Bæjarráð - 799. fundur - 18. júní 2013
Þetta var gert:
1. Bréf Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. – Atvinnumálastefna Ísafjarðarbæjar. 2010-08-0057.
Mættir á fund bæjarráðs undir þessum lið eru Shiran Þórisson og Jón Páll Hreinsson.
Lagt fram tölvubréf Shirans Þórissonar f.h. Atvest, dagsett 14. júní sl., ásamt lokadrögum að atvinnumálastefnu Ísafjarðarbæjar, dagsettum 13. júní sl., og samantekt frá vinnufundum með fulltrúum menningarmála og skapandi greina í Ísafjarðarbæ.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að drög að atvinnumálastefnu Ísafjarðarbæjar verði samþykkt með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.
2. Fundargerðir nefnda.
Félagsmálanefnd 11/06. 379. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
2. liður. Bæjarráð óskar eftir að stefna Ísafjarðarbæjar í málefnum fatlaðs fólks verði lögð fyrir næsta fund bæjarráðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Íþrótta- og tómstundanefnd 10/6. 139. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
3. Greinargerð sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs. – Leikskóladeild fyrir 5 ára börn í Skutulsfirði. 2013-01-0070.
Margrét Halldórsdóttir mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Lögð fram greinargerð Margrétar Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, dagsett 14. júní sl., um leikskóladeild fyrir 5 ára börn á lofti Sundhallar Ísafjarðar, nauðsynlegar framkvæmdir sem þyrfti að fara í og kostnað sem þessu fylgir.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að opnuð verði leikskóladeild fyrir 5 ára börn í Skutulsfirði á Sundhallarloftinu á Ísafirði. Hugað verði vel að þeim athugasemdum sem fram hafa komið frá foreldrum og starfsfólki leikskóla.
4. Minnisblað íþróttafulltrúa. – Ástand sundlaugarinnar á Suðureyri. 2013-04-0023.
Lagt fram minnisblað Patreks Súna R. Jenssonar, íþróttafulltrúa, dagsett 14. júní sl., þar sem hann upplýsir að ástand lagna í Sundlaug Suðureyrar sé slæmt og taka þurfi ákvörðun um framhaldið.
Bæjarráð samþykkir að fela umhverfis- og eignasviði að meta kostnað við endurbætur sundlaugarinnar á Suðureyri.
5. Minnisblað íþróttafulltrúa. – Útleiga íþróttahússins á Torfnesi til skemmtana-halds. 2013-06-0061.
Lagt fram minnisblað Patreks Súna R. Jenssonar, íþróttafulltrúa, dagsett 14. júní sl., þar sem hann upplýsir að Mýrarboltafélag Íslands hafi óskað eftir því að leigja húsið til skemmtanahalds um verslunarmannahelgina. Álit íþróttafulltrúa er að sökum þess hve gólfið er orðið lélegt í húsinu, þá þoli það ekki þann átroðning sem slíkar skemmtanir hafi í för með sér, en óskar eftir að bæjarráð taki afstöðu í málinu.
Bæjarráð telur sér ekki fært að lána húsið í þessum tilgangi að svo komnu máli.
6. Trúnaðarmál.
Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í trúnaðarmálabók bæjarráðs.
7. Minnisblað hafnarstjóra. – Endurbygging stálþils á Suðureyri, tilboð Íslenska Gámafélagsins. 2012-01-0001.
Lagt fram minnisblað Guðmundar M. Kristjánssonar, hafnarstjóra, dagsett 14. Júní sl., þar sem hann gerir grein fyrir samningaviðræðum við Íslenska Gámafélagið vegna tilboðs þeirra í endurbyggingu stálþils á Suðureyri. Hafnarstjóri leggur til við bæjarráð að endurskoðuðu tilboði Íslenska Gámafélagsins verði tekið.
Bæjarráð samþykkir tillögu hafnarstjóra.
8. Bréf Félags íslenskra kraftamanna. – Vestfjarðavíkingurinn 2013, styrkbeiðni. 2013-06-0046.
Lagður fram tölvupóstur frá Magnúsi Ver Magnússyni f.h. Félags íslenskra kraftamanna, dagsettur 7. júní sl., þar sem óskað er eftir styrk að upphæð 200.000 kr. til að halda Vestfjarðavíkinginn 2013, ásamt gistingu og fæði fyrir keppendur.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að afgreiða málið í framhaldi af umræðum í bæjarráði.
9. Bréf Ernu Höskuldsdóttur. – Dýrafjarðardagar 2013, styrkbeiðni. 2013-02-0049.
Lagður fram tölvupóstur Ernu Höskuldsdóttur, dagsettur 10. júní sl., þar sem óskað er eftir styrk til hátíðarinnar Dýrafjarðardaga 2013.
Bæjarráð tekur jákvætt í styrkveitingu en vísar afgreiðslu til haustúthlutunar menningarstyrkja.
10. Bréf Melrakkaseturs Íslands. – Aðalfundur 2013. 2013-06-0054.
Lagt fram bréf Melrakkaseturs Íslands, ódagsett, en móttekið 13. júní sl., þar sem boðað er til aðalfundar 2013. Fundurinn er boðaður með dagskrá.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að mæta á fundinn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.
11. Bréf Eignarhaldsf. Brunabótaf. Íslands. – Styrktarsjóður EBÍ 2013. 2012-05-0055.
Lagt fram bréf Eignarhaldsf. Brunabótaf. Íslands, dagsett 11. júní sl., þar sem sveitarfélaginu er boðið að senda inn umsókn um stuðning við verkefni sem falla að reglum sjóðsins. Sjóðurinn veitir styrki til sérstakra framfaraverkefna á vegum sveitarfélaganna.
Bæjarráð vísar málinu til skoðunar á sviðsstjórafundi.
12. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. – Skipan fulltrúa í skipulagshóp nýtingaráætlunar strandsvæðis við Ísafjarðardjúp. 2010-04-0016.
Lagt fram bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga, dagsett 12. júní sl., þar sem óskað er eftir tilnefningum Ísafjarðarbæjar um tvo fulltrúa í skipulagshóp nýtingaráætlunar strandsvæðis við Ísafjarðardjúp. Fulltrúum þessum er ætlað að vera talsmenn ákveðinna félaga eða hópa sem hafa sameiginlega hagsmuni og munu vinna undir handleiðslu verkefnisstjórnar Fjórðungssambandsins.
Bæjarráð felur umhverfisnefnd að tilnefna fulltrúa í skipulagshóp nýtingaráætlunar strandsvæðis við Ísafjarðardjúp.
13. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og fundargerð heilbrigðisnefndar 31/5.
Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 3. júní sl., ásamt fundargerð heilbrigðisnefndar frá 31. maí sl.
Lagt fram til kynningar.
14. Bréf Samb. ísl. sveitarf. – Námsferð til Skotlands. 2012-07-0029.
Lagt fram bréf samb. ísl. sveitarf. dagsett 6. júní sl. þar sem kynnt er að sambandið standi fyrir námsferð til Skotlands fyrir sveitarstjórnarmenn 3. – 5. september nk., þar sem ætlunin er m.a. að kynnast þróunarstarfi og heimsækja sveitarfélög.
Lagt fram til kynningar.
15. Trúnaðarmál.
Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í trúnaðarmálabók bæjarráðs.
16. Starfsmannamál.
Arna Lára Jónsdóttir óskar eftir að bókað sé að rætt hafi verið um starfsmannamál.
Daníel Jakobsson óskar eftir að bókað sé að hann telji að starfsmannamál séu í góðum farvegi.
Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl.9:55.
Hjördís Þráinsdóttir, skjalastjóri.
Gísli H. Halldórsson, formaður bæjarráðs.
Arna Lára Jónsdóttir.
Albertína Elíasdóttir.
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.