Stjórnarfundur 10. mars 2025

Fundargerð Hverfisráðs Þingeyrar.

10 mars 2025 kl. 17.

Mætt eru : Marsibil Kristjánsdóttir, Karl Bjarnason, Óðinn Hauksson, Jovina Sveinbjörnsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Guðrún D. Guðmundsd.

Ákváðum að láta svör varðandi nöfn á göngustígum hér á Þingeyri fljóta með í fundargerðinni.

1. Tekið var fyrir bréf frá sviðsstjóra Ísafjarðarbæjar varðandi nöfn á göngustígum.
Þ1 verður að laga ef á að nota, leggjum til að sá stígur fá nafnið Vatnsveitustígur, þar sem Ásgarður liggur töluvert innar í bænum.
Þ2 gil á göngustíg þarf að laga erfitt yfirferðar, þyrfti ef vel ætti að vera að setja brú en einfaldast væri að tengja Þ1 og Þ2 sjá meðfylgjandi teikningu.
Það þarf að tengja hringinn í kringum Sandafell, þá yrði þetta mjög falleg og skemmtileg göngu og jafnvel hjólaleið. Við erum ekki alveg samþykk nafngjöfinni á göngustígunum (sjá kort) og vonandi verða svo stígarnir merktir í framhaldinu. Það þyrfti að laga veginn upp á Sandafell og merkja hann líka sem göngustíg! Svo þarf að slá lúpínuna sem er á göngustígunum, með lítilli vél sem hægt væri að nota við slátt á sumrin og gangstétta mokstur á vetrum. Viljum gjarnan þrýsta á að hringurinn fyrir Sandafell verði kláraður!

2. Girðingar við bæjarmörkin, förum fram á að girðingar verði lagaðar tímanlega og verði fjárheldar! En fjárgirðingin við grindarhliðið fyrir innan bæinn er mjög léleg ef ekki ónýt, sem sagt frá grindarhliði og niður í sjó.

3. Gangstéttir! Okkur finnst þetta ansi undarleg úttekt á gangstéttum hér í bæ. Gangstéttir sem sagðar eru í lagi eru í mjög slæmu ástandi. Gott væri að fá einhvern frá Ísafjarðarbæ til að koma og fara yfir ástand gangstéttana með t.d. Karli Bjarnasyni stjórnamanni í Hverfisráðinu en hann þekkir ástand gangstéttanna hér mjög vel.

Vatnslagnir, þar sem skipt hefur verið út lögnum að íbúðarhúsum viljum fara fram á að gengið sé frá um leið og verkið er búið. Fá mann frá tæknideild á staðinn. En hér eru gangstéttar á tveim stöðum ófrágengnar eftir svona framkvæmd.

4. Báturinn Dýrfirðingur hefur fokið til af bátakerru, þarf að laga bátinn á kerrunni og koma honum í burtu, því báturinn stendur við veginn niður að hafnarsvæðið og hinum megin við sjoppuna Hammonu. Báturinn var seldur aðkomumanni sem heyrst hefur að sé fluttur af landi brott.

Bátur fyrir neðan Fjarðargötu 35 og 35 A, þarf að færa upp í lóð ef eigandi ætlar sér að eiga hann, vantar orðið húsið á bátinn. Eigandi bátsins sami og eigandi að Fjarðargötu 35 A skilst okkur. Stór akkeri eru einnig þarna fyrir neðan á lóðinni, sem ekki er vitað hver á, orðin niður gróin en gæti verið gaman að rífa upp og gera eitthvað með (setja á góðan stað).

5. Sorp kassar á ljósastaura, enn sést ekkert til þeirra en við erum margt oft búin að biðja um 5 kassa til endurnýjunar þar sem tveir eru alveg ónýtir og þrír lélegir. Viljum gjarnan fá kassana sem fyrst, til að fá grunnskólanema til að mála á tunnurnar fyrir skóla lok nú í vor, eins og gert var við sorpkassana sem eru á ljósastaurunum. Þetta getur ekki kostað svo mikinn pening að ekki sé hægt að endurnýja svona einfalda hluti, hefur mikið að segja fyrir okkur íbúa hér á Þingeyri sem viljum búa í hreinum bæ.

6. Hraðahindranir sem settar voru upp í fyrra sumar, viljum við gjarnan fá þær tímanlega upp aftur um leið og það fer að vora ! Og fá varanlega hraðahindrun (steypta) við grunnskólann, þar finnst okkur þurfa að vera hraðahindrun allt árið ekki síst þegar börnin eru í skólanum! Og það mættu gjarnan vera fleiri hraðahindranir, mættu alveg vera tvær á leið inn í bæinn eins og er t.d. á Súgandafirði?

Vistgata frá Ástralíu út að endanum á Blábankanum, leggjum til að gatan verði lokuð eða umferð takmörkuð á einhvern hátt frá miðjum júni til miðjan ágúst. Og að steinar verði settir sem umgjörð utan um túnið fyrir neðan Simbahöllina (útivistarsvæði), en þar eru alltaf börn að leik yfir sumartímann. túnið mætti t.d. nefna...... Simba tún.

7. Grenndargámar / grenndarstöð, kostnaðurinn við grenndarstöðina finnst okkur alltof hár á hvert heimili hér í bæ. Væri ekki hægt að nota bílinn sem kemur hér 2x – 3x í viku til að tæma grenndargámana? Þessi rusla mál þarf virkilega að endurskoða... í Vesturbyggð fer allt í sama gáminn.

