Bæjarráð - 752. fundur - 30. maí 2012
Þetta var gert:
1. Bréf Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. - Umsóknir um styrki 2012. 2012-05-0055.
Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands dagsett 22. maí sl., þar sem fram kemur að opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr styrktarsjóði EBÍ. Umsóknarfrestur er til loka ágúst n.k. og þurfa umsóknir að vera vegna sérstakra framfaraverkefna á vegum sveitarfélaga, en ekki vegna almennra rekstrarverkefna. Umsóknum ber að skila á sérstökum umsóknareyðublöðum. Bréfinu fylgja reglur fyrir styrktarsjóð EBÍ.
Bæjarráð vísar bréfi Eignarhaldsfélagsins til skoðunar hjá sviðsstjórum Ísafjarðarbæjar.
2. Bréf Karlakórsins Ernis. - Þökk fyrir veittan stuðning. 2012-01-0041.
Lagt fram bréf frá Karlakórnum Erni dagsett 17. maí sl., þar sem þakkað er fyrir veittan stuðning við svonefnt Heklumót karlakóra, er haldið var hér á Ísafirði þann 21. apríl sl. á vegum Karlakórsins Ernis.
Bæjarráð þakkar bréf Karlakórsins Ernis.
3. Bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis. - Kvenfélagið Ósk, Húsmæðraskólinn Ósk, Ísafirði. 2008-01-0036.
Lagt fram bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneyti dagsett 14. maí sl., er varðar bréf er ráðuneytinu hefur borist frá kvenfélaginu Ósk á Ísafirði, þar sem fjallað er um ætlaðar vanefndir Ísafjarðarbæjar gagnvart kvenfélaginu Ósk, vegna afhendingar Ísafjarðarbæjar á fasteigninni Austurvegi 11, Ísafirði, til Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytis.
4. Bréf Búnaðarsambands Vestfjarða. - Ályktun frá aðalfundi. 2012-05-0050.
Lagt fram bréf frá Búnaðarsambandi Vestfjarða dagsett 14. maí sl., þar sem fram kemur ályktun frá aðalfundi er varðar vinnubrögð í sumum sveitarfélögum við förgun fiskúrgangs í sjó og það jafnvel fram af hafnarköntum. Í þennan úrgang sækja bæði hrafnar og mávar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða bréf Búnaðar- sambandsins.
5. Bréf Snævars Valentínusar Vagnssonar. - Sauðnaut til vesturhluta Íslands. 2012-05-0052.
Lagt fram bréf frá Snævari Valentínusi Vagnssyni ódagsett en móttekið þann 22. maí sl. Bréfið fjallar um þá hugmynd að fá heimild til að flytja til Íslands sauðnaut frá Grænlandi og staðsetja þau á vestanverðu landinu.
Bæjarráð áframsendir erindið til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar.
6. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2012. 2012-05-0064.
Lagt fram tölvubréf frá Samb. ísl. sveitarf., þar sem fram kemur að fjármálaráðstefna sveitarfélaganna 2012 verður haldin 27. og 28. september n.k.
Lagt fram til kynningar í bæjarráði.
7. Bréf Fiskistofu. - Umsókn Arnarlax ehf., um rekstrarleyfis til laxeldis í Arnarfirði. 2011-06-0045.
Lagt fram bréf frá Fiskistofu dagsett 21. maí sl., þar sem óskað er umsagnar um umsókn Arnarlax ehf., um rekstrarleyfi til laxeldis í Arnarfirði, þar sem leyfilegt framleiðslumagn er allt að 3.000 tonn af laxi á ári.
Bæjarráð vísar erindi Fiskistofu til umhverfisnefndar til umsagnar.
8. Bréf Hörpu Stefánsdóttur á fjölskylduskrifstofu. - Úttekt á íbúðum að Sindragötu 4, Ísafirði. 2011-05-0037.
Lagt fram bréf frá Hörpu Stefánsdóttur á fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar dagsett 24. maí sl., þar sem hún gerir grein fyrir þörf framkvæmda og kostnaði við þær lagfæringar er gera þarf í íbúðum fyrir fatlaða að Sindragötu 4, Ísafirði.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur bæjarstjóra að vinna frekar úr erindinu fyrir næsta fund bæjarráðs.
9. Bréf umhverfisráðuneytis.- Lánsumsókn til Ofanflóðanefndar. 2012-05-0056.
Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 23. maí sl., þar sem fram kemur að á 172. fundi Ofanflóðanefndar var fjallað um erindi Ísafjarðarbæjar frá 22. maí sl., varðandi lánsumsókn vegna ofanflóðavarnaframkvæmda. Nefndin samþykkti að verða við ósk um lán með fyrirvara um upphæð lánsins, þar til bókhaldsgögn hafa verið yfirfarin.
Lagt fram til kynningar.
10. Bréf Ernu Höskuldsdóttur. - Dýrafjarðardagar, umsókn um styrk. 2012-01-0041.
Lagt fram bréf frá Ernu Höskuldsdóttur, Þingeyri, dagsett 24. maí sl., þar sem óskað er eftir styrk frá Ísafjarðarbæ vegna Dýrafjarðardaga, sem haldnir verða á Þingeyri í lok júní n.k.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.
11. Afrit bréfs til Fiskistofu. - Veitingar rekstrarleyfa til fiskeldis í sjó, staðsetning eldiskvía. 2011-08-0005.
Lagt fram afrit af bréfi Ísafjarðarbæjar til Fiskistofu dagsett 24. maí sl., þar sem óskað er upplýsinga um veitingu rekstrarleyfa og staðsetningu kvía, til fiskeldis í sjó við norðanverða Vestfirði, á svæðum sem eru innan Ísafjarðarbæjar eða tengjast þeim svæðum.
Lagt fram til kynningar.
12. Bréf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. - Byggjakvóti Ísafjarðarbæjar fiskveiðiárið 2011/2012. 2011-10-0008.
Lagt fram bréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti dagsett 23. maí sl., sem er svar við bