Bæjarstjórn - 320. fundur - 6. desember 2012

 

 

Fjarverandi aðalfulltrúi: Albertína F. Elíasdóttir í h. st. Marzellíus Sveinbjörnsson.

 

Dagskrá:

 

I Tillaga frá 775. fundi bæjarráðs Útboð trygginga Ísafjarðarbæjar. 2012-03-0077.
II Tillaga frá 776. fundi bæjarráðs Reglur um launalaust leyfi starfsmanna Ísafjarðarbæjar. 2012-11-0067
III Tillaga frá 776. fundi bæjarráðs Umsókn um lóðir við Rómarstíg og Stefnisgötu, Suðureyri. 2010-07-0062
IV Fundargerð(ir) bæjarráðs 26/11. og 3/12.
V " stjórnar Byggðasafns Vestfjarða 11/9., 16/10. og 13/11.
VI " umhverfisnefndar 28/11.
VII Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2013 Síðari umræða í bæjarstjórn.

 

Minnisblað bæjarstjóra um breytingar er gerðar hafa verið á fjárhagsáætlun 2013 á milli umræðna.

 

Innkomnar tillögur er dreift verður með dagskrá.

A. Tillaga Í-lista, aukin fjárveiting til Áhaldahúss Ísafjarðarbæjar.

B. Tillaga umhverfisnefndar vegna stofnunar fjallskilanefndar Ísafjarðarbæjar.

 

I.         Tillaga til 320. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 6. desember 2012.

            Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Kristján Andri Guðjónsson, Arna Lára Jónsdóttir og Eiríkur Finnur Greipsson.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar 775. fundur 26. nóvember 2012.

2.         Bréf Smára Ríkarðssonar. - Útboð trygginga Ísafjarðarbæjar.  2012-03-0077.

            Lagt fram bréf frá Smára Ríkarðssyni, tryggingafræðingi, dagsett 19. nóvember sl., er varðar samanburð tilboða er bárust í tryggingar Ísafjarðarbæjar eftir útboð. Þeir aðilar sem buðu eru Sjóvá, Tryggingamiðstöðin og Vátryggingafélag Íslands.     

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að gengið verði til samninga við Tryggingamiðstöðina, með tilvísun til niðurstöðu útboðs.

 

Gísli H. Halldórsson, forseti, lagði fram svohljóðandi tillögu.

,,Legg til að málinu verði frestað og það kannað hvort að tilboð TM sé í raun lægst þegar tekið er tillit til þeirra báta, sem getið er í bréfi Smára Ríkharðssonar og þess kostnaðar, sem bærinn verður hugsanlega fyrir við það að flytja tryggingar sínar á milli félaga. Jafnframt felur bæjarstjórn bæjarráði að ljúka þessu máli, að lokinni þessari könnun“.

 

Greinargerð:

Í bréfi Smára Ríkharðssonar kemur fram að um kr. 200.000.-  muni á TM og Sjóvá. Jafnframt segir orðrétt. „Það er lítill munur í ljósi þess að eitthvað á eftir að laga vátryggingarnar, sem gæti haft áhrif á iðgjöldin. Sem dæmi um það þá eru nokkrir bátar á vegum Byggðasafnsins óvátryggðir og það þarf að laga. Í sjótryggingum er Sjóvá aðeins ódýrari þannig að líklega minnkar munurinn enn frekar ef það er skoðað.

            Tillaga forseta samþykkt 9-0.

 

 II.       Tillaga til 320. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 6. desember 2012.

            Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti og Jóna Benediktsdóttir.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar 776. fundur 3. desember 2012.

3.         Minnisblað bæjarritara. - Reglur um launalaust leyfi starfsmanna

            Ísafjarðarbæjar.  2012-11-0067.

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 28. nóvember sl., er varðar tillögu að reglum um launalaust leyfi starfsmanna Ísafjarðarbæjar.  Reglurnar eru settar upp með tilvísun til ábendinga frá Samb. ísl. sveitarf. og skoðaðar voru reglur hjá öðrum sveitarfélögum.

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að reglurnar um launalaust leyfi starfsmanna Ísafjarðarbæjar verði samþykktar.

 

Gísli H. Halldórsson, forseti, leggur til að 5. grein reglna um launalaust leyfi starfsmanna hljóði svo.

,,Forstöðumaður, að fenginni staðfestingu bæjarstjóra, tekur ákvörðun um veitingu launalauss leyfis til allt að 12 mánaða.“

Greinargerð:  Miðað við þær reglur sem eru í gangi nú við ráðningar starfsfólks, staðfestir bæjarstjóri allar breytingar á starfskjörum og nýráðningum.  Því er talið eðlilegt að hann staðfesti launalaust leyfi einnig.

 

Jóna Benediktsdóttir lagði fram svohljóðandi breytingatillögu við 1. grein reglna um launalaust leyfi. ,,Í stað 6 mánaða komi 3 mánuðir.“

            Tillaga forseta samþykkt 9-0.

            Tillaga Jónu Benediktsdóttur samþykkt 9-0.

            Tillagan þannig breytt samþykkt 9-0.

 

III.      Tillaga til 320. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 6. desember 2012.

            Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Eiríkur Finnur Greipsson og Jóna Benediktsdóttir.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar 776. fundur 3. desember 2012.

5.         Minnisblað bæjarritara. - Umsóknir um lóðir við Rómarstíg og Stefnisgötu á Suðureyri.  2010-07-0062.

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 29. nóvember sl., er fjallar um umsókn Elíasar Guðmundssonar á Suðureyri, á lóðum við Rómarstíg og Stefnisgötu á Suðureyri.  Málinu var frestað á 319. fundi bæjarstjórnar, þar sem óskað var eftir frekari gögnum.  Gögnin liggja nú fyrir og er málið lagt fyrir bæjarráð.

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Elíasi Guðmundssyni verði úthlutað umræddum lóðum við Rómarstíg og Stefnisgötu á Suðureyri.

 

Breytingartillaga lögð fram af Gísla H. Halldórssyni, forseta.

,,Bæjarstjórn samþykkir að Elías Guðmundsson, Suðureyri, fái umbeðnar 6 lóðir við Rómarstíg og Stefnisgötu, Suðureyri, enda verði gengið til samninga á grundvelli fyrirliggjandi samkomulagsdraga.“

            Breytingatillaga forseta samþykkt 9-0.

            Tillagan í heild sinni samþykkt 9-0.

 

IV.      Bæjarráð.

            Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Jóna Benediktsdóttir, Sigurður Pétursson, Guðfinna Hreiðarsdóttir, Eiríkur Finnur Greipsson, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri og Kristján Andri Guðjónsson.

 

Fundargerðin 26/11.  775. fundur.

Fundargerðin er í fjórtán liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

Fundargerðin 3/12.  776. fundur.

Fundargerðin er í tíu liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

V.        Stjórn Byggðasafns Vestfjarða.

            Til máls tóku. Gísli H. Halldórsson, forseti, Kristján Andri Guðjónsson, Sigurður Pétursson, Eiríkur Finnur Greipsson, Guðfinna Hreiðarsdóttir og Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

 

Fundargerðin 11/9.  36. fundur.

Fundargerðin er í sex liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

Fundargerðin 16/10.  37. fundur.

Fundargerðin er í sex liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

Fundargerðin 13/11.  38. fundur.

Fundargerðin er í sex liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

VI.      Umhverfisnefnd.

            Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Jóna Benediktsdóttir og Kristján Andri Guðjónsson.  

 

Fundargerðin 28/11.  385. fundur.

Fundargerðin er í tíu liðum.

Fundargerðin staðfest í heild sinni 9-0.

 

VII.     Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2013, síðari umræða. 

            Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Jóna Benediktsdóttir, Eiríkur Finnur Greipsson, Sigurður Pétursson, Arna Lára Jónsdóttir, Kristján Andri Guðjónsson, Marzellíus Sveinbjörnsson og Guðfinna Hreiðarsdóttir.

 

Forseti bar upp þá dagskrártillögu að hver og ein tillaga við fjárhagsáætlun merktar frá A til og með J yrðu ræddar sérstaklega og greidd um þær atkvæði sérstaklega.

Dagskrártillaga forseta samþykkt 9-0.

 

Breytingatillögur við seinni umræðu um fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar árið 2013. 

           

A.        Tillaga Í-lista til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 320. fundur 6. desember 2012. Breytingartillaga við fjárhagsáætlun ársins 2013.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir, að gera áætlun um endurnýjun tækja og véla við áhaldahús bæjarins á næstu 4 árum.

Á árinu 2013 verði 5 milljónum króna veitt til verkefnisins.

Rökstuðningur:

Fram hefur komið í umræðum á fundum bæjarstjórnar og í viðræðum við starfsmenn þjónustumiðstöðvar bæjarins, að mikil þörf er á endurnýjun véla og tækjabúnaðar áhaldahússins. Full þörf er á því að gera áætlun um endurnýjun véla og tækja til næstu fjögurra ára, svo þjónustumiðstöðin geti sinnt hlutverki sínu, líkt og hingað til. Æskilegt er að hefjast þegar handa og áætla fjármuni til þess strax á næsta ári.

Ísafirði, 3. desember 2012.

Fyrir hönd bæjarfulltrúa Í-listans,

Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi.

            Tillaga Í- lista kom ekki til atkvæðagreiðslu.

---------------------------------------------------------------------------------------------------

A1.      Breytingartillaga fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við A-tillögu Í-lista, flutt af forseta.

Að þessu sinni verði ekki gerðar breytingar á núverandi fjárfestingaráætlun bæjarins. Í staðinn verði settar 500 þ.kr. í að leggja mat á núverandi starfsemi áhaldahússins og móta framtíðarsýn fyrir áhaldahús Ísafjarðarbæjar. Þar verði skoðað hvað hver þjónustuþáttur kostar okkur í dag og hvað hann mun kosta út frá áætlaðri fjárfestingarþörf næstu ára.

 

Jafnframt verði skoðað hvernig best sé að haga þjónustu til framtíðar með hagsmuni allra byggðarkjarna í húfi. Í því samhengi verði einnig skoðuð möguleg samlegð við aðrar stofnarnir bæjarins s.s. íþróttamannvirki og hafnir.

            Breytingartillaga B- og D-lista bæjarstjórnar samþykkt 5-1.

            Tillaga B- og D-lista síðan samþykkt 5-1.

 

Sigurður Pétursson lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu tillögu A1.

,,Í-listinn telur miður að meirihluti bæjarstjórnar skuli ekki treysta sér til að styrkja áhaldahús bæjarins í sessi.  Öllum má vera ljóst að til þess ber brýna nauðsyn og knýjandi þörf.“ 

Undirritað af Kristjáni Andra Guðjónssyni, Örnu Láru Jónsdóttur, Sigurði Péturssyni og Jónu Benediktsdóttur.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

B.        Tillaga til 320. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 6. desember 2012.

            Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar 385. fundur 28. nóvember 2012.

            6.         2011070030 - Fjallskilareglugerð fyrir Vestfirði.

            Á 773. fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar fól bæjarráð umhverfisnefnd að skipa fjallskilanefnd fyrir Ísafjarðarbæ.

            Umhverfisnefnd óskaði eftir að aðilar frá Búnaðarfélaginu Bjarma mættu á næsta fund umhverfisnefndar vegna málsins. Umhverfisnefnd óskar eftir ábendingum frá Búnaðarfélaginu Bjarma um fimm fulltrúa til að sitja í fjallskilanefnd. Nefndin vill undirstrika að aðrir þættir málsins verði kláraðir sem fyrst.

            Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að fjármagn verði tryggt í rekstur fjallskilanefndar í fjárhagsáætlun 2013.

            Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 8-0.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------

Breytingartillögur við gjaldskrár Ísafjarðarbæjar fyrir 2013.

C.        Gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Ísafjarðarbæ.

•          2. gr. breytist og verður:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að sorpgjald í þéttbýli á hvert heimili verði         kr. 39.300.-   og á hvert heimili í dreifbýli kr. 26.700.-.

Auk þess samþykkir bæjarstjórn, að sorpgjald á sumarbústaði og íbúðarhúsnæði með ákvæði um takmörkun á íveru vegna snjóflóðahættu verði kr. 13.230.-.

Ofangreind gjöld skulu innheimt samhliða fasteignagjöldum.

            Tillaga um ákvörðun sorpgjalda samþykkt 9-0.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------

D.        Gjaldskrá fjölskyldusviðs Ísafjarðarbæjar.

•          Fjölskyldusvið – útseld vinna:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir, að útseld vinna án vsk. pr. vinnustund verði       kr. 15.000.- (var við fyrri umræðu kr. 11.485.-).

Ástæða þessarar hækkunar er sú að starfsmenn okkar komast illa yfir að vinna útselda vinnu vegna anna. Þessi hækkun er þ.a.l. sett inn til að draga úr eftirspurn annarra sveitarfélaga í okkar þjónustu og gera hana á sama tíma arðbærari fyrir okkur. Hafa ber í huga að hlutfall útseldrar vinnu af raunverulegum vinnutíma er lágt. Þ.e.a.s. að fyrir hvern seldan vinnutíma liggja margir vinnutímar að baki.

            Jóna Benediktsdóttir lagði til að setningin ,,Þessi hækkun o.s.frv.“ verði felld niður úr texta.

            Tillaga Jónu Benediktsdóttur felld á jöfnum atkvæðum 4-4.

            Tillaga um hækkun útseldrar vinnu á fjölskyldusviði samþykkt 7-2.

 

Jóna Benediktsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun undir afgreiðslu D liðar.

,,Sjálfsagt hefði verið að samþykkja þessa hækkun vegna útseldrar vinnu starfsmanna Ísafjarðarbæjar ef rökin fyrir henni hefðu verið þau að hún væri nauðsynleg vegna kostnaðar bæjarins, en ekki í þeim tilgangi að draga úr eftirspurn.“

Undirritað af Jónu Benediktsdóttur og Örnu Láru Jónsdóttur.

------------------------------------------------------------------------------------------------------

E.        Gjaldskrá skóla- og tómstundasviðs

•          Dagforeldrar 

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir aukna niðurgreiðslu vegna barna 18 mánaða og eldri. Niðurgreiðsla til þeirra verði hækkuð um kr. 20.000.-  á mánuði, þannig að kostnaður foreldra verði svipaður fyrir dagvist barna 18 mánaða og eldri hjá dagmæðrum og á leikskóla. Viðmiðunargjald verði jafnframt hækkað í kr. 70.000.-  og settir inn tveir dálkar til að sýna hver niðurgreiðsla er fyrir 8 tíma vistun.

 

Ástæðan fyrir þessari hækkun er sú að Ísafjarðarbær hefur þá stefnu að öll börn eldri en 18 mánaða fái leikskólapláss. Næstu tvö árin verður meiri eftirspurn eftir leikskólaplássi en verið hefur og er talið að það þurfi að vera hægt að bjóða upp á þetta.

            Tillaga um hækkun niðurgreiðslu til dagforeldra samþykkt 9-0.

-------------------------------------------------------------------------------------------------

Breytingartillögur við rekstraráætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2013.

F.        Leikskólinn Eyrarskjól, Ísafirði. - 04 11

Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2013 var launakostnaður við leikskólann Eyrarskjól vanreiknaður um eitt stöðugildi vegna fæðingarorlofs, en afleysing ekki sett inn á móti.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykki hækkun á launaliðum Eyrarskjóls um

kr. 4.620.728.- á rekstrarárinu 2013.

            Tillaga um hækkun launaliðar á Eyrarskjóli samþykkt 8-0.

------------------------------------------------------------------------------------------------------

G.        Grunnskóli á Flateyri.

Í upphafi fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2013 voru vanreiknaðir liðirnir 04-16-0252 fæðisgjöld um +kr.  650.000.- og 04-16-2111 matvæli um -kr. 491.167.-.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykki ofangreindar breytingar með nettó tekjuauka upp á         kr. 158.833.-.

            Tillaga um fæðisgjöld og matvæli við Grunnskólann á Flateyri samþykkt 9-0.

---------------------------------------------------------------------------------------------------

H.        Tillaga Í-lista frá 319. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 22. nóvember     2012.

Eftir úrvinnslu (skóla- og tómstundasviðs) á tillögu Í-lista frá 319. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, þar sem lagt var til að veittar yrðu á fjárhagsáætlun 2013 alls                 kr. 3.000.000.- til verkfærakaupa fyrir nemendur í grunnskólum bæjarfélagsins á árinu 2013, samþykki bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftirfarandi breytingar frá fyrri umræðu á neðangreindum bókhaldslyklum.

            Grunnskólinn á Ísafirði      04-21-2691 hækki um                kr. 2.133.000.-

            Grunnskólinn á Flateyri     04-26-2691 hækki um                kr.      76.500.-

            Grunnskólinn á Þingeyri    04-28-2691 hækki um                kr.      27.000.-

            Grunnskólinn á Suðureyri  04-29-2691 hækki um                kr.    162.000.- 

                                                                                                          kr. 2.398.500.-

Lagt er til að veittar verði aukalega í ófyrirséð og skipt

hlutfallslega milli skólanna                                                               kr.    601.500.-

                                                                                                          kr. 3.000.000.-

            Tillaga Í-lista merkt H felld 5-4.

 

Jóna Benediktsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun Í-lista undir tillögu H.

,,Innkaup fjölskyldna vegna verkfæra fyrir skólabörn eru oft veruleg þrátt fyrir að nám í grunnskóla eigi samkvæmt lögum að vera foreldrum að kostnaðarlausu.  Í-listi telur að með því að skilgreina ákveðið fjármagn til verkfærakaupa fyrir nemendur væri stigið framfaraskref í þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu.“

Undirritað af Kristjáni Andra Guðjónssyni, Örnu Láru Jónsdóttur, Sigurði Péturssyni og Jónu Benediktsdóttur.  

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

H2.      Breytingartillaga fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við             fjárhagsáætlun, um kaup á kennslubúnaði í grunnskóla.

           

Í stað kaupa á ritföngum o.þ.h. fyrir nemendur leggur meirihlutinn til að kr. 3.000.000,- verði varið til kaupa á kennslubúnaði í grunnskólum og leikskólum, t.d. skjávörpum eða öðru sem þurfa þykir.

Upphæðinni verði ráðstafað og skipt milli skóla í Ísafjarðarbæ í samráði skólastjóranna og sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs.

Greinargerð:

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja til að tillögu Í-lista um kaup á ritföngum o.þ.h. fyrir skólabörn verði hafnað. Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði Í-listinn til að áætlaðar verði 3.000.000.- til ,,verkfærakaupa“ fyrir nemendur í grunnskólum bæjarfélagsins á næsta ári. Kom fram að átt væri við ritföng og sambærilegan búnað.

 

Vegna erfiðrar fjárhagsaðstöðu hefur framlag bæjarins til búnaðarkaupa verið með minnsta móti síðastliðin ár en í fjárhagsáætlun þeirri sem lögð var fram til fyrri umræðu á s.l. bæjarstjórnarfundi mátti sjá greinileg merki þess að vilji var til þess að gera betur í þeim efnum. Þegar grunnskólar í heild sinni eru skoðaðir er viðhald skólanna sjálfra fyrir utan viðhald Eignasjóðs aukið úr 780 þ.kr. í 2,9 m.kr. á milli áætlana. Vörukaup að teknu tilliti til breytinga á mötuneyti GÍ hækka úr 10,5 m.kr. í 13,1 m.kr. Þ.a. eru kennsluvörur og efniskostnaður hækkaður um 1,2 m.kr. úr 4,3 m.kr. í 5,6 m.kr. Til viðbótar er starfsmannakostnaður aukinn, t.d. eru ráðstefnu- og námskeiðsgjöld hækkuð um 1 m.kr. úr 730 þ.kr. í 1,7 m.kr.

 

Það er því ljóst að í fyrstu drögum er búið að koma verulega til móts við grunnskólana og þeim gefið meira svigrúm í innkaupum á vörum og þjónustu.

 

Jafnframt má á það benda að skólarnir hafa sent 7. bekk í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Kostnaður hvers foreldris um sig hefur verið um 19 þ.kr. á barn. Þar er um veruleg fjárútlát að ræða og telja fulltrúar umræddra flokka mikilvægara að sá kostnaður sé niðurgreiddur og var hann settur inn við fyrri umræðu. (Reyndar á vitlausan lykil, matvæli en ekki ferðakostnað nemenda). Ekki er æskilegt að bærinn „skikki“ foreldra til að senda börn sín í svo dýrar skólabúðir. Af þessum sökum vilja fulltrúar meirihlutans frekar sjá niðurgreiðslu á þeim lið.

 

Þegar kemur að skriffærum, stílabókum og öðrum kennslutækjum sem nemendur þurfa sjálfir að leggja til er í flestum tilfellum ekki um mjög háar upphæðir að ræða fyrir hvert og eitt foreldri. Jafnframt má færa fyrir því rök að sé þetta lagt til í skólanum sé um leið borin minni virðing fyrir þessum hlutum sem leiðir til sóunar. Foreldrar hafa heldur ekki lagt mikla áherslu á þessa ráðstöfun, frekar hafa þeir óskað eftir því að skólinn sjái um sameiginleg innkaup. Einnig er mögulegt að gera betur með því að skólinn komi sér upp ákveðnum tækjum sem lítið eru notaðir s.s. talnagrindum, vasareiknum og slíkum búnaði sem gæti verið til staðar í skólanum og hugsanlega væri hægt að kaupa notaðan án mikils tilkostnaðar í vetrarlok.

 

Jóna Benediktsdóttir lagði til að bætt yrði inn í aðra málgrein orðinu ,,hlutfallslega“.

Tillaga Jónu Benediktsdóttur felld 5-4.

Tillaga B- og D-lista samþykkt 5-0.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

Breytingartillögur við framkvæmda- og fjárfestingaáætlun fyrir 2013.

 

I.         Tillaga Í-lista frá 319. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 22. nóvember     2012.

Á 319. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar lagði Í-listinn til, að gert yrði ráð fyrir            kr. 2.000.000.- í fjárhagsáætlun 2013 til hönnunar á útisvæði með heitum pottum við Sundhöll Ísafjarðarbæjar.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykki, að gert verði ráð fyrir kr. 2.000.000.- til þessa verkefnis undir málaflokki  32.

            Tillaga Í-lista merkt I kom ekki til atkvæðagreiðslu.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

I2.       Breytingartillaga meirihluta B- og D-lista við tillögu Í-lista.

Meirihlutinn leggur til að  tillögu Í-lista vegna útipotta verði breytt og hljóði þannig: „Nafni liðarins Skólalóð við GÍ verði breytt í framkvæmdir og undirbúningur við skólalóðir og íþróttahús og hann hækkaður úr 5 m.kr.  í 7 m.kr.

Bæjarstjórn og bæjarráð fari síðan í framhaldinu betur yfir þau verkefni sem liggja fyrir og forgangsraði fjármagni. Markmiðið verði að flutningur tækja á skólalóð GÍ við Austurveg og hönnun útipottaðstöðu á Ísafirði, sem og skólalóða á Suðureyri og Flateyri verði lokið á árinu.“

Greinargerð.

Við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar lagði Í-listinn fram tillögu þess efnis að leggja 2 m.kr. í að hanna útipotta við Sundlaug Ísafjarðar við Austurveg.  Það er í sjálfu sér áhugavert verkefni sem gaman væri að styðja. Bæjarráð lét tæknisvið gera kostnaðaráætlun fyrir verkefnið s.l. sumar og grunnmyndir af svæðinu en lagði það til hliðar vegna kostnaðar.

Það ber að líta til þess að við upphaf fjárhagsáætlunarvinnunnar var lagt upp með ákveðnar forsendur þegar litið er til fjárfestinga. M.v. þá fjárhæð sem setja á í framkvæmdir á þessu ári var ekki talið mögulegt að fara íallar þær framkvæmdir sem settar voru í forgang. M.a. var framkvæmdum við skólalóð á Suðureyri og Flateyri og endurbótum á sundlaug á Suðureyri frestað til ársins 2014.

Einnig er vert að benda á að ekki er sjálfgefið að útipottar við Sundlaug Ísafjarðar við Austurveg sé skynsamlegasta leiðin til framtíðar þegar hugað er að bættri sundaðstöðu. Mannvirkið er komið til ára sinna, aðgengi fyrir fatlaða er takmarkað, starfsmannaaðstaða er ófullnægjandi, veitingaaðstaða er engin, búningsklefar eru þröngir og án skápa og hreinsunar og dælukerfi þarfnast endurnýjunar.

Áður en tekin er ákvörðun um að hanna útipott við sundlaugina vill meirihlutinn því kanna hvort að aðrir kostir séu heppilegri til lengri tíma litið. T.d. mætti skoða hvort að heppilegra sé að byggja umrædda potta við Íþróttahúsið á Torfnesi. Þannig mætti hugsanlega áfangaskipta því mikilvæga verkefni að koma upp nýrri sundlaug í Skutulsfirði. Fyrsti áfangi gæti þannig verið að byggja potta og útiaðstöðu við íþróttahúsið. Í öðrum áfanga væri búningsaðstaða stækkuð en síðan væri sundlaugin sjálf byggð.

 

Jóna Benediktsdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu við tillögu meirihlutans.

,,Legg til að breytingartillaga meirihluta við tillögu Í-lista merkt I2 verði dregin til baka.“

            Tillaga Jónu Benediktsdóttur felld 5-4.

Breytingatillaga meirihluta merkt I2 samþykkt 5-4.

Tillaga meirihluta merkt I2 síðan samþykkt í heild 5-4.

 

Jóna Benediktsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun Í-lista.

,,Breytingartillaga meirihlutans varðandi hönnun útisvæðis við Sundhöll Ísafjarðar ber með sér öll merki þess, að hún sé fyrst og fremst ætluð til að tefja eða svæfa málið og jafnvel gefa meirihlutanum tækifæri til að dusta rykið af gömlum kosningaloforðum um sundlaug á Torfnesi.“

Undirritað af Kristjáni Andra Guðjónssyni, Örnu Láru Jónsdóttur, Sigurði Péturssyni og Jónu Benediktsdóttur.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Í.         Lækkun fjárveitingar til byggingar hjúkrunarheimilis á Ísafirði.

Lagt er til að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykki að fjárfesting í málaflokki 54, hjúkrunarheimili á Ísafirði, verði frá fyrri umræðu fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar 2013,  lækkuð úr kr. 350 milljónum í  kr. 348 milljónir, eða um kr. 2 milljónir.

            Tillagan samþykkt 5-2.

-------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Tillaga til 320. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 6. desember 2012.

 

J.         Tillaga frá Í-lista lögð fram á 319. fundi bæjarstjórnar 22. nóvember 2012.

Tillaga 3: Kynbundinn launamunur:

Í-listinn leggur til að farið verið í könnun á  kynbundnum launamun hjá Ísafjarðarbæ.

Í mörg ár hefur verið rætt um að gera formlega könnun á kynbundnum launamun hjá Ísafjarðarbæ. Í- listinn hefur að minnsta kosti tvisvar lagt fram tillögu þess efnis í bæjarstjórn.  Í fyrra skiptið var málið sett í nefnd en í seinna skiptið var tillagan samþykkt, en þeirri samþykkt var ekki fylgt eftir. Nú hefur jafnréttisáætlun Ísafjarðarbæjar verið samþykkt og í henni er gert ráð fyrir að farið verði í könnun á kynbundnum launamun hjá sveitarfélaginu. Því leggur Í-listinn til að farið verði í þetta verkefni. Eitthvað svigrúm er til staðar hjá félagsmálanefnd í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun  en gera má ráð fyrir að könnun sem þessi kosti um 1.6 m.kr.

 

Guðfinna Hreiðarsdóttir lagði til að tillögu Í-lista merktri J verði vísað frá.

            Tillaga Guðfinnu Hreiðarsdóttur samþykkt 5-4.

 

Jóna Benediktsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun frá Í-lista.

,,Bæjarfulltrúar Í-lista telja að betur hefði farið á því að leggja fram sérstaka tillögu um könnun á kynbundnum launamun hjá Ísafjarðarbæ þannig að tryggt sé að vilji bæjarstjórnar sé skýr í þessum efnum.“

Undirritað af Jónu Benediktsdóttur, Kristjáni Andra Guðjónssyni, Örnu Láru Jónsdóttur og Sigurði Péturssyni.

--------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Forseti lagði fram svohljóðandi athugasemd frá Daníel Jakobssyni, bæjarstjóra, um tilfærslu fjármagns á milli bókhaldsliða.

,,Athugasemd frá bæjarstjóra um ranga færslu á bókhaldslykla. Bókaðar eru í fjárhagsáætlun kr. 900.000.- á lykil 04-21-2111 í stað lykils 04-21-4291.“

Leiðrétting í fjárhagsáætlun staðfest.

 

----------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Sigurður Pétursson lagði fram svohljóðandi bókun við meðferð tillagna Í-lista við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar 2013 í bæjarstjórn.

            ,,Í-listinn lagði fram breytingartillögur við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar, sem miðuðu að því að styrkja stöðu barnafjölskyldna og bæta lífsgæði íbúa Ísafjarðarbæjar.  Fulltrúar meirihlutans gerðu engar athugasemdir við þessar tillögur, hvorki í bæjarstjórn né bæjarráði. 

            Á fundi bæjarráðs þann 26. nóvember sl. fól bæjarráð bæjarstjóra að fella þessar breytingatillögur inn í fjárhagsáætlun, þess vegna koma þær breytingatillögur, sem meirihlutinn kemur nú með verulega á óvart og bera ekki vott um samstarfsvilja af þeirra hálfu.  Þar eru tillögur Í-lista teknar, þynntar út, þeim umsnúið og gerðar að tillögum meirihlutans.  Slík vinnubrögð geta fulltrúar Í-lista ekki sætt sig við. 

            Sú fjárhagsáætlun sem nú er verið að samþykkja ber það að auki með sér að vera fyrst og fremst rekstraráætlun, en ekki pólitískt stefnumótunarplagg.  Fulltrúar Í-lista sitja því hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.“

Undirritað af Jónu Benediktsdóttur, Kristjáni Andra Guðjónssyni, Örnu Láru Jónsdóttur og Sigurði Péturssyni.

 

Að lokinni umræðu um fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir starfsárið 2012, var gengið til atkvæðagreiðslu um áætlunina í heild sinni með áorðnum breytingum við afgreiðslu einstaka tillagna.   

 

Rekstraráætlun 2013, ásamt breytingum milli fyrri og síðari umræðu, sem og fram komnum breytingartillögum er fram voru lagðar á 320. fundi bæjarstjórnar og samþykktar, borin upp til atkvæðagreiðslu.  

Rekstraráætlun 2013 þannig breytt samþykkt 5-0.

 

Gjaldskrár Ísafjarðarbæjar og stofnana, er dreift var með dagskrá 319. fundar bæjarstjórnar, ásamt breytingum milli fyrri og síðari umræðu, sem og fram komnum breytingartillögum er lagðar voru fram á 320. fundi bæjarstjórnar og samþykktar, borin upp til atkvæðagreiðslu.  

 Gjaldskrárnar samþykktar 5-0.

 

Efnahagsreikningur 31. desember 2013, yfirlit um sjóðstreymi árið 2013 og áætlun um fjárfestingar á árinu 2013, ásamt áorðnum breytingum er gerðar voru á 320. fundi bæjarstjórnar borin upp til atkvæða í einu lagi. 

Efnahagsreikningur 2013 þannig breyttur samþykktur  5-0.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð.  Fundi slitið kl. 21:00.

 

Þorleifur Pálsson, ritari.

Gísli H. Halldórsson, forseti bæjarstjórnar.

Eiríkur Finnur Greipsson.                                                     

Guðfinna Hreiðarsdóttir.

Kristín Hálfdánsdóttir.                                                       

Marzellíus Sveinbjörnsson.

Sigurður Pétursson.                                                              

Arna Lára Jónsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir.                                                           

Kristján Andri Guðjónsson.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?