnar.
Lagt fram til kynningar og starfsmanni falið að vinna málið áfram.

9.Gámar og lausafjármunir 2023 - 2023080102

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Andra Andrasonar, lögmanns hjá Juris, dags. 12.12. 2023, þar sem farið er yfir valdheimildir sveitarfélagsins þegar kemur að lausafjármunum sem standa án stöðuleyfis.
Lagt fram til kynningar.

10.Seljalandsvegur 86. Umsókn um stöðuleyfi - 2023110165

Lögð er fram umsókn Ragnars Ágústs Kristinssonar um stöðuleyfi fyrir geymslugám við Seljalandsveg 86. Um er að ræða áframhaldandi veitingu stöðuleyfis.
Jafnframt er lögð fram loftmynd er sýnir staðsetningu gáms.

Þar sem stöðuleyfi er ekki hugsað sem varanleg lausn er óskað eftir áliti nefndarinnar. Ekki liggur fyrir skriflegt samþykki annarra þinglýstra eigenda hússins.
Skipulags- og mannvirkjanefnd felur byggingarfulltrúa að samþykkja stöðuleyfi til 12 mánaða, þegar samþykki annara þinglýstra eigenda hússins liggur fyrir.

Stöðuleyfi er ekki hugsað sem varanlegt úrræði og bendir nefndin á að umsóknaraðili leiti varanlegra lausna.

Umsækjandi getur ekki búist við framlengingu stöðuleyfis að ári.

11.Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa - 72 - 2312018F

Lögð fram fundargerð frá 72. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa sem var haldinn 20. desember 2023.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:45.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?