Fræðslunefnd - 292. fundur - 9. febrúar 2010

Mætt voru: Einar Pétursson, formaður, Kristín Hálfdánsdóttir, Gylfi Þór Gíslason og Jóna Benediktsdóttir. Elías Oddsson mætti ekki og enginn varamaður fyrir hann.  Jafnframt mættu Sigurlína Jónasdóttir, leikskólafulltrúi, Kristín Ósk Jónasdóttir, grunnskólafulltrúi og Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu.


Fundarritari: Margrét Geirsdóttir.



Grunnskólamál.


Mættir áheyrnarfulltrúar: Guðmundur Þorkelsson og Auðbjörg Halla Knútsdóttir f.h. kennara og Jóhanna Ásgeirsdóttir f.h. skólastjóra. Guðrún Guðmundsdóttir mætti sem fulltrúi foreldra.



1. Dagsetningar samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk haustið 2010.


2009-02-0086.



Lagt fram til kynningar bréf frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti, dagsett 7. janúar 2010. Þar kemur fram að samræmd könnunarpróf munu fara fram dagana 20. - 24. september 2010.  Áheyrnarfulltrúi kennara, Guðmundur Þorkelsson, upplýsti fræðslunefnd um að stærðfræðikennarar í Ísafjarðarbæ og í Súðavík hafi tvisvar sinnum komið athugasemdum á framfæri við Námsmatsstofnun um samræmt könnunarpróf í  stærðfræði fyrir tíunda bekk árið 2009.    Svör fengust á símafundi þar sem Námsmatsstofnun upplýsti kennara um að prófinu og yfirferð þess hefði verið ábótavant.



2. Önnur mál.


A. Svar við fyrirspurn Jónu Benediktsdóttur um eyður í stundatöflum í Grunnskólanum á Ísafirði.  Samantekt grunnskólafulltrúa sýnir að í 8. bekk eru nemendur með 1 - 2 eyður á viku. Í 9. bekk eru flestir með 0 - 3 eyður á viku og í 10. bekk eru flestir með 2 - 4 eyður á viku.


B. Svar við fyrirspurn Jónu Benediktsdóttur um innleiðingu uppbyggingarstefnunnar. Hún er styst á veg komin í GÖ, en samkvæmt upplýsingum frá öðrum skólastjórum er verið að vinna eftir stefnunni. Á Þingeyri er verkefnisstjóri sem sér um verkefnið. Áhugi er á að fá námskeið í sumar til að halda verkefninu við.


C. Svar við fyrirspurn Jónu Benediktsdóttur um hvenær von sé á sjálfsmatsskýrslum grunnskóla.  Þær munu berast í vor en ekki að hausti og vori eins og grunnskólastefna gerir ráð fyrir.



Grunn-  og leikskólamál.


Mættur áheyrnarfulltrúi Jóna Lind Karlsdóttir, leikskólastjóri.



3. Niðurstöður könnunar meðal sveitarfélaga um innleiðingu laga nr. 90/2008 um  leikskóla og laga nr. 91/2008 um gunnskóla.   2009-12-0022.


 Lögð fram til kynningar skýrsla sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið lét gera  um innleiðingu nýrra laga um leik- og grunnskóla.



4. Starfsdagar í leik- og grunnskólum.


Lagt fram minnisblað tekið saman af leikskólafulltrúa og grunnskólafulltrúa þar sem teknar eru saman reglur sem gilda um starfsdaga í leik- og grunnskólum.


Fræðslunefnd mælist til þess að leik- og grunnskólastjórar samræmi starfsdaga skólanna.



5 Heimsóknir fræðslunefndar í skóla bæjarins.


Lögð fram drög að heimsóknaráætlun fræðslunefndar. Lagt er til að farið verði í heimsóknir í leik- og grunnskóla á Þingeyri og Flateyri þriðjudaginn 23. febrúar og í leik- og grunnskóla á Suðureyri 25. febrúar.



Leikskólamál.



6. Niðurstöður úr foreldrakönnun leikskólabarna.


Lögð fram samantekt leikskólafulltrúa um niðurstöður úr foreldrakönnun.  Um það bil 220 manns fengu könnunina í hendur og svörun var u.þ.b. 86,0%.  Foreldrar eru almennt ánægðir með leikskóla Ísafjarðarbæjar og upplýsingar sem fengust úr könnuninni geta nýst starfsfólki og yfirstjórn skólanna til frekari þróunar og framfara í leikskólunum.  Fræðslunefnd óskar eftir að sambærileg könnun fari fram í grunnskólum sveitarfélagsins.



7. Fimm vikna sumarlokun á Grænagarði og Laufási.


Lagt fram minnisblað frá leikskólafulltrúa þar sem óskað er eftir því að sumarlokun á leikskólunum Grænagarði og Laufási verði lengd úr fjórum vikum í fimm.


Í ljósi framkominna upplýsinga og reynslu undanfarinna ára styður Fræðslunefnd framkomnar tillögur.



8. Bréf frá Sigríði Kristjánsdóttur.


Lagður fram tölvupóstur frá Sigríði Kristjánsdóttur, dagsettur 3. febrúar 2010. Þar fjallar hún um lokanir leikskóla og spyr hvort hún eigi að greiða fullt leikskólagjald fyrir þá mánuði sem starfsdagar eru settir.  Fræðslunefnd þakkar Sigríði bréfið en staðfestir að fyrrnefnd ákvörðun hefur ekki áhrif á gjaldskrá.  Fræðslunefnd vill þó taka fram að henni þykir leitt ef ákvörðunin er íþyngjandi fyrir foreldra en bendir á að mörg sveitarfélög hafa farið þessa leið til sparnaðar vegna ástandsins í efnahagsmálum.



 9. Önnur mál.


A.  Jóna Benediktsdóttir spurðist fyrir um hvort foreldraráð leikskólanna hefðu verið með  í ráðum þegar ákveðið var á hvaða dögum starfsdagar leikskólanna yrðu.


Leikskólafulltrúa falið að svara erindinu á næsta fundi nefndarinnar.


B. Jóna Benediktsdóttir óskar eftir því að hér eftir verði fræðslunefnd tilkynnt þegar  breytingar verða á opnunartíma leikskólanna.


C. Jóna Benediktsdóttir spurðist fyrir um hvort ákvörðun um að aðstoðarleikskólastjórar  taki að sér afleysingarstöður í leikskólum sé komin til framkvæmda.  Leikskólafulltrúi  gaf nefndinni upplýsingar um að ákvörðunin sé komin til framkvæmda á Sólborg  en ekki  öðrum leikskólum þar sem gert er ráð fyrir að fólki verði ekki sagt upp  vegna  ákvörðunarinnar.


D. Jóna Benediktsdóttir spurðist fyrir um hvernig vinna við skoðun á hagræðingu í  mögulegri sameiningu leik- og grunnskóla á Þingeyri gangi.  Leikskólafulltrúi gerði  nefndinni grein fyrir stöðunni og sagði að von væri á greinargerð með niðurstöðum á  næstunni.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:35


Einar Pétursson, formaður.


Jóna Benediktsdóttir.     


Gylfi Þór Gíslason.


Kristín Hálfdánsdóttir.                                       


Kristín Ósk Jónasdóttir, grunnskólafulltrúi.      


Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.



Er hægt að bæta efnið á síðunni?