Félagsmálanefnd - 331. fundur - 29. september 2009
Mætt voru: Gísli H. Halldórsson, formaður, Hrefna R. Magnúsdóttir, Rannveig Þorvaldsdóttir og Elín Halldóra Friðriksdóttir. Inga S. Ólafsdóttir mætti ekki og enginn varamaður fyrir hana. Jafnframt sátu fundinn Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, Guðný Steingrímsdóttir og Anna V. Einarsdóttir, starfsmenn Skóla- og fjölskylduskrifstofu. Anna Valgerður Einarsdóttir vék af fundi kl. 17:57.
Guðný Steingrímsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
1. Búsetuþjónusta fyrir geðfatlaða.
Umræða um stöðu mála í búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða. Þjónustuaðilar eru Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vestfjörðum og Ísafjarðarbær. Sóley Guðmundsdóttir framkvæmdarstjóri. Svæðisskrifstofu og Sigfríður Hallgrímsdóttir mættu til fundar. Í máli þeirra kom fram að um einstaklingsmiðaða þjónustu er að ræða sem getur tekið breytingum með stuttum fyrirvara. Fram kom að styrkja þarf teymisvinnu vegna þjónustunnar. Samningur vegna þjónustunnar rennur út um næstu áramót.
2. Málefni þjónustudeildar á Hlíf. 2007-08-0030.
Rætt um fyrirhugaða lokun þjónustudeildar á Hlíf og næstu skref í þeim efnum. Áhersla verður lögð á að efla félagslega heimaþjónustu til að mæta aukinni þjónustuþörf. Forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu falið að koma með tillögur um eflingu heimaþjónustunnar og skoða kostnað hugsanlegrar stöðu næturvarðar. Umræðu frestað til næsta fundar félagsmálanefndar.
Hrefna R. Magnúsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég harma mjög ákvörðun og vinnubrögð í tengslum við lokun þjónustudeildarinnar á Hlíf og að ekki hafi verið horft til bókunar nefndarinnar frá 7. apríl sl. þar sem talið var mikilvægt að réttur til ákvarðanartöku og virðing fyrir einstaklingnum væri höfð að leiðarljósi og samvinna við íbúa og starfsfólk væri grundvallaratriði þegar teknar eru ákvarðanir um breytingu á heimilishögum og grunnþjónustu. Stjórnun breytinga snýst að stærstum hluta um fólk og hinn mannlega þátt og því miður þá hefur að mínu mati ekki verið horft nægjanlega í það við skipulagningu og stjórnun þessara breytinga. Því kalla ég eftir meiri samvinnu og faglegri vinnubrögðum varðandi jafn mikilvæg málefni eins og þjónustu við aldraða í sveitarfélaginu.
3. Norræn ráðstefna um velferð á krepputímum.
Lagt fram til kynningar boð á norræna ráðstefnu um velferð á krepputímum sem haldin verður í Reykjavík þann 21. október 2009.
4. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga árið 2011.
Rætt um fund sem haldinn var 23. september sl. í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar óskuðu eftir fundinum. Ásamt bæjarfulltrúum sátu fundinn fulltrúar úr félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar, starfsmenn frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu og fulltrúi frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum. Starfsmönnum falið að óska eftir upplýsingum um hvernig til hefur tekist hjá reynslusveitarfélögum sem hafa tekið að sér þjónustu við fatlaða. Umræðu frestað til næsta fundar félagsmálanefndar.
5. Athugun á þjónustu sveitarfélaga við aldraða.
Lögð fram til kynningar skýrsla sem unnin var í tengslum við undirbúning á flutningi á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. Skýrslan er unnin að frumkvæði Félags- og tryggingamálaráðuneytis.
6. Trúnaðarmál.
Þrjú trúnaðarmál rædd og færð til bókar í trúnaðarmálamöppu félagsmálanefndar.
Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 18:35.
Gísli H. Halldórsson, formaður.
Elín Halldóra Friðriksdóttir.
Rannveig Þorvaldsdóttir.
Hrefna R. Magnúsdóttir.
Margrét Geirsdóttir.
Guðný Steingrímsdóttir.
Anna Valgerður Einarsdóttir.