Stjórnarfundur 23. mars 2021
Íbúasamtökin Átak
Fundargerð
Fundur 23. mars 2021 kl.19:30
Þingeyri
Mætt: Guðrún, Wouter, Guðmundur og Helgi fh. íbúasamtakanna.
Agnes fh. ÖVD og Valdís fh. Blábankans.
Dagskrá:
- Farið yfir mál rædd á síðasta fundi. Mál rædd á fundi með bæjarstjóra, bæjarritara og sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs
Hreystitæki: Ekki útilokað að við getum fengið pólsku tækin ef vilji er fyrir því – bæjarritari óskaði eftir frekari upplýsingum um hugmyndir varðandi hreystitæki – 4 milljónir eru til í útisvæði (þ.e. framkvæmdafé) á Þingeyri
Stígagerð – féð er fyrir allan Ísafjarðarbæ en sviðsstjóri umhverfis og eignasviðs sagði að það megi gera ráð fyrir að komi nokkuð af því hingað – eitthvað til Suðureyrar í verkefni sem þarf að klára. – lagt til að þetta verði skoðað í samhengi við styrk sem fengist hefur úr uppbyggingarsjóði ferðamannastaða upp á 3.1 milljón. Skilti fylgja með í stígagerðinni frá Ísafjarðarbæ.
Ákveðið að samtökin hafi samráð við Ísafjarðarbæ og verktaka til að tryggja að stígarnir verði kláraðir þetta vor/sumar.
Aðalskipulag – spurt um stöðu – allt á ís og mjög stutt á veg komið m.a. vegna kórónuveirunnar. Deiliskipulagið fylgir aðalskipulaginu svo nú eru ekki skipulagðar lóðir. Ef áhugi er á lóð, þarf viðkomandi að finna lóðina og senda fyrirspurn til Ísafjarðarbæjar.
Smiðjan – 67114 Vélsmiðja GJS í fjárhagsáætlun ca 850 000 spurt var um aukinn opnunartíma en á bls. 35 í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar með greinargerð segir: Sótt verður um styrki í ýmis verkefni sem lúta að lifandi safni. Þá verður unnið áfram í að tryggja reglulega opnun Smiðjunnar á Þingeyri. Enginn kannaðist við þetta, formaður mun fylgja málinu eftir við Ísafjarðabæ.
Erindi um Gramsverslun hefur verið lagt fyrir.
Upplýsingagjöf vegagerðarinnar Það er í verkahring sveitarfélagsins að ýta á Vegagerðina um áreiðanlegar upplýsingar um færð á Dynjandisheiði.
Auk ofangreindra mála
Lóðamál spurt hvort hægt væri að skipuleggja lóðir sem væru tilbúnar til umsóknar t.d. í Hlíðargötu– langt ferli – sviðsstjóri sagði betra að sækja bara um einstakar lóðir. Samtökin óska eftur samstarfi við sveitarfélagið varðandi úthlutun lóða og áður en deiliskipulag er fastlagt.
Virkjanir í botni, veitt hefur verið leyfi til að umsækjendur geri deiliskipulag með fyrirvara um hverfisvernd og friðlýsingu sem nú er í aðalskipulagi – nærri jafn stór og Mjólkárvirkjun með tilheyrandi tengimannvirkjum og infrastrúktur (7 mw), engin störf?
Þjóðgarður Mikill áhugi vegna þjóðgarðs og tengdra tækifæra - ákveðið að samtökin beiti sér fyrir því að Þingeyri fái gestastofuna
- Yfirlit frá tengiliðum Ísafjarðarbæjar um helstu mál á döfinni
Tengiliðir ekki mættir á fundinn.
- Óformlegt samstarf við íbúasamtökin á Flateyri og Suðureyri.
Mkill áhugi á Flateyri og Suðureyri um samstarf um heimastjórn. Samtökin eru sammála um að hefja samstarf. Skipulagsmál og hvernig öll samtökin geta átt betri samskipti við sveitarfélagið.
- Opið hús Átaks 13. apríl um vorverk – sumarblóm og slátt og Grænuvikuna
Íbúar hvattir til að hjálpast að, til dæmis á Grænni viku þar sem kemur gámur fyrir garðaúrgang og annað, göturnar hjálpast að, og grill að lokum. Íbúasamtökin munu funda um málið og kynna hugmyndir í Grænni viku fyrir Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar.
- Fulltrúi í stjórn Blábankans
Ákveðið var að formaður óski eftir fundi með stjórn Blábankans til að heyra nánar af áformum hans.
- Fulltrúi í stjórn ÖVD og íbúafundur
Formaður og Guðmundur verða fulltrúar
- Önnur mál
Æskilegt að bæta aðbúnað þar sem selirnir hanga. Það getur verið hættulegt því fólk stoppar bílinn á miðjum vegi. Svæðið er á ábyrgð Vegagerðarinnar. Samtökin munu skoða leiðir til að búa til aðstöðu fyrir sela-áhugafólk
Ákveðið að beita sér fyrir heimastjórnarfyrirkomulagi gagnvart Ísafjarðarbæ.
Samtökin vilja geta deilt fréttum í Facebook hópnum Á döfinni frá hópnum Íbúasamtökin Átak. Guðmundur tekur að sér verkefnið.
Í fréttum kom fram að Arctic Fish áformi ekki að opna sláturhús á Þingeyri en annars staðar. Samtökin óska eftir að ræða við Arctic um starfsemina á Þingeyri.
Fundi slitið 21:45
Fundarritari: Guðrún D. Guðmundsdóttir
Viðhengi: Erindi um skipulag/Gramsverslun
Erindi til bæjarstjóra frá íbúasamtökunum Átaki
Efni: Framkvæmdir í tengslum við deiliskipulag fyrir miðbæ og hafnarsvæðið á Þingeyri
Nú er unnið að endurskoðun á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Í tengslum við þá vinnu var haldinn íbúafundur í Blábankanum þann 10. október 2020 þar sem framtíðarskipulag Þingeyrar og nágrennis var til umræðu.
Gildandi deiliskipulag fyrir miðbæ og hafnarsvæðið á Þingeyri, sem samþykkt var í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þann 5. nóvember 2015, kom einnig til umræðu í þessu samhengi.
Auk þess að kveða nánar á um útfærslu á gildandi aðalskipulagi fyrir umrætt svæði þá er að finna í deiliskipulaginu nokkrar tillögur að úrbótum á svæðinu sem enn hafa ekki komið til framkvæmda.
Íbúasamtökin Átak óska hér með eftir svörum frá Ísafjarðarbæ við þeim spurningum sem settar eru fram í tengslum við umrætt deiliskipulag.
- Spurningar Átaks í tengslum við grein 3.8 og 4.1
Í grein 3.8 segir: „Tekið verður tillit til þessara aðstæðna við greiningu á umferð um miðbæinn og lagt til að umferð faratækja um einstakar götur verði skilgreind. Fjarðargata ber ekki þunga umferð til móts við hús nr. 4 og 5 en húsin þrengja bæði að götunni. Eðlilegt er að beina aðalumferð niður á Sjávargötu við gatnamótin á móti Fjarðargötu 14. Með merkingum þarf að gera vegfarendum ljóst að Fjarðargata frá nr. 2-14 sé aðeins fyrir létta umferð fólksbíla“.
Grein 4.1 fjallar einnig um umferð í miðbæ Þingeyrar, þar segir: „Lagt er til að dregið verði úr þungri umferð frá húsi nr. 14 við Fjarðargötu allt að Hótel Sandafelli, Hafnarstræti 7. En þungaumferð beint niður á Sjávargötu og síðan aftur á Hafnarstræti við Hótel Sandafell og frystihús. Þetta verði gert með merkingum og ef nauðsyn krefur yfirborðsfrágangi í götunum. Umferð um Sjávargötu verði gerð eins greið og létt og kostur er“.
Athugasemd frá Átaki: Töluverð umferð gangandi/hjólandi vegfaranda er á svæðinu sem um ræðir, enda er þar að finna þjónustu og afþreyingu fyrir íbúa og gesti. Þar má nefna bensínstöð/verslun/veitingastað, Simbahöllina, Blábankann, hljóðfærasafn, víkingasafn, Koltru handverkshús/upplýsingamiðstöð og Hótel Sandafell. Þá er Vélsmiðja GJS, lifandi safn, rétt handan við hornið.
Athugasemd frá Átaki: Sá hluti Fjarðargötu sem grein 3.8 fjallar um ber ekki þunga umferð, en einnig er vert að nefna að töluvert er um gangandi/hjólandi vegfarendur á þessum hluta götunnar. Blábankann, Simbahöll og Hamónu er að finna við þennan hluta götunnar, allt staðir sem draga að sér gangandi/hjólandi vegfarendur. Þá eru leikvöllurinn við leikskólann og túnið við Simbahöllina vinsæl leiksvæði íbúa og gesta og því töluverð umferð gangandi vegfarenda á milli þeirra og þar með yfir þann hluta Fjarðargötunnar sem um ræðir. Umrædd tillaga eykur því verulega öryggi gangandi/hjólandi vegfarenda og barna að leik.
Athugasemd frá Átaki: Með því að beina aðalumferð niður á Sjávargötu má gera ráð fyrir að sjálfkrafa hægist á umferð við það að beygja af Fjarðargötu. Þannig aukast líkur á að hægt sé að stjórna betur hraða þeirra ökutækja sem aka í gegnum miðbæ Þingeyrar. Í þessu samhengi er einnig vert að minnast á Grunnskóla Þingeyrar, sem er að vísu ekki inni á umræddu deiliskipulagi, en stendur við umræddan stofnveg. Mikilvægt er að öllum tiltækum ráðum sé beitt til þess að hægja á ökutækjum sem aka fram hjá grunnskólanum.
Tillögurnar í deiliskipulagi eru því í fullu samræmi við tilgang og markmið miðbæjar, þar sem umferð ökutækja er stýrt og öryggi og aðgengi gangandi/hjólandi vegfarenda aukið.
Spurning frá Átaki: Hvernig verður ofangreindum tillögum framfylgt og hvenær?
Mynd: Kort úr deiliskipulagi þar sem tilfærsla stofnvegar er merkt með rauðum lit.
Mynd: Þingeyri er lifandi bær og umferð atvinnutækja er nauðsynleg, en kannski ekki endilega eins og hún er í dag?
- Spurningar í tengslum við grein 4.1
1) Í grein 4.1 segir: „Lagt er til að Gramsverslun, Vallargata 1, verði flutt á nýja lóð austan við Hafnarstræti á hornið fyrir ofan Hafnarvogina og til hliðar við beitingaskúrinn. Einnig að húsið verði gert upp og að í því verði miðstöð ferðaþjónustu fyrir „Suður Ísafjarðarbæ““.
Athugasemd frá Átaki: Lagt er til að Gramsverslun fái nýtt hlutverk sem miðstöð ferðaþjónustu fyrir „Suður Ísafjarðarbæ“. Með tilkomu Dýrafjarðargangna öðlast þessi tillaga aukna vigt. Ljóst er að staðsetning Þingeyrar gerir það að verkum að Gramsverslun gæti ekki einungis verið miðstöð fyrir ferðaþjónustu fyrir „Suður Ísafjarðarbæ“ heldur mögulega fyrir bæði norður- og suður Vestfirði, sem „Hjarta Vestfjarða“. Með tilkomu Dýrafjarðargangna gæti Þingeyri orðið fyrsti áfangastaður ferðamanna sem heimsækja Vestfirði þegar leið þeirra liggur yfir Dynjandisheiði og um Dýrafjarðargöng. Til þess að Þingeyri geti gegnt því hlutverki sem bænum er ætlað varðandi „Suður Ísafjarðarbæ“ og hugsanlega einnig sem „Hjarta Vestfjarða“ þá er það lykilatriði að tillagan varðandi Gramsverslun verði að veruleika.
Athugasemd frá Átaki: Gramsverslun hefur mikið menningarlegt gildi. Húsið er eitt af elstu húsum Þingeyrar. Það var reist af Gramsverslun árin 1872-1874, en Gramsverslun var aðalverslunin á Þingeyri frá 1867 og fram undir 1900. Sagt var að Gramsverslun hafi verið veglegasta verslunarhús á Vesturlandi þegar það var byggt. Húsið var seinna í eigu Kaupfélags Dýrfirðinga sem rak þar verslun þar til nýtt verslunarhús var reist um 1950. Í húsinu býr því mikil saga og það hefur sýnt sig að hús með sögu og lifandi starfsemi draga að ferðamenn en einnig gæti húsið og starfsemi þar aukið lífsgæði íbúanna sjálfra. Það væri Ísafjarðarbæ til mikils sóma ef að jafn merkilegt hús og Gramsverslun væri gert upp og fengi nýtt hlutverk. Eins og staðan er í dag er hins vegar ekki langt í að húsið verði ónýtt.
Athugasemd frá Átaki: Í deiliskipulagi segir: „Með flutningi, endurgerð og nýju hlutverki hússins er gamla hjarta bæjarins – Balinn – aftur orðinn miðpunktur Þingeyrar. Stefna Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar er ótvírætt að varðveita gamla byggð og finna henni nýtt hlutverk“. Balinn, með Gramsverslun, Salthúsið (elsta hús Þingeyrar frá 1732), þjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn og íbúa, er allt til þess fallið að gera Þingeyri að eftirsóknarverðum stað til að búa á og heimsækja.
Spurningar frá Átaki:
- i) Hefur Ísafjarðarbær í hyggju að framfylgja ofangreindum tillögum?
- ii) Ef svo er, hvenær?
iii) Hefur verið gerð ástandsskoðun á húsinu?
- iv) Hver er áætlaður kostnaður vegna flutnings og endurbyggingar hússins?
- v) Um er að ræða hús með mikla sögu, hefur verið rætt við Minjavernd eða Minjastofnun Íslands vegna hússins?
- vi) Hefur Ísafjarðarbær rætt að selja húsið? Ef svo er, hafa borist kauptilboð í húsið? Ef til greina kemur að selja húsið væri það þá háð skilyrðum um starfsemi í húsinu, sbr. tillögur í deiliskipulagi?
Þá óskar Átak hér með eftir gögnum sem Ísafjarðarbær hefur yfir að ráða og nýst gætu til að greina stöðu og tækifæri tengd Gramsverslun (t.d. ástand hússins, kostnaðaráætlun við flutning og endurbætur, tillögur að starfsemi í húsinu, osfrv.).
2) Spurningar í tengslum við grein 4.6
Í grein 4.6 segir: „Gert er ráð fyrir góðum gönguleiðum sem og gangstéttum með götum sem liggja með hæðarlínum í landinu en einnig þvert á landið milli Brekkugötu niður á Fjarðargötu og áfram niður að Sjávargötu á tveimur stöðum. Eins frá Hlíðargötu niður á Hafnarstræti og áfram niður á Sjávargötu“. Þá er í deiliskipulagi einnig rætt um garða, opin svæði og almenna fegrun miðbæjar Þingeyrar.
Athugasemd frá Átaki: Yfirbragð miðbæjar hefur mikil áhrif á ásýnd bæja og upplifun bæði íbúa og gesta. Göngustígar, opin svæði og snyrtilegt umhverfi gegna mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar. Úrbætur á gangstéttum, stígum og opnum svæðum styðja jafnframt þau áform sem eru útlistuð í deiliskipulagi um að gera Þingeyri að aðlaðandi áfangastað og miðstöð ferðaþjónustu fyrir „Suður Ísafjarðabæ“, að ekki sé talað um að Þingeyri verði hugsanlega „Hjarta Vestfjarða“.
Spurning frá Átaki: Hvenær stendur til að fara að ofangreindum tillögum varðandi gangstéttar, göngustíga, lagfæringu á svæðum sem skilgreind eru sem opin svæði og aðra fegrun miðbæjar Þingeyrar?
Mynd: Tillaga í deiliskipulagi: Balinn eftir flutning Gramsverslunar og fegrun svæðisins.
Virðingarfyllst,
Átak íbúasamtök á Þingeyri