Fræðslunefnd - 290. fundur - 2. desember 2009
Mætt voru: Elías Oddsson, varaformaður, Kristín Hálfdánsdóttir, Gylfi Þór Gíslason og Jóna Benediktsdóttir. Einar Pétursson, boðaði forföll og mætti Óðinn Gestsson í hans stað. Jafnframt mættu Sigurlína Jónasdóttir, leikskólafulltrúi, Kristín Ósk Jónasdóttir, grunnskólafulltrúi og Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu.
Fundarritari: Margrét Geirsdóttir.
Leikskólamál.
Mættur áheyrnarfulltrúi Jóna Lind Karlsdóttir, leikskólastjóri.
1. Félag leikskólafulltrúa. 2009-10-0025.
Lagt fram þakkarbréf frá félagi leikskólafulltrúa, dagsett 3. október sl. Félag leikskólakennara hélt aðalfund sinn á Ísafirði dagana 1. og 2. október. Sérstaklega eru bornar fram þakkir fyrir aðstöðuna og atlætið sem leikskólafulltrúi Ísafjarðarbæjar veitti þátttakendum á meðan á dvöl þeirra stóð.
2. Samantekt leikskólafulltrúa.
Lagðar fram tölulegar upplýsingar um leikskóla Ísafjarðarbæjar, teknar saman af leikskólafulltrúa í október 2009.
3. Ársskýrsla.
Lögð fram ársskýrsla um faglegt starf í leikskólum Ísafjarðarbæjar frá september 2008 til ágúst 2009. Samantektin er unnin upp úr ársskýrslum leikskólanna, af leikskólafulltrúa. Fræðslunefnd leggur áherslu á að öll mál sem varða öryggi barnanna á leikskólunum í sveitarfélaginu s.s. klemmuvarnir og útidyrahurðir séu ávallt höfð í forgangi.
4. Kynningarrit um Reggio-stefnuna á Sólborg.
Lagt fram til kynningar.
5. Fjárhagsáætlun 2010. 2009-09-0021.
Rætt um fjárhagsáætlun 2010. Umræðu haldið áfram á næsta fundi fræðslunefndar.
Leik- og grunnskólamál.
Mættir áheyrnarfulltrúar: Guðmundur Þorkelsson f.h. kennara og Jóhanna Ásgeirsdóttir f.h. skólastjóra. Auðbjörg Halla Knútsdóttir, fulltrúi kennara, boðaði forföll sem og Guðrún B. Guðmundsdóttir, fulltrúi foreldra. Þórdís Jensdóttir mætti í stað Guðrúnar sem fulltrúi foreldra.
6. Nýjar reglugerðir.
Lagðar fram til kynningar þrjár nýjar reglugerðir:
Reglugerð um mat og eftirlit í leikskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald 893/2009, Reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara 872/2009 og Reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla 896/2009.
Grunnskólamál.
7. Hagnýting rannsóknarniðurstaðna í skólastarfi. 2009-10-0071.
Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett 23. október 2009. Skólanefnd sambandsins og skólamálaráð KÍ funduðu í haust og fjölluðu um mikilvægi rannsókna í skólastarfi. Fjölbreyttar niðurstöður virðast ekki vera að skila sér með markvissum hætti inn í skólastarfið. Í bréfinu eru forráðamenn skóla hvattir til að kynna sér með markvissum hætti niðurstöður rannsókna, sem og annarra gagnlegra úttekta og kannana.
8. Notendabúnaður á íslensku í íslensku skólastarfi. 2009-10-0031.
Lagt fram bréf frá Menntamálaráðuneytinu dagsett 2. október sl. Þar er verið að benda á markmið sem sett var í íslensku málstefnunni, sem er að allur almennur notendahugbúnaður í íslensku skólastarfi, frá leikskóla til háskóla, verði á íslensku innan þriggja ára.
9. Kynning á íslenskri málstefnu.
Lagt fram bréf frá Menntamálaráðuneytinu dagsett 13. nóvember s.l. þar sem er verið að kynna hina nýju íslensku málstefnu. Ritið Íslenska til alls ? íslensk málstefna fylgdi með til kynningar.
10. Ráðgjafi í málefnum daufblindra. 2009-10-0026.
Lagt fram bréf frá Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, dagsett 14. október sl. Bent er á að nú hefur ráðgjafi hafið störf á miðstöðinni í málefnum daufblindra. Í nýjum lögum frá 1. janúar 2009 um þekkingarmiðstöðina er kveðið á um rétt daufblindra til þjónustu á grundvelli fötlunar sinnar.
11. Menntasmiðja.
Lagt fram bréf, dagsett þann 19. nóvember 2009, frá skólastjórnendum Grunnskólans á Ísafirði og grunnskólafulltrúa Ísafjarðarbæjar þar sem lýst er hugmyndum og óskað eftir stuðningi við að koma á fót menntasmiðju/menntaveri við Grunnskólann á Ísafirði. Markmið smiðjunnar er að koma til móts við þarfir þeirra nemenda sem ekki hafa náð að nýta sér námsframboð skólans. Fræðslunefnd hvetur skólayfirvöld til þess að vinna að framgangi þessarar hugmyndar.
Jóna Benediktsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun:
Mikilvægt er að mæta þörfum allra nemenda í skólanum en tryggja verður að það sé gert án þess að auka á félagslega aðgreiningu nemenda.
12. Tölulegar upplýsingar um grunnskóla Ísafjarðarbæjar.
Lögð fram samantekt grunnskólafulltrúa um þróun í nemendafjölda og kennslustundaúthlutun til grunnskólanna í Ísafjarðarbæ. Samantektin felur m.a. einnig í sér upplýsingar um stöðugildaþróun og fjölda leiðbeinenda og réttindakennara.
13. Sjálfsmatsskýrslur skóla og skýrslur um skólahald.
Lagðar fram skýrslur um skólahald allra grunnskóla Ísafjarðarbæjar og sjálfsmatsskýrslur Grunnskólanna á Ísafirði og á Suðureyri. Umræðum um skýrslurnar frestað til næsta fundar.
14. Önnur mál.
A. Rætt um heimsóknir fræðslunefndar í leik- og grunnskóla Ísafjarðarbæjar. Stefnt er að því að hefja heimsóknir í janúar 2010.
B. Vinna vegna undirbúnings sameiningar leik- og grunnskóla á Þingeyri mun hefjast formlega í janúar 2010. Leik- og grunnskólastjórar á Þingeyri, ásamt leik- og grunnskólafulltrúum Ísafjarðarbæjar munu leiða vinnuna.
C. Íbúasamtök Hnífsdælinga óska eftir því að skólabjallan úr grunnskólanum í Hnífsdal hverfi aftur til síns heima. Grunnskólafulltrúa falið að afla frekari upplýsinga.
D. Fulltrúi skólastjóra á fræðslunefndarfundi óskar eftir því að skipst verði á að hefja umræðu um leik- og grunnskólamál á fundum nefndarinnar. Fundir hafa hingað til ávallt hafist á leikskólamálum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:38
Elías Oddsson, varaformaður.
Jóna Benediktsdóttir.
Gylfi Þór Gíslason.
Kristín Hálfdánsdóttir.
Óðinn Gestsson.
Kristín Ósk Jónasdóttir, grunnskólafulltrúi.
Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.