Fræðslunefnd - 274. fundur - 18. júní 2008
Mætt voru: Einar Pétursson, formaður, Kristín Hálfdánsdóttir, Elías Oddsson, Jóna Benediktsdóttir, Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu, Sigurlína Jónasdóttir, leikskólafulltrúi, og Kristín Ósk Jónasdóttir, grunnskólafulltrúi. Gylfi Þór Gíslason tilkynnti forföll og mætti enginn í hans stað.
Fundarritari: Margrét Geirsdóttir.
Leikskólamál
Mættur áheyrnarfulltrúi: Jóna Lind Karlsdóttir f.h. leikskólastjóra.
1. Skóladagatal Tjarnarbæjar.
Lagt fram til kynningar skóladagatal Tjarnarbæjar.
2. Bakkaskjól. 2008-06-0051
Lagt fram minnisblað dagsett 5. júní 2008, frá leikskólafulltrúa, vegna húsnæðismála leikskólans Bakkaskjóls. Í minnisblaðinu er farið yfir húsnæðismál skólans og þær athugasemdir sem fram hafa komið frá Vinnueftirliti vegna húsnæðisins. Leggur leikskólafulltrúi til að farið verði í að stækka leikskólann Bakkaskjól til að koma til móts við kröfur um húsnæðismál leikskóla.
Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar beinir því til eignasjóðs að gerðar verði úrbætur í samræmi við ábendingar Vinnueftirlits í skoðunarskýrslu þann 5. september 2007.
Umræður fóru fram um framtíðarskipan leikskólamála í Ísafjarðarbæ með tilliti til mögulegrar stækkunar Bakkaskjóls eða Eyrarskjóls. Starfsmönnum falið að skoða frekar alla kosti í stöðunni og leggja fyrir nefndina eftir sumarfrí.
Sameiginleg leik- og grunnskólamál.
Mættir áheyrnarfulltrúar: Ellert Örn Erlingsson f.h. skólastjóra og Sigurður Hafberg fyrir hönd kennara.
3. Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar. 2006-03-0038
Einn leikskóli og tveir grunnskólar skiluðu inn punktum í aðalskipulagsvinnu. Lagt er til að þeir punktar verði sendir inn til vinnuhóps um aðalskipulag til frekari úrvinnslu.
Grunnskólamál.
4. Kennslustundaúthlutun við Grunnskólann á Þingeyri. 2008-06-0049
Tekin fyrir á ný kennslustundaúthlutun við grunnskólann á Þingeyri. Fræðslunefnd átti fund með skólastjóra og kennurum grunnskólans á Þingeyri að ósk þeirra síðastnefndu þann 3. júní s.l. þar sem málið var rætt og sjónarmiðum hlutaðeigandi komið á framfæri.
Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar leggur til að kennslustundafjöldi skólaárið 2008-2009 verði 193. Fræðslunefnd leggur áherslu á að komandi vetur verði notaður til að aðlaga skipulag kennslu að breytingum á nemendafjölda.
5. Kennslustundaúthlutun við Grunnskólann á Ísafirði. 2008-06-0050
Lagt fram bréf dagsett 5. júní 2008 frá Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur, skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði. Í því kemur fram að töluverð fjölgun hafi orðið í árgangi sem er tvískiptur. Nú er svo komið að nemendafjöldi í árgangnum er kominn yfir viðmiðunarmörk sem notast er við þegar kennslustundum er úthlutað. Er því farið fram á að kennslustundum verði fjölgað um 35 tíma á viku til að hægt sé að fjölga bekkjunum úr tveimur í þrjá.
Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar samþykkir að fjölga kennslustundum sem nemur 25 tímum á viku og telur að með því verði hægt að þrískipta árganginum.
6. Önnur mál.
A. Lagt fram bréf frá Sólstöfum móttekið 31. mars s.l. þar sem sagt er frá því markmiði Sólstafa að allir starfsmenn sveitarfélagsins sem koma að vinnu með börnum fari á námskeið á vegum Sólstafa. Sólstafir Vestfjarða óska eftir að sveitarfélagið taki þátt í kostnaðinum sem af þessu hlýst. Kostnaðurinn er kr. 9.000,- á hvern þátttakanda.
Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar óskar eftir nánari upplýsingum um í hverju kostnaðurinn vegna námskeiðsins liggur, fyrir næsta fund nefndarinnar.
B. Lagðar fram Þingfréttir, fréttablað grunnskólans á Þingeyri, fyrir maí/júní 2008.
C. Jóna Benediktsdóttir spurðist fyrir um sjálfsmatsskýrslur skóla sem óskað hafði verið eftir að yrðu lagðar fram. Fram kom í máli grunnskólafulltrúa að þær yrðu lagðar fram þegar upplýsingar hefðu borist frá öllum grunnskólunum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:25
Einar Pétursson, formaður.
Kristín Hálfdánsdóttir.
Elías Oddsson.
Jóna Benediktsdóttir.
Sigulína Jónasdóttir, leikskólafulltrúi.
Kristín Ósk Jónasdóttir, grunnskólafulltrúi.
Margrét Geirsdóttir, fors. Skóla- og fjölskylduskrifstofu.