Bæjarstjórn - 187. fundur - 6. október 2005
Dagskrá:
I. Fundargerðir bæjarráðs 26/9. og 3/10.
II. Fundargerð almannavarnanefndar 21/9.
III. Fundargerð atvinnumálanefndar 22/9.
IV. Fundargerðir félagsmálanefndar 20/9. og 27/9.
V. Fundargerð staðardagskrárnefndar 28/9.
VI. Fundargerð umhverfisnefndar 28/9.
I. Bæjarráð.
Til máls tóku: Birna Lárusdóttir, forseti, Bryndís G. Friðgeirsdóttir, Björn Davíðsson, Magnús Reynir Guðmundsson, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Ragnheiður Hákonardóttir og Ingi Þór Ágústsson.
Birna Lárusdóttir, forseti, lagði fram svohljóðandi drög að bókun við 3. lið 450. fundargerðar bæjarráðs:
?Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu útflutningsatvinnuveganna á Íslandi.
Raungengi krónunnar er í sögulegu hámarki. Stór hluti fyrirtækja í útflutningsgreinum hefur ekki rekstrargrundvöll við þessar aðstæður. Mjög þrengir að fyrirtækjum í sjávarútvegi og sýnir það sig í lokun fyrirtækja víða um land að undanförnu, sérstaklega í rækjuvinnslu. Þensla á höfuðborgarsvæðinu hefur meiri áhrif á og viðheldur enn frekar háu gengi, en aðrir þættir efnahagslífsins. Hækkun fasteignaverðs vegna aukinna lánamöguleika og 90% lána og innstreymi erlends fjármagns í skuldabréfum vegna hárra vaxta á Íslandi hefur sömu áhrif. Útlit er fyrir að Seðlabanki Íslands boði hærri vexti og hærra gengi til lengri tíma en áður var talið. Áhrifin eru aukið innstreymi fjármagns í hagkerfið með þeim þensluáhrifum sem fylgja.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur að ekki verði gengið lengra í því að hækka vexti og þrengja að útflutningsgreinum í landinu sem þola ekki mikið lengra tímabil með þeirri gengisskráningu sem nú viðgengst.?
Magnús Reynir Guðmundsson lagði fram breytingartillögu við tillögu forseta við 3. lið 450. fundar bæjarráðs og hefur tillögunni verið breytt í samræmi við það.
Birna Lárusdóttir, forseti, lagði fram svohljóðandi tillögu að ályktun við 4. lið 450. fundargerðar bæjarráðs:
?Tillaga að ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um miðstöð innanlandsflugs.
Bæjarstjórn áréttar mikilvægi þess að miðstöð innanlandsflugs á Íslandi sé í Reykjavík. Miklir hagsmunir eru fólgnir í því að tryggt verði að landsmenn allir eigi greiðan aðgang að þeirri opinberu þjónustu sem byggð er upp í höfuðborg Íslands.
Greinargerð:
Undanfarin misseri hefur miklum fjármunum verið varið til uppbyggingar flugaðstöðu í Ísafjarðarbæ. Unnið er að endurgerð og lengingu Þingeyrarflugvallar, nýr flugturn hefur verið tekinn í notkun á Ísafjarðarflugvelli auk þess sem unnið er að stækkun öryggissvæðis. Um leið og bæjarstjórn fagnar þessum áföngum í uppbyggingu samgöngumannvirkja á svæðinu telur hún nauðsynlegt að óvissu um framtíð flugvallar í Reykjavík verði eytt.
Í ljósi þess að mikil umræða er nú um framtíð flugvallar í Vatnsmýri vill bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar undirstrika mikilvægi þess að miðstöð innanlandsflugs sé áfram í Reykjavík. Bæjarstjórn vekur athygli á því að ein af skyldum höfuðborgar er að tryggja gott aðgengi allra landsmanna að þeirri þjónustu sem þar hefur verið byggð upp. Má þar nefna stjórnsýslu og ríkisreknar menntastofnanir en einkum og sér í lagi aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Nú stendur fyrir dyrum frekari uppbygging hátæknisjúkrahúss við Hringbraut og er það eðlileg krafa að íbúar á landsbyggðinni eigi eftir sem áður greiðan aðgang að þeirri stofnun, hvort heldur er í sjúkraflugi eða áætlunarflugi.
Fyrirsjáanlegt þykir að rekstrarlegum forsendum verði kippt undan innanlandsflugi komi til þess að flytja miðstöð þess til Keflavíkur með tilheyrandi kostnaði. Verði það niðurstaðan að flugvöllur í núverandi mynd hverfi, að hluta eða öllu leyti, úr Vatnsmýrinni er brýnt að miðstöð innanlandsflugs verði áfram innan marka höfuðborgarinnar og að almenn sátt ríki á landsvísu um staðsetningu hans."
Bryndís G. Friðgeirsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun S-lista á 187. fundi bæjarstjórnar:
?Undirritaðir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýsa yfir þungum áhyggjum vegna þess erfiða efnahagsástands sem nú ríkir í landinu og kemur verst niður á íbúum landsbyggðarinnar og þeim svæðum sem byggja á útflutningsgreinum. Sú þensla sem ríkt hefur undanfarið virðist vera staðbundin við höfuðborgarsvæðið og Austurland á meðan hefðbundnar útflutningsgreinar á landsbyggðinni eru í bráðum vanda og fyrirtæki hafa ýmist neyðst til að segja upp starfsfólki eða hætta rekstri vegna hágengis krónunnar. Stjórnvöld slá um sig með tekjuafgangi sem fyrst og fremst er til kominn vegna viðskiptahalla og þenslu í þjóðfélaginu. Sveitarfélögin í landinu koma hvergi að þessum efnahagslega ávinningi meðan ríkisvaldið greiðir niður skuldir ríkissjóðs og sveitarfélögum er úthlutað auknum verkefnum án þess að tekjustofnar fylgi. Boðaður hefur verið í fjárlögum frekari niðurskurður ríkisútgjalda í m.a. samgöngumálum um allt land til þess að slá á þenslu en ekkert tillit er tekið til þess að víða á landsbyggðinni hefur þenslu ekki gætt og mætti frekar tala um samdrátt í þessu samhengi. Skorað er á stjórnvöld að taka aukið tillit til þarfa landsbyggðarinnar og endurmeta þennan niðurskurð þannig að eðlilegar kröfur um gæði samgangna og aðra opinbera þjónustu verði ekki hunsaðar."
Björn Davíðsson lagði fram svohljóðandi tillögu við 8. lið 450. fundargerðar bæjarráðs:
?Húseignin Suðurtangi 2 stendur við safnasvæðið í Neðstakaupstað. Ljóst er að heppilegt er að Ísafjarðarbær eignist þetta húsnæði m. t. t. tillagna að nýju hafnarskipulagi. Samkvæmt þessu vill bæjarstjórn að þessari eign verði bætt á lista yfir eignir sem bæjarsjóður vill kaupa af skipulagsástæðum."
Fundargerðin 26/9. 449. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerðin 3/10. 450. fundur.
2. liður. Tillaga bæjarráðs samþykkt 9-0.
3. liður. Drög að bókun lögð fram af Birnu Lárusdóttur, forseta, með breytingartillögu Magnúsar Reynis Guðmundssonar samþykkt 9-0.
4. liður. Tillaga að ályktun lagðri fram af Birnu Lárusdóttur, forseta, samþykkt 9-0.
8. liður. Tillaga forseta um vísan tillögu Björns Davíðssonar til bæjarráðs samþykkt 8-0.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.
II. Almannavarnanefnd.
Til máls tóku: Birna Lárusdóttir, forseti, Bryndís G. Friðgeirsdóttir, Svanlaug Guðnadóttir, Björn Davíðsson og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.
Birna Lárusdóttir, forseti, lagði fram svohljóðandi drög að bókun við 3. lið 57. fundar almannavarnanefndar:
,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir yfir ánægju með ákvörðun ríkisstjórnar Íslands þess efnis að fela Vegagerðinni að hefja nú þegar rannsóknir og athuganir sem miði að því að hefja jarðgangagerð undir Óshlíð árið 2006.
Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 22. september s.l. var tekið undir áhyggjur bæjaryfirvalda í Bolungarvík, vegna viðvarandi hættu af grjóthruni á veginn um Óshlíð. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir sig reiðubúna til samstarfs við samgönguyfirvöld vegna þeirrar vinnu sem framundan er við útfærslu á fyrirhuguðum framkvæmdum. Hér er um gríðarlega samgöngubót að ræða sem er liður í því að koma á varanlegum úrbótum í samgöngum allt frá Bolungarvík til Súðavíkur."
Bryndís G. Friðgeirsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun S-lista við 3. lið 57. fundar almannavarnanefndar:
,,Tökum undir orð formanns bæjarráðs, sem fram hafa komið í fjölmiðlum, um að hann vonist til að athuganir Vegagerðarinnar leiði í ljós, að hagkvæmara reynist að gera jarðgöng í einum áfanga alla leið, til að losna við þann hættulega farartálma sem Óshlíð er.,,
Undirritað af Bryndísi G. Friðgeirsdóttur og Birni Davíðssyni.
Fundargerðin 21/9. 57. fundur.
3. liður. Drög að bókun er borin var fram af Birnu Lárusdóttur, forseta, samþykkt 8-0.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
III. Atvinnumálanefnd.
Til máls tóku: Birna Lárusdóttir, forseti og Magnús Reynir Guðmundsson.
Birna Lárusdóttir, forseti, lagði fram svohljóðandi drög að bókun við 1. lið 58. fundagerðar atvinnumálanefndar:
,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir, að óska eftir við dómsmálaráðuneytið færslu starfa við þjóðskrá til Ísafjarðarbæjar. Slík færsla væri í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, um uppbyggingu opinberra starfa á landsbyggðinni og í samræmi við þá opinberu stefnu að byggja Ísafjörð upp sem þjónustukjarna fyrir Vestfirði."
Fundargerðin 22/9. 58. fundur.
1. liður. Drög að bókun samþykkt 9-0.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
IV. Félagsmálanefnd.
Fundargerðin 20/9. 257. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerðin 27/9 258. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
V. Staðardagskrárnefnd.
Til máls tóku: Svanlaug Guðnadóttir, Björn Davíðsson, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Bryndís G. Friðgeirsdóttir, Ingi Þór Ágústsson, Ragnheiður Hákonardóttir, Birna Lárusdóttir, forseti og Magnús Reynir Guðmundsson.
Fundargerðin 28/9. 26. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
VI. Umhverfisnefnd.
Til máls tóku: Birna Lárusdóttir, forseti, Magnús Reynir Guðmundsson, Ragnheiður Hákonardóttir, Björn Davíðsson og Björgmundur Örn Guðmundsson.
Birna Lárusdóttir, forseti, lagði fram svohljóðandi bréf undir 218. fundargerð umhverfisnefndar.
,,Ég undirrituð Birna Lárusdóttir segi hér með af mér sem nefndarmaður og formaður umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar."
Bréfið er undirritað og dagsett þann 6. október 2005.
Svanlaug Guðnadóttir lagði fram svohljóðandi tillögu undir 218. fundargerð umhverfisnefndar:
,,Kosning nefndarmanna.
Þar sem Birna Lárusdóttir hefur sagt af sér sem nefndarmaður og formaður í umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi:
Kristján Kristjánsson nefndarmaður í umhverfisnefnd verði formaður nefndarinnar.
Jón Svanberg Hjartarson verði aðalmaður í umhverfisnefnd."
Fundargerðin 28/9. 218. fundur.
1. liður. Tillaga forseta um vísun þessa liðar aftur til umhverfisnefndar samþykkt 7-2.
2. liður. Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 9-0.
3. liður. Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 9-0.
5. liður. Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 8-0.
Svanlaug Guðnadóttir óskaði bókaða hjásetu sína.
7. liður. Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 9-0.
Tillaga Svanlaugar Guðnadóttur um kosningar í umhverfisnefnd samþykkt 9-0.
Fundargerðin í heild sinni samþykkt 9-0.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð. Fundi slitið kl. 20:50
Þorleifur Pálsson, ritari.
Birna Lárusdóttir, forseti.
Svanlaug Guðnadóttir. Björgmundur Ö. Guðmundsson.
Ragnheiður Hákonardóttir. Ingi Þór Ágústsson.
Björn Davíðsson. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.
Magnús Reynir Guðmundsson.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.