Aðalfundur 29. janúar 2019
Aðalfundur Hverfisráðs Dýrafjarðar haldinn í Félagsheimilinu á Þingeyri, 29. janúar 2019 kl. 20:00.
Dagskrá fundarins:
1. Skýrsla fráfarandi stjórnar
2. Kosning nýrrar stjórnar
3. Önnur mál
4. Spjall og umræða.
Wouter von Hoyemissen formaður, setur fundinn og leggur til að Agnes Arnardóttir verði fundarstjóri og Rakel Brynjólfsdóttir fundarritari. Fundurinn samþykkir það.
1. Fundarstjóri tekur við fundarstjórn og biður formann að fara yfir skýrslu stjórnar.
Í grófum dráttum kemur eftirfarandi fram: - Í upphafi árs voru pantaðir 3 ærslabelgir frá Hollandi fyrir Þingeyri, Hnífsdal og Ísafjörð.
- Í mars fór af stað vinna í verkefninu Brothættar byggðir sem hófst á íbúafundi yfir heila helgi og þar fékk verkefnið vinnuheitið "Öll vötn til Dýrafjarðar".
- Í framhaldi af því var unnið að því að fá verkefnisstjóra fyrir verkefnið sem myndi búa á Þingeyri og það er Agnes Arnardóttir sem flutti til Þingeyrar í september frá Noregi.
- Í júní var vinnudagur á Víkingasvæðinu sem Hverfisráð tók þátt í og lagði til fjármagn af framkvæmdafé ársins.
- Ýmis bréf og fyrirspurnir hafa borist s.s. varðandi hraðamæli inn í bæinn, lóð fyrir bílastæði við salernisaðstöðu innanbæjar, viðhaldsverkefni ýmis Vallargötu, við nýbyggingu hjá göngustíg upp á Sandafell, "frisbígolfvöll" á Oddanum, umsögn vegna göngustíga fyrir ofan bæinn og hringinn fyrir Sandafell og hugmyndir Japanans Yasuaki Tanago um útivistarsvæði í bænum með "Tankinn" sem aðdráttarafl svo eitthvað sé nefnt.
- Síðustu helgina í ágúst var japönsk menningarhelgi á Þingeyri með aðkomu Hverfisráðs.
- Afgreiðsla ærslabelgsins frá Hollandi gekk ekki sem skyldi og seinkaði komu hans.
- Í nóvember tengir bæjarstjórn tvo aðila frá sér við hvert Hverfisráð, okkar tengiliðir eru Arna Lára og Kristján Þór (sem eru mætt á aðalfundinn).
- Framkvæmdafé fyrir 2018 hefur ekki verið nýtt að fullu og var fært á milli ára, svo núna eru tæplega 4 milljónir til ráðstöfunar 2019. Bæjarstjórn hefur gert tillögur að því hvernig ferlið við útbýtingu fésins geti orðið markvissari og er m.a. gert ráð fyrir að Hverfisráð skili af sér tillögum sínum fyrir 1. júní til framkvæmdir náist innan ársins.
Fundarstjóri þakkar formanni fyrir skýrsluna og býður upp á umræður um skýrsluna. Nokkrar umræður spunnust um göngustígana og gerð þeirra.
2. Kosning stjórnar. Rakel Brynjólfsdóttir , Signý Þöll Kristinsdóttir og Pétur Albert Sigurðsson ganga úr aðalstjórn. Anton Proppé og Brynjar Proppé hætta sem varamenn. Lagt er til við fundinn að í staðinn komi Hafsteinn Már Andersen, Monika Janina Kristjánsdóttir og Sigmundur Þórðarson í aðalstjórn. Það er samþykkt með lófaklappi. Lagt er til að varamenn verði Magnús Ellert Steinþórsson og Ausra Kamarauskaite, einnig samþykkt með lófataki.
3. Önnur mál.
a) Fyrir fundinn eru lögð skilaboð frá Hildi Ingu Rúnarsdóttur varðandi Dýrafjarðardaga. Hildur hefur haldið utan um hátíðina ásamt fleirum, síðustu tvö ár en gefur ekki kost á sér í það í sumar. Hún biðlar til Hverfisráðsins að taka að sér að kanna hvernig staðið skuli að málum Dýrafjarðardaga. Best væri að Dýrafj.dagar hefðu eigin kennitölu félag á bakvið sig. Ákveðið að ný stjórn hafi það sem fyrsta verk að vinna að þessu málefni.
b) Spurt er um hvers vegna ekki finnist fundargerðir Hverfisráðsins á þar til gerðum stað, á síðu Ísafjarðarbæjar? Formaður svarar að það hafi hreinlega misfarist og verði framvegis gert.
c) Rætt er um afgreiðslu Landsbankans í Blábankanum og lýst ánægju yfir því að sú þjónusta skuli vera til staðar. Hinsvegar sé spurning hvort hægt væri að bæta við einum aukadegi eða aukatíma. Landsbankinn hafi bent á að Hverfisráð ætti skrifa þeim bréf til að óska eftir þessu.
d) Rætt um opnunartíma sundlaugar og lýst ánægju yfir aukinni opnun til kl. 21:00 á kvöldin. Enn betra væri að fá líka opnun á laugardögum. Það myndi bæði nýtast fyrir sund og einnig betri nýting á árskortum í ræktina sem nú er aðeins hægt að nýta 5 daga vikunnar. Lagt er til að hverfisráð sendi bréf til bæjarstjórnar og óski eftir auknum opnunartíma.
e) Rætt er um að Hverfisráð komi saman til fundar 1 x í mánuði.
Fundarstjóri þakkar góðan fund og slítur fundi kl. 21:15
Fundarritari: Rakel Brynjólfsdóttir.