Nefnd um byggingu hjúkrunarheimilis - 22. fundur - 24. október 2012
Þetta var gert:
1. Staða verkefnisins og samráð við aldraða. 2011-12-0009.
Formaður kynnti fundarmönnum stöðu verkefnisins. Vonast er til að hönnun verði lokið um mánaðarmót mars/apríl 2013 og framkvæmdir geti hafist þegar snjóa leysir vorið 2013. Jafnframt ræddi hann um að gert sé ráð fyrir að byggingin verði samkvæmt nýjustu útfærslu á teikningum, en upplýsti fundarmenn um að ef nauðsyn beri til að gerðar verði breytingar á teikningum verði boðað til fundar með nefndinni, varamönnum og fulltrúum í þjónustuhópi aldraðra.
2. Bókun vegna 1. liðar í fundargerð 20. fundar nefndarinnar þann 4. júlí 2012. 2011-12-0009.
Lögð fram bókun vegna 1. liðar í fundargerð 20. fundar nefndarinnar þann 4. júlí 2012. Á fundinum var Svanlaugu Guðnadóttur, Rannveigu Þorvaldsdóttur og Margréti Geirsdóttur falið að fara yfir hugmyndafræði hjúkrunarheimilisins í samræmi við umræður sem fram fóru á fundinum. Þær vörðuðu staðsetningu dagdvalar og þess hvernig hún kæmi til með að samrýmast rekstri hjúkrunarheimilisins m.t.t. einkalífs og einkarýmis íbúa. Nefndin tekur undir bókunina.
3. Upplýsingar um fund fulltrúa nefndarinnar með velferðarráðuneyti. 2011-12-0009.
Formaður kynnti fundarmönnum efni og inntak fundar með starfsmönnum hjá velferðarráðuneyti og fulltrúa frá Framkvæmdasýslu ríkisins.
Bæjarstjóri mætti til fundar undir umræðum um fjórða lið fundarins.
4. Fjármögnun framkvæmda við byggingu hjúkrunarheimilisins. 2011-12-0009.
Bæjarstjóri kynnti hugmyndir og möguleika varðandi fjármögnun framkvæmda við byggingu hjúkrunarheimilisins. Nefndin telur það áhugaverðan kost að kanna aðrar leiðir í fjármögnun heldur en í gegnum Íbúðalánasjóð og felur bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar.
5. Bréf frá velferðarráðuneyti. 2011-12-0009.
Lagt fram til kynningar bréf, áframsent frá bæjarráði, frá velferðarráðuneyti dagsett 12. október s.l. þar sem fram kemur að ráðuneytið samþykki tengingu hjúkrunarheimilisins við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Í bréfinu er lögð áhersla á mikilvægi þess að á öllum stigum verði unnið í samráði og samvinnu við framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Svar við erindi um lóðamál mun berast frá ráðuneytinu síðar.
6. Önnur mál. 2011-12-0009.
A. Rætt um hliðrun hjúkrunarheimilisins á byggingarreit sem arkitekt Heilbrigðis-stofnunar Vestfjarða, Jes Einar Þorsteinsson, óskaði eftir. Nefndin telur að ekki sé unnt að verða við óskum um frekari hliðrun en þegar hefur verið kynnt arkitekt stofnunarinnar.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 17:50.
Eiríkur Finnur Greipsson, formaður.
Magnús Reynir Guðmundsson.
Elías Oddsson.
Daníel Jakobsson.
Margrét Geirsdóttir.
Jóhann Birkir Helgason.