8. Bílhræ safnast nú upp sem aldrei fyrr, númerslaus hér og þar um bæinn, hvetjum heilbrigðiseftirlitið til að koma og fara hring! Annað mál er að ekki er nóg að líma aðvaranir á bílana heldur verður að fylgja þessum viðvörunum eftir!

9. Brekkugata 5 stendur óhreyfð ár eftir ár óuppgerð, húsið hlýtur að teljast hættulegt þar sem stillas er utan á húsinu og plastið fokið úr gluggunum.

10. Lögreglumál, íbúi kom að máli við Hverfisráð varðandi ónæði af ljósi utan á húsi nágrannans. Lögreglan hefur fylgst með og tekið eigendur ljóssins/húsins tali en tiltekið ljós er það sterkt (fyrir ofan bílskúrshurð) að það blindar eldri hjón sem búa á móti þegar þau horfa út um eldhúsgluggann hjá sér. Lögreglan segir að þetta mál sé nú komið í hendur Ísafjarðarbæjar og hvetjum við Ísafjarðarbæ til að gera eitthvað í málinu. Það er alveg augljóst að ljósið er alltof sterkt sem útiljós inn í íbúðabyggð, það hljóta að vera einhverjar reglur sem segja til um hvað útiljós í íbúðabyggð mega vera sterk.

Íbúarnir sem hafa þurft að búa við þetta þurftu á dögunum á þjónustu sjúkrabíls frá Ísafirði að halda og var bílstjóri sjúkrabíls í vandræðum með að bakka að húsinu því ljós nágrannans blindar svo mjög!

11. Tvær nýjar/gamlar kvíar frá Arctic Fish eru nú komnar hér fyrir utan bæinn og jafnvel fleiri á leiðinni, og við spyrjum er verið að safna upp rusli í okkar fallega firði. Gott og blessað að hafa fisk í kvíum hér fyrir utan en svo er ekki því þetta eru orðnar úreldar kvíar og rekur ruslið úr þeim upp í fjörur hér í Dýrafirði, meðal annars í verðmætt æðarvarpið á Mýrum. Við íbúar Þingeyrar sættum okkur ekki við að Dýrafjörður sé notaður til að geyma fljótandi ruslahaug hér í bakgarðinum hjá okkur! Við hljótum að hafa eitthvað að segja um svona mál, þegar miljarða fyrirtæki fær að nota og nýta okkar fallega Dýrafjörð er lágmark að gengið sé vel um af fyrirtækinu í þessu tilfelli Arctic Fish. Hér áður fyrr fóru starfsmenn Arctic Fish fjörurnar einu sinni á ári en svo var það höfum við heyrt bannað af fyrirtækinu, og svörin þau að starfmenn hefðu annað og þarvara að gera.

12. Við í Hverfisráði ýtrekum ósk okkar um að hér verði ráðinn starfsmaður sem fyrst.

13. Hér vantar litla vél til að moka gangstéttir, en þær vélar sem nú eru notaðar eru svo þungar að gangstéttirnar brotna undan þyngd vélanna og eru á engan hátt nothæfar í mokstur á gangstéttum.

14. Bleyta úr hlíðum Sandafells veldur mikilli hálku á ganstéttum víða, t.d. á Aðalstræti 11 og 19 og svo á veginum við leikskólann svo eitthvað sé nefnt.

15. Okkur í Hverfisráði Dýrafjarðar finnst alltof lítið af þeim peningum sem koma í kassann hjá Ísafjarðarbæ frá Arctic Fish *Dýrafirði* skili sér hingað yfir á Þingeyri og er það mjög miður....

16. Hafnarkanturinn hér á Þingeyri, á stórstreymi flýtur sjórinn yfir veginn út á bryggjuna þar sem bátar Arctic Fish og Egill IS 77 liggja venjulega við. Algjörlega óásættanlegt að fá ekki fjármagn til að laga svona hluti, ekki síst þar sem við búum í firði sem gefur miljarða af sér og við fáum lítið sem ekkert af þeim peningum í hlutfalli við það, í innviði samfélagsins. (t.d. úr fiskeldissjóð).

17. Innsiglingarvitinn virkar ekki og hefur ekki virkað frá því framkvæmdir hófust við hreinsivirki/dælustöð s.l. haust.. Trúlega hefur rafmagnsstrengur verið rofinn að vitanum en á honum hefur ekki logað eftir að framkvæmdir hófust þarna niður á Oddanum, og er það mjög bagalegt þar sem þetta er innsiglingar viti við Þingeyri. Haft hefur verið samband nokkrum sinnum yfir á Ísafjörð en ekkert bólar enn á ljósi.

18. Hreinsivirki, fer á flot og gámurinn snýr vitlaust ef hægt á að vera að þjónusta gáminn. Þurrtankur sem á að vera þurr er alltaf fullur af sjó. Svæðið við hreinsivirkið lýtur hræðilega út og frágangur virðist greinilega hafa gleymst af verktaka, bara drasl og steypubrot.... Hvar er eftirlitið frá Ísafjarðarbæ ??? Og hvenær verður verkið klárað upp Hafnarstrætið ??

Fleira ekki gert, fundi slitið kl 19:15

Er hægt að bæta efnið á síðunni?