Skipulags- og mannvirkjanefnd - 359. fundur - 28. september 2011

Mættir: Gísli Halldór Halldórsson, varaformaður, Sigurður Jón Hreinsson, Lína Björg Tryggvadóttir, Magnús Reynir Guðmundsson, Maron Pétursson, Ralf Trylla, umhverfisfulltrúi, Jóhann Birkir Helgason, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs og Anna Guðrún Gylfadóttir, byggingarfulltrúi, sem jafnframt ritaði fundargerð.

 

Dagskrá:

 

1.      2011-09-0076 - Umsjónarmaður eigna - uppsögn á starfi.

Lagt fram bréf dags. 30. júní sl. frá Jóhanni Bæring Gunnarssyni umsjónarmanni eigna, þar sem Jóhann segir upp starfi sínu hjá Ísafjarðarbæ.

Umhverfisnefnd þakkar Jóhanni Bæring Gunnarssyni fyrir vel unnin störf fyrir sveitarfélagið undanfarin ár og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

2.      2011-07-0030 - Fjallskilareglugerð fyrir Vestfirði.

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 1. júlí sl., mættu á fund bæjarráðs fulltrúar Búnaðarfélagsins Bjarma, þau Guðmundur Steinar Björgmundsson, Guðrún Hreinsdóttir og Sighvatur Þórarinsson, til viðræðna um drög að fjallskilareglugerð fyrir Vestfirði, drög er lágu fyrir fundi bæjarráðs. Jafnframt mætti á fund bæjarráðs Jóhann Birkir Helgason, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar.

Á fundinum voru lagðir fram minnispunktar frá Búnaðarfélaginu Bjarma, um aðkomu að bæjarmálum og málefnum er varða sveitirnar svo sem fjallskil, eyðingu refa og minka, almenningssamgöngur, sorpmál, hnitsetningu jarða ofl. og voru þeir ræddir.

Bæjarráð þakkaði ofangreindum aðilum fyrir góðar umræður á fundinum.

Umhverfisnefnd óskar eftir fundi með formanni Búnaðarfélagsins Bjarma vegna draga að fjallskilareglugerð fyrir Vestfirði.

 

3.      2011-09-0086 - Umhverfisstefna Ísafjarðarbæjar.

Á fundi umhverfisnefndar 14. september sl., var tæknideild falið að vinna drög að áætlun um gerð umhverfisstefnu Ísafjarðarbæjar og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar. Drögin eru dags. 23. september sl. og unnin af Ralf Trylla umhverfisfulltrúa.

Umhverfisnefnd felur umhverfisfulltrúa að vinna áfram að drögunum í samræmi við umræður á fundinum og leggja fyrir á næsta fundi.

 

4.      2011-08-0013 - Fjárhagsáætlun 2012 og þriggja ára áætlun.

Lögð fram tillaga að Framkvæmda- og viðhaldsáætlun 2012 - 2014, dags. 23. september sl.

Jóhann Birkir Helgason sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs fór í gegnum áætlunina. Umhverfisnefnd óskar eftir að skýrslan verði birt á heimasíðu Ísafjarðarbæjar.      

 

5.      2011-06-0045 - Laxeldi í Arnarfirði.

Á fundi bæjarráðs 13. september sl., var lagt fram bréf Fiskistofu dagsett 7. september sl., þar sem óskað er umsagnar um umsókn Fjarðarlax ehf., um rekstrarleyfi til fiskeldis, á 1.500 tonnum af laxi til manneldis á ári.

Bæjarráð vísaði erindinu til umsagnar umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar.

Umhverfisnefnd áréttar enn og aftur að hún telur mikilvægt að Ísafjarðarbær öðlist skipulagsvald yfir strandsvæðum sínum út að einni sjómílu frá grunnlínupunktum.

Á meðan að nýtingaráætlun liggur ekki fyrir og þar sem fjörðurinn er viðkvæmt og óskipulagt svæði, telur umhverfinefnd ekki hægt að taka afstöðu til málsins.

 

6.      2011-05-0028 - Deiliskipulag neðan Gleiðarhjalla.

Lögð fram drög að deiliskipulagi að hlíðinni neðan Gleiðarhjalla, innri hluta ásamt greinargerð við umhverfismatsskýrslu, dags. september 2011. Drögin eru unnin af Teiknistofunni Eik ehf.

Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði auglýst.

 

7.      2011-09-0088 - Auglýsing um umhverfismat tillögu að samgönguáætlun 2011 - 2022.

Lögð fram auglýsing um umhverfismat tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun 2011 - 2022 dags. 23. september sl.

Umhverfisnefnd frestar erindinu.

 

8.      2011-09-0072 - Reiðvegur í Engidal

Lagt fram erindi dags. 20. september sl. frá Elfari Reynissyni fh. Hestamannafélagsins Hendingar þar sem sótt er um leyfi til að gera reiðveg í Engidal samkv. aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008 - 2020, sem lægi frá hesthúsahverfi í Engidal og inn að Fossum austanmegin í dalnum.

Umhverfisnefnd samþykkir erindið enda verði stígurinn í samræmi við Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008 - 2020.

 

9.      2011-09-0109 - Kirkjuból í Skutulsfirði. - Afnot af lóð.

Lagt fram erindi dags. 13. september sl. frá Elfari Reynissyni fh. Hestamannafélagsins Hendingar þar sem farið er þess á leit við Ísafjarðarbæ að félaginu verði veitt heimild til að nýta hús og grunn á lóð þeirri sem er innanvert við fjárhús Kristjáns Ólafssonar í Engidal, Skutulsfirði.

Umhverfisnefnd samþykkir að hestamannafélagið fái lóðina með þeim mannvirkjum sem á henni eru til afnota næstu fimm árin.


10.  2011-09-0100 - Deiliskipulag á Ingjaldssandi.

Lögð fram lýsing að deiliskipulagi að frístundabyggð í landi Sæbóls I, II og III, Álfadals og Hrauns á Ingjaldssandi í Ísafjarðarbæ dags. 23. september 2011.

Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að lýsingin verði samþykkt og kynnt íbúum og hagsmunaaðilum.

 

11.  Önnur mál.

  • Samráðsfundur Skipulagsstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaganna.

Skipulagsstofnun, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, stendur sem fyrr fyrir samráðsfundi stofnunarinnar og sveitarfélaganna. Fundurinn verður haldinn á Icelandair Hótel Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir), fimmtudaginn 6. október n.k.

Lagt fram til kynningar.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 11:20.

 

Gísli Halldór Halldórsson, varaformaður
Magnús Reynir Guðmundsson
Sigurður Jón Hreinsson

Lína Björg Tryggvadóttir

Maron Pétursson

Ralf Trylla, umhverfisfulltrúi

Anna Guðrún Gylfadóttir, byggingarfulltrúi 

Jóhann Birkir Helgason, sviðsstj. umhverfis- og eignasv.

 

 

Er hægt að bæta efnið á síðunni?