Fundur 28. október 2024
Fundargerð hverfisráðs Þingeyrar.
28. október 2024
Mætt eru: Karl Bjarnason, Marsibil Kristjánsdóttir, Óðinn Hauksson, Jovina M Sveinbjörnsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir.
Tekið fyrir á þessum fundi:
Vinna við Hafnarstrætið (skolp/hreinsivirki) er nú komin vel í gang og velta fundarmenn því fyrir sér hver skuli nú eiga að sinna þessari hreinsi/dælustöð? Annars virðist eins og ekki eigi að fara lengra í Hafnarstrætinu en upp að horninu á frystihúsinu en ekki upp að horninu á Hafnarstræti og Aðalstræti eins og kynnt var á aðalfundi íbúasamtakanna s.l. vor, ákveðið að óska eftir fundi með Ísafjarðarbæ.
Sjávargatan ljóslaus og víðar í bænum, tala við Orkubú.
Margir íbúar kvarta yfir því að símasamband hjá þeim sem eru í viðskiptum við Símann sé lélegt og slitrótt, sjónvarpið frjósi ofl. eftir að möstur voru sett niður á bryggjunni hér í bæ, þarf að kanna þetta !
Brekkuháls, þar myndum við vilja fá setta upp prílu fyrir næsta sumar til að komast yfir rafmagns girðingu fyrir þá sem vilja ganga upp á Þríhnjúkafjall. Og einnig að setja upp skilti að þarna sé bannað að gera þarfir sínar.
Næsta sumar óskum við eftir að göngustígur fyrir ofan byggðina og liggur í gegnum lúpínuna verði slegin, ætti ekki að vera svo mikið mál með ruddasláttuvél. Spurning hvort ekki væri hægt að finna sjálfboðaliða í göngustíga gerð eins og maður hefur séð bæði hérlendis og erlendis og fá hjálp til að klára göngustíginn fyrir Sandafellið.
Allir fundarmenn sammála um að eftirlit með verktöku hér í bæ mætti vera betra, hvort verkin eru gerð og hvernig þeim er skilað.
Myndum vilja sjá skilti t.d. á útskoti (stæði) við Botnsafleggjarann með mynd af áhugverðum stöðum í Dýrafirði og skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Athuga þetta hjá Umhverfisstofnun/Vegagerðinni. Erum að vitna í skilti eins og eru víða t.d. í Vesturbyggð, á veginum fyrir neðan Hrafnseyri……og víða um land.
Tala við Höfrung og kirkjukórinn varðandi tendrun á jólatré 24 nóvember.
Við sem sitjum í stjórn íbúasamtakanna hér á Þingeyri horfum til Vesturbyggðar þar sem búið er að koma á heimastjórn. Fundarmenn eru sammála um það að þetta fyrirkomulag að sitja í íbúasamtökum / Hverfisráði sé ekki að virka, við sitjum fundi hér á Þingeyri einu sinni í mánuði og förum yfir hvað betur má fara hér í bæ og sendum í fundargerð yfir til Ísafjarðarbæjar. Þetta fyrirkomulag finnst okkur ekki frekar en eflaust ykkur vera skilvirkt og myndum vilja sjá breytingu á þessu fyrirkomulagi hið allra fyrsta. Eðlilegast væri að hafa hér heimastjórn, og að hver íbúakjarni í Ísafjarðabæ hefði þar sinn fulltrúa.
Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið.