Aðalfundur 23. janúar 2019

Aðalfundur var haldinn í Rögnvaldarsal í Edinborgarhúsinu kl. 20. Fundinn sátu fimm meðlimir úr stjórn hverfisráðs, bæjarritari Ísafjarðarbæjar, sviðstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, tveir tengiliðir hverfisráðs og fjórir aðrir íbúar.

Fundargerð ritaði: Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir

Dagskrá:

  1. 1.      Skýrsla stjórnar 2018

Lögð fram til kynningar. Stjórnarmenn kynntu efni skýrslunnar og fóru yfir verkefni ársins sem að snéru hvað helst að leikvelli í Tunguhverfi, umhverfi og öryggi, umbótum í hverfinu og tengiliðum hverfisráðs. Umræða skapaðist um efnisþætti, til að mynda um bætt aðgengi á göngustígum milli efra og neðra Holtahverfis og mikilvægi sýnileika á steypustaurum þar á milli. Vangaveltur voru um nýtingu á fjármagni 2018 þar sem sviðstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar upplýsir að ekki hafi verið lokið við uppsetningu leiktækja í Tunguhverfi og að framkvæmdarfé hafi ekki verið fullnýtt. Stjórnin taldi mikilvægt að fá tækifæri til þess að ræða þetta mál við bæjarstjóra og fulltrúa bæjarráðs eins og óskað var eftir í september 2018.

 

  1. 2.      Reikningar félagsins

Engir reikningar lagðir fram.

 

  1. 3.      Kosning stjórnar og skoðunarmanna

Samþykkt er að ný stjórn taki til starfa á árinu 2019. Hún sammælist um að útlista hlutverkum stjórnarmanna nánar á næsta fundi sínum. Nýja stjórn skipa:  

Heiðrún Rafnsdóttir

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir

Tumi Jóhannsson

Ragnar Ingi Kristjánsson

Ómar Sigurðsson

Hlynur Reynisson

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir

Jóna Lind Kristjánsdóttir

 

  1. 4.      Fjárhagsáætlun næsta starfsárs

Miklar umræður sköpuðust um nýtingu á framkvæmdarfé. Ekki var lokið við lágmarksframkvæmd á leikvelli í Tunguhverfi og því má ætla að frekari kostnaður hljótist af þeirri framkvæmd. Ekki var tekin ákvörðun um nýtingu á framkvæmdarfé 2019 að svo stöddu. Umræða skapaðist um mikilvægi samráðs við hverfisráð svo það sé upplýst um stöðu verkefna hverju sinni. Tengiliðir hverfisráð gætu mögulega aðstoðað í þeim efnum.

Í samhengi við uppbyggingu í Tunguhverfi benda íbúar á að seinastliðinn áratug hefur Ísafjarðarbær lítið framkvæmt á svæðinu til að gera hverfið aðlagandi fyrir íbúa, svo sem að setja gangstéttir í hverfið eða byggja upp leiksvæði.

Fram kom að það reynist oft snúið að velja framkvæmdir sem eru takmarkaðar við kostnað upp á tvær milljónir. Það sé lág upphæð í samhengi við uppbyggingaverkefni líkt og leiksvæði.

Greint var frá því að það hljótist mikill kostnaður af hverju verkefni allra 6 hverfisráða hjá Ísafjarðarbæ fyrir framkvæmdir upp á svo lága upphæð. Fram kom sú hugmynd frá íbúum hvort að nýting fjármagns gæti verið betur varið með úthlutun hærri fjárhæðar annað eða þriðja hvert ár.

Stjórn kynnti ný viðmið hjá Ísafjarðarbæ um að það skuli vera búið að taka ákvörðun um nýtingu framkvæmdarfés hvers árs fyrir 1. júní.

 

  1. Önnur mál

 

Tengiliðir hverfisráða

Bæjarritari kynnti hlutverk tengiliða hverfisráða og tækifærin sem felast í að upplýsa þá um málefni sín.

 

Ósk frá grunnskólabörnum

Íbúar koma á framfæri þeirri hugmynd frá börnum í efra Holtahverfi að þeir vildu gjarnan fá strætóstoppistöð við Lyngholtið, svo það stytti þeim spölinn á morgnanna.

 

Hugmyndir að betra hverfi

Íbúar leggja til að fleiri ruslatunnum verði komið fyrir í hverfunum. Það stuðli að umhverfis fegrun og hafi jafnvel áhrif á að hundaeigendur hirði upp eftir dýrin sín.

Blómakör og bekkir væru flottir í hverfin til að fegra til.

Íbúar ræða trjágróður úr görðum sem að nær langt út á gangstéttir. Mikilvægt er fyrir umferðaröryggi að hægt sé að nýta gangstéttir sem skyldi. Það ætti að koma tilmælum til íbúa sem hafa láðst að hreinsa gróður frá.

 

Mótvægisaðgerðir eftir snjóflóðavarnir

Umræða voru um þætti mótvægisaðgerða vegna snjóflóðavarna sem voru kynntir íbúum á árum áður, sem dæmi að afmá stíginn upp í Kubba og göngustígaleiðir milli hverfa. Það séu þættir sem að Ísafjarðarbær þurfi að fara betur yfir.


Fundargerðir
Stjórn upplýsir starfsmenn Ísafjarðarbæjar að fundargerðir séu ekki aðgengilegar í fundargátt á heimasíðu Ísafjarðarbæjar og því sé mikilvægt að leiðrétta það svo íbúar hafi aðgang að þeim.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?