Nefnd um sorpmál - 19. fundur - 14. mars 2012
1. Samþykkt um sorphirðu í Ísafjarðarbæ. 2011-10-0041
Lagt fram bréf umhverfisráðuneytisins dags. 14. desember 2011 er varðar staðfestingu á samþykkt um sorphirðu í Ísafjarðarbæ. Meðfylgjandi bréfinu er samþykkt um sorphirðu í Ísafjarðarbæ sem er dagsett af Umhverfisráðuneytinu 14. desember 2011.
Lagt fram til kynningar.
2. Bréf Umhverfisstofnunar. - Starfsleyfi fyrir móttökustöð Ísafjarðarbæjar í Engidal, Skutulsfirði. 2011-02-0022.
Bæjarráð vísaði erindinu til nefndarinnar á 739. fundi þann 27. febrúar 2012.
Lagt fram bréf frá Umhverfisstofnun dagsett 16. febrúar sl., er varðar ákvörðun stofnunarinnar um útgáfu starfsleyfis fyrir móttökustöð Ísafjarðarbæjar í Engidal, Skutulsfirði. Bréfinu fylgir starfsleyfið, sem er gefið út þann 16. febrúar sl. og gildir til 16. febrúar 2028.
Lagt fram til kynningar.
3. Bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs. - Sorpmál í Ísafjarðarbæ. 2011-03-0081.
Bæjarráð vísaði erindinu til nefndarinnar á 733 fundi þann 17. janúar 2012.
Lagt fram bréf Jóhanns B. Helgasonar, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dagsett 12. janúar sl., er fjallar um yfirlit um sorpmál í Ísafjarðarbæ árið 2011, upplýsingar um magntölur og kostnað við sorphirðu og eyðingu.
Lagt fram til kynningar.
4. Bréf Umhverfisstofnunar. – Reglubundið eftirlit, Funa sorpbrennslu í Engidal, Skutulsfirði. 2011-02-0022.
Lagt fram bréf Umhverfisstofnunar dags. 16. febrúar 2012 er fjallar um reglubundið eftirlit með urðun úrgangs hjá Funa sorpbrennslu á Ísafirði og á urðunarstað að Klofningi.
Nefnd um sorpmál bendir bæjarstjórn á að ekki er gert ráð fyrir fjármagni í fjárhagsáætlun til frágangs á Klofningi á þessu ári. Skv. lokunaráætlun er gert ráð fyrir að svo verði, nefndin skorar á bæjarstjórn að setja fjármagn í verkið svo hægt sé að ganga frá urðunarstaðnum. Áætlaður kostnaður er um 4 millj.
5. Bréf umhverfisráðuneytis. - Frumvarp til breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs. 2012-03-0020.
Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneytinu dagsett 2. mars sl., þar sem fram kemur að á vegum umhverfisráðuneytis hefur farið fram vinna við gerð frumvarps til breytinga á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, vegna innleiðingar á úrgangstilskipun 2008/98/EB. Ráðuneytið óskar eftir athugasemdum við frumvarpsdrögin og að þær berist eigi síðar en 16. mars n.k. Bæjarráð vísaði erindinu til nefndar um sorpmál í Ísafjarðarbæ.
Nefnd um sorpmál gerir ekki athugasemd við frumvarpið.
6. Spurning frá nefndarmönnum.
Hvernig var staðið að tilboðum í niðurrif tækjabúnaðar Funa?
Svar: gert var ráð fyrir að fara í niðurrif á tækjabúnaði í Funa árið 2012 en fjármagn fékkst ekki í verkið á árinu og því hefur ekki verið hægt að fara í útboð.
7. Spurning frá nefndarmönnum.
Er búið að selja og þá hvernig var staðið að auglýsingu á skotbómulyftaranum í Funa?
Svar: skotbómulyftarinn er ennþá í eigu Funa.
8. Spurning frá nefndarmönnum.
Eru ekki allir verkferlar í meðhöndlun flokkunarsorps í lagi?
Svar: Umhverfisfulltrúi fer í reglulegt eftirlit í Funa, u.þ.b. einu sinni í viku og skoðar móttökustöðina. Umhverfisfulltrúi hefur ekki gert athugasemdir við verkferlana.
9. Spurning frá nefndarmönnum.
Hvað var flutt mikið úr flugskýlinu af flokkunarsorpi í gryfjuna í byrjun janúar þegar allt var yfirfullt í skýlinu?
Svar: í janúar voru flutt 1.340 kg. og í febrúar voru flutt 540 kg. samtals 1.880 kg.
10. Spurning frá nefndarmönnum.
Hvernig er eftirliti bæjarins með fræðslu starfsmanna og að farið sé eftir verkferlum hjá Kubbi? Og eru þeir í lagi?
Svar: Sjá svar við lið 8. Fulltrúar Ísafjarðarbæjar koma athugasemdum á framfæri við verktaka á verkfundum eða með tölvupósti á milli funda. Ísafjarðarbær ræðir slík mál við fulltrúa verktaka en ekki einstaka starfsmenn verktaka.
Verkferlar verktaka eru í góðum farvegi, um þessar mundir er unnið að gerð vinnumöppu fyrir Funa móttökustöð í samræmi við nýtt starfsleyfi.
11. Kynning fyrir bæjarbúa.
Sorpnefnd lýsir yfir vonbrigðum sínum með þá kynningu sem íbúar Ísafjarðarbæjar hafa fengið frá núverandi verktaka í sorphirðu og sorpförgun. Nefndin álítur að gera þurfi átak í að upplýsa bæjarbúa reglulega um árangur í sorpflokkun og skapa þannig metnað sem skilar sér bæði í fjárhagslegu tilliti svo og að skapa betra mannlíf í Ísafjarðarbæ.
Í útboðsgögnum um sorphirðu og sorpförgun er gert ráð fyrir ákveðinni upphæð árlega til kynningar og upplýsingamála og fer nefndin fer þess á leit að verktaki skili inn áætlun sinni vegna ársins 2012, eigi síðar en 26.mars n.k.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:30.
Kristín Hálfdánsdóttir, formaður.
Henry Bæringsson.
Geir Sigurðsson.
Ralf Trylla, umhverfisfulltrúi.
Jóhann Birkir Helgason, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs.