Stjórnarfundur 16. september 2024
Mætt voru : Karl Bjarnason, Óðinn Hauksson, Marsibil Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir.
Tekið fyrir að þessu sinni :
Formanni íbúasamtakanna og einum stjórnarmanni var boðið á vinnustofu 12 september s.l. er bar heitið -hverfisráð og nærsamfélög og fór fram í Háskólasetrinu á Ísafirði.
Allir hverfisráðsfundarmenn voru sammála um að, allir vilja sjá starfsmann frá ísafjarðarbæ staðasettan í bæjarfélögunum, sem getur sinnt öllum minniháttar viðvikum er til falla, t.d. hér á Þingeyri, að fylgjast með neysluvatninu okkar, viðvik fyrir sundlaug, grunnskóla, leikskóla, vera eftirlitsmaður á staðnum, fylgjast með þeim verkefnum sem eru í vinnslu í bænum hverju sinni. Ætlum að kostnaður Ísafjarðarbæjar myndi minnka til muna.
Það kom einnig fram sem hefur svo sem verið rætt oft áður, að hverfisráð vilja vera vera tekin með og fyrr inn í fyrirhugaðar framkvæmdir í þorpunum og fá tækifæri til að segja sitt álit áður en ákvarðanir eru teknar. Heimastjórn var nefnd í þessari umræðu, hvernig hægt er að efla og styrkja röddina úr litlu byggðarlögunum í jaðarbyggðum Ísafjarðarbæjar svo þeim finnist þau vera hluti af heildinni. Fulltrúar hverfisráðs vildu einnig taka upp aftur, að ákveðin fjárhæð á ári frá Ísafjarðarbæ renni til hvers hverfisráð/þorps. Þetta var þörf og góð vinnustofa.
Gramsverslun var rædd, en einn stjórnarmaður íbúasamtakanna varð að hringja út Björgunarsveitina nú í lok ágúst en þá var þakplata við það að fjúka af þakinu. Íbúar orðnir langþreyttir á að eitthvað fari að ske varðandi uppbyggingu þessa sögufræga húss. Ef ekki er búið að ganga frá eignaskiptum/þinglýsingu, vilja íbúasamtökin sjá Ísafjarðarbæ setja frest á tilvonandi eiganda varðandi uppbyggingu hússins en hann var valinn sem eigandi á sýnum tíma, (vitna í fundargerð þessa tíma, fyrir ca 3 árum) “ Einnig þykir tímarammi vera skoðaður að vel athuguðu máli frá skipulagsstigi til upphafs framkvæmda “, og ef ekkert skeður innan tímarammans að rifta þá samningnum. Nú eru að verða komin 3 ár frá því Kjartan Ingvarsson fékk þetta sögufræga hús til varðveislu og það heldur bara áfram að grotna niður.
Sláttur hér á bæ byrjaði seint eða í endaðan júní og hefur enn ekki verið slegið allt sem merkt var að ætti að slá hér í bænum og er það miður.
Sama má segja um girðinguna út í sjó við grindarhliðið en þar var aldrei klárað að girða og ekki heldur var sett rafmagn á rafmagnsgirðingu svo hér hefur sauðfé gengið lausum hala í allt sumar og eru allir sammála um það að þetta séu óásættanleg vinnubrögð af hálfu verktaka, hér vantar eftirlit á vegum Ísafjarðarbæjar.
Snjómokstur virðist ekki vera kominn í útboð fyrir Þingeyri og þykir okkur í hverfisráðinu skrýtið þar sem komið er haust og vera til þess fallið að vera fyrir útvalda þar sem tíma tekur að skaffa sér tækjabúnað til verksins fyrir áhugasama sem hefðu kanski áhuga á útboðinu, og best væri að sjálfsögðu fyrir íbúa Þingeyrar að moksturstækið sé staðsett í bænum og í höndunum á heimamönnum.
Djúpar holur eru hér og þar í malbikinu í bænum, t.d. upp á Brekkugötu, við Aðalstræti 1 og víðar, leggjum til að starfsmaður áhaldahúss taki rúnt um bæinn ef hægt væri að setja í þetta fyrir veturinn.
Hraðahindranir voru settar upp í ágúst en þær virtust hafa dagað uppi hjá Vegagerðinni á Ísafirði en betra seint en aldrei. Fram kom á fundinum almenn ánægja með hraðahindranirnar þær væru þarfar en hraðahindrun við skólann mætti gjarnan vera varanleg og vera allt árið eins og sú sem er við endann á Aðalstræti (steinsteipt), þar sem Þingeyri er frekar snjóléttur bær á veturnar er það einróma álit okkar að þörf sé fyrir hraðahindranir í bænum allt árið um kring en ekki eins og þær sem voru settar upp núna og verða væntanlega teknar niður fyrir veturinn.
Ruslagjald við gámabíl er kemur hér 2-3 í viku ætti að leggja af, nefndarmenn eru sammála um að ruslagjald fyrir heimilissorp sé orðið svo dýrt að það litla rusl sem annars kemur frá venjulegu heimili ætti að vera hægt að kasta án gjaldtöku.
Það hefur sýnt sig bæði hér og annar staðar að fólk losar sig við rusl á fáförnum stöðum vegna þess að það er dýrt að losa sig við rusl.
Vegurinn upp á Sandafell, vegurinn mikill segull fyrir ferðamenn og mikið keyrt þarna upp af bílum með fólk úr skemmtiferða skipum, plús að þarna ganga upp fjöldi ferðamanna ár hvert. Það eru þrír aðilar sem eru með búnað þarna upp á, en það er Neyðarlínan, Míla og Rúv, búið er að hafa samband við Neyðarlínuna og Mílu og segjast þeir ekkert hafa að gera með þennan veg og sjá sér ekki fært að aðstoða okkur með viðhald á þessum vegi.
Við í hverfisráði Þingeyrar förum þess á leit við Ísafjarðarbæ að hann sæki um styrk til Ferðamálastofu í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða en þar er nú verið að auglýsa styrki en þar stendur : Sjóðnum er heimilt að fjármagna framkvæmdir er snúa að *öryggi ferðamanna, *Náttúruvernd, viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða og ferðamannaleiða.
Svo má kanski spyrja sig hvort innleiða ætti þjónustugjald á einhvern hátt eins og á Dynjanda.
Á næsta ári 2025 viljum við í Hverfisráði Þingeyrar sjá að um leið og Hafnarstræti verði malbikað verði einnig malbikað bílastæði við félagsheimili, bílastæði við grunnskólann, Hrunastígur og Hlíðargata. Einnig að stækkað verði bílastæðið við Tjörn eins og talað var um á aðalfundinum s.l. vor.
Talað hefur verið um það áður að gott væri að gerðar yrðu tröppur af bílastæðinu fyrir neðan leikskólann og viljum við taka það upp aftur þar sem nú er búið að setja upp skilti út við veg og gerir mokstur að leikskólanum erfiðari en ella og yrðu tröppurnar frekar til þess að fólk legði bílum á bílastæðið á meðan það hleypur inn með börnin, en mikið er um það að fólk leggur bílnum í brekkunni sem getur skapað hættu sérstaklega á veturnar.
Varðandi skiltin sem voru sett upp af Ísafjarðarbæ í sumar (við grunnskóla, leikskóla, sundlaug), er það dæmi um hversu gott hefði verið ef haft hefði verið samráð við fólk á staðnum þar sem þessi skilti eru mjög illa staðsett.
Jólaskraut, viljum minna á jólaskraut sem okkur var sagt að pantað yrði fyrir Þingeyri fyrir þessi jól.
Vegprestur, er eitthvað að ske í þeim málum ?
Brekkugata 5, þar skeður ekkert, og hefur ekkert skeð í 2 ár, getur svona hálf klárað hús verið svona endalaust ? Mikil óprýði….
Vegurinn niður Hafnarstræti, niður að tjaldstæðinu, á ekki að loka honum og beina tjaldstæða umferðinni í gegnum tjaldstæðið og framhjá sundlauginni ? Fregnir af því að tjaldstæða gestir laumi sér þarna út, oft án þess að borga.
Ruslakassi við grunnskólann ónýtur og ítrekum við fyrri beiðini um fleiri ruslakassa á ljósastaura.
Spurning hvort gera mætti ásýnd Þingeyrar enn fallegri þegar keyrt er inn í bæinn ef útbúin væri tjörn með bekkjum og gróðri fyrir neðan brekkuna á milli Fjarðargötu 36 og 40 en þar er eins og við vitum oft mikið vatn sem kemur niður hlíðina og fer í ræsi undir veginn.
Okkur í hverfisráði hefur verið bent á það að Þingeyri er ekki á vegskilti t.d. í Flókalundi en á þeirri leið upp Dynjandisheiði er jú Þingeyri næsti þéttbýlisstaður, sömu sögu er að segja þegar þú keyrir frá Ísafirði í gegnum Breiðadals göngin að þar er Þingeyri heldur ekki á skilti. Úr þessu þarf að bæta !
Kvíar frá ArticFish liggja enn óhreyfðar fyrir framan Þingeyri, og við í hverfisráði ítrekum, er ekki hægt að þrýsta á eigendur að fjarlægja þetta. Þetta eru kvíar sem koma ekki til með að verða notaðar, eru orðnar gamlar og rusl farið að reka úr þeim víða upp í fjörur Dýrafjarðar. Við í hverfisráði spyrjum okkur, hefur svona stórfyrirtæki eins og ArticFish engum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu, er bara að hirða og ekkert að gefa af sér. Það lítur þannig orðið út fyrir íbúum Þingeyrar, en þeir láta ekkert af hendi rakna til samfélagsins hér í þessu litla plássi sem gefur þeim þó mesta arðinn.
Fleira ekki gert, fundi slitið.