Fræðslunefnd - 287. fundur - 9. september 2009
Mætt voru: Einar Pétursson, formaður, Kristín Hálfdánsdóttir, Gylfi Þór Gíslason og Jóna Benediktsdóttir. Elías Oddsson mætti ekki og enginn varamaður fyrir hann. Jafnframt mættu Kristín Ósk Jónasdóttir, grunnskólafulltrúi, Sigurlína Jónasdóttir, leikskólafulltrúi og Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu. Fundarritari: Margrét Geirsdóttir.
Leikskólamál.
Mættur áheyrnarfulltrúi, Jóna Lind Karlsdóttir, leikskólastjóri.
1. Minnisblað leikskólafulltrúa um sumarlokanir Eyrarskjóls og Sólborgar.
Lagt fram minnisblað leikskólafulltrúa um sumarlokanir, dagsett 9. september 2009.
Í ljósi góðrar reynslu leggur fræðslunefnd til að sumarlokanir verði með óbreyttum hætti þ.e. að leikskólarnir loki samtímis í tvær vikur og síðan annar skólanna tvær vikur á undan og hinn tvær vikur á eftir.
2. Skóladagatöl leikskóla Ísafjarðarbæjar.
Lögð fram til kynningar skóladagatöl allra leikskóla Ísafjarðarbæjar fyrir skólaárið 2009-2010. Fræðslunefnd samþykkir framlögð skóladagatöl.
3. Rit um jafnræði í leikskólum Evrópu.
Lagt fram til kynningar rit um jafnræði í leikskólum Evrópu. Í bréfi frá menntamálaráðuneytinu dagsettu 5. júní 2009 kemur fram að ritið Early childhood Education and Care in Europe: Tackling Social and Cultural Inequalities, er gefið út af Eurydice, upplýsinganeti á vegum Evrópusambandsins um menntamál í Evrópu.
4. Ný reglugerð um starfsumhverfi leikskóla.
Lögð fram til kynningar reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655 dagsett 3. júlí 2009. Leikskólafulltrúi fór yfir helstu atriði reglugerðarinnar og efni hennar rætt.
Leik- og grunnskólamál.
Mættir áheyrnarfulltrúar: Auðbjörg Halla Knútsdóttir og Guðmundur Þorkelsson f.h. kennara, Jóhanna Ásgeirsdóttir f.h. skólastjóra og Þórdís Jensdóttir f.h. foreldra.
5. Viðbragðsáætlun um inflúensufaraldur. 2009-06-0041
Lögð fram bréf frá menntamálaráðuneytinu, dagsett 15. júni og 10. ágúst 2009. Í bréfunum kemur fram að samkvæmt 15. grein laga um almannavarnir nr. 82/2008 beri stofnunum að gera viðbragðsáætlanir til að takast á við afleiðingar neyðarástands. Send voru sniðmát út í skólana og hafa nú allir leik- og grunnskólar unnið viðbragðsáælun. Áætlanirnar er að finna á heimasíðum skólanna.
6. Ráðning skólastjóra við Grunnskólann á Þingeyri. 2009-05-0059
Umsóknarfrestur um stöðu skólastjóra rann út 27. ágúst s.l. Þrjár umsóknir bárust en ein þeirra var síðan dregin til baka.
Fræðslunefnd ákveður að framlengja umsóknarfrestinn til mánudagsins 21. september n.k.
7. Tilkynning um úthlutun úr námsgagnasjóði. 2007-12-0065
Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneytinu dagsett 23. júlí 2009. Þar kemur fram að framlög til sjóðsins hafa verið skorin niður um rúmlega helming. Úthlutun til skóla Ísafjarðarbæjar er því helmingi minni en árið 2008.
8. Twinning-áætlun Evrópusambandsins.
Lagt fram bréf frá landskrifstofu Twinning þar sem minnt er á verkefnið og bent á að nú þegar eru yfir 62 þúsund kennarar skráðir í verkefnið og virk samstarfsverkefni eru ríflega fimm þúsund og sjö hundruð.
9. Nýjar reglugerðir.
Lagðar fram til kynningar þrjár nýjar reglugerðir. Reglugerð um mat og eftirlit í grunnskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald nr. 658/2009, reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi nr. 531/2009 og reglugerð um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Grunnskólafulltrúi fór yfir helstu atriði reglugerðanna og efni þeirra rætt.
10. Önnur mál
A. Fræðslunefnd hyggur á heimsóknir í fræðslustofnanir sveitarfélagsins og felur starfsmönnum að skipuleggja þær í samráði við skólastjóra.
B. Dýrfirðingafélagið í Reykjavík hefur ákveðið að færa grunnskólanum á Þingeyri gjöf í tilefni 110 ára afmælis skólans.
C. Jóna Benediktsdóttir spurðist fyrir um kostnað vegna vinabæjarheimsóknar unglinga frá Ísafjarðarbæ. Greinargóð svör bárust.
D. Jóna Benediktsdóttir spurðist fyrir um sjálfsmatsskýrslur grunnskólanna í sveitarfélaginu. Skýrslurnar verða lagðar fram á næsta fundi nefndarinnar en enn vantar skýrslu frá einum skólanna.
E. Fræðslunefnd vill koma á framfæri þökkum til handa kennurum grunnskólans á Þingeyri fyrir mikið vinnuframlag undanfarið, sem kemur til vegna skipulagsbreytinga á síðustu dögum fyrir skólabyrjun og þess að ekki hefur tekist að ráða nýjan skólastjóra.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:33
Einar Pétursson, formaður.
Jóna Benediktsdóttir.
Gylfi Þór Gíslason.
Kristín Hálfdánsdóttir.
Kristín Ósk Jónasdóttir, grunnskólafulltrúi.
Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu.