Stjórnarfundur 11. apríl 2018
Viðstaddir: Magnús Sigurður Jónsson, Aðalsteinn Egill Traustason, Einar Ómarsson, Þormóður Logi Björnsson, Ólöf Oddsdóttir og Valdimar Jón Halldórsson.
Fjarverandi: Elísabet Margrét Jónasdóttir vegna veikinda.
Tekið var fyrir bréf Þórdísar Sif frá 5. apríl síðastliðinn varðandi framkvæmdarfé hvers Hverfisráðs fyrir árið 2018 að upphæð 2.000.000 kr. Bréfið hvetur hverfisráðin til að senda verkefnatillögur sínar sem fyrst til bæjarins til þess að hægt verði að framkvæma þær (eða hluta þeirra) á yfirstandandi ári.
Almenn ánægja var með bréf Þórdísar, þar sem skilmerkilega er lýst verkferlinu frá því að hverfisráðin senda verkefnatillögur sínar til bæjarins þar til þær koma til framkvæmda í sveitarfélaginu.
Hins vegar lýstu allir fundarmenn óþolinmæði sinni yfir því að framkvæmdir væru ekki hafnar ennþá við gamla barnaleikvöllinn við Aðalgötu (Sumarróló), eins og Hverfisráðið hafði þegar ákveðið árið 2016, þegar teikningar af nýjum leikvelli voru sýndar og samþykktar af þorpsbúum. Þess vegna lögðu fundarmen ríka áherslu á að framkvæmdir við leikvöllinn yrðu hafnar í ár.
Það vantar hins vegar að meta kostnað einstakra verkþátta verkefnisins, eins og til dæmis kostnað við jarðvegsskipti, niðursetning tækja, viðgerð við vegginn sem umlykur leikvöllinn og þess háttar, sem Ísafjarðarbær ætlar að meta, eins og fram kemur í bréfi Þórdísar.
Þegar kostnaður einstakra verkþátta liggur fyrir getur Hverfisráðið ákveðið röðun einstakra verkþátta í samvinnu við bæjaryfirvöld, miðað við þær 2. milljónir sem áætlaðar eru til verksins í ár. Eitt brýnasta verkefnið er þó að fá kostnaðarmat á jarðvegsskiptin svo hægt sé að hefja framkvæmdir við leikvöllinn sem fyrst. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar haft er í huga mögulegar malbikunarframkvæmdir á svæðinu á komandi sumri.
Einnig er mikilvægt að verkáætlun komi fram sem fyrst, svo vertakar hér í bæ fái tækifæri til að bjóða í verkið.
Fundurinn ákvað að formaðurinn sendi bréf til Þórdísar sem fyrst þar sem fram kemur að Hverfisráð Súgandafjarðar hafi ákveðið að þessar 2.000.000 kr. sem ætlaðar eru til framkvæmda í ár, verði notaðar til þess að endurbyggja gamla barnaleikvöllinn við Aðalgötu (Sumarróló). Einnig skal koma fram í bréfinu, að mat á heildarkostnaðarverði endurbóta leikvallarins vanti, sem og kostnaðarmat einstakra verkþátta, þannig að Hverfisráðið og bæjaryfirvöld geti ákveðið í sameiningu hvenær og í hvaða röð hver verkþáttur geti komið til framkvæmda.
Annað.
Hverfisráðið var jákvætt gagnvart fyrirspurn frá Íþróttafélaginu Stefni, þar sem spurt var hvort Hverfisráðið hefði áhuga á að taka þátt í kostnaði við svokallaða hreystibraut, sem Stefnisfélagar hafa huga á að reisa á Suðureyri. Hins vegar getur Hverfisráðið ekki ákveðið á þessari stundu styrkupphæðina til hreystibrautarinnar, þar sem ráðið veit ekki kostnaðarverð þess verþáttar sem áætlað er framkvæma við barnaleikvöllinn í sumar.
Fundurinn fjallaði um næsta verkefni Hverfisráðsins sem varðar innkomu fólks inn í þorpið og lagfæringu svæðisins við Túngötu, Grunnskóla og kirkju. Ekki voru menn á eitt sáttir um hvort verið væri að bíða eftir einhverju frá Ísafjarðarbæ, eða öfugt, að Ísafjarðarbær sé að bíða eftir að Hverfisráðið ákveði hvað sé næsta skref varðandi þetta málefni, en hér með er vakin athygli á þessu verkefni Hverfisráðsins, með von um ákvörðun beggja aðila varðandi næstu skref.
Rætt var um Upplýsingarskilti við innakstur í þorpið, sem Þórdís hafði sent meðlimum Hverfisráðsins 26. febrúar síðastliðinn.
Fram kom kvörtun um að upplýsingar um fjölda notenda sundlauga í Ísafjarðarbæ er mjög ábótavant.
Ívar, Íþróttafélag fatlaðra og Sjálfsbjörg Ísafirði, vöktu athygli á því að aðgengi fyrir fatlaða í Sundlaug Suðureyrar er ábótavant.
Nokkrar umræður urðu um áætlunarferðir milli Suðureyri og Ísafjarðar. Kvartað var yfir því að ekki væri hægt að hafa hjól eða barnavagn með í rútuna. Hins vegar kom fram ánægja með þær aukaferðir til/frá Ísafirði þrisvar í viku um hádegisbilið í vetur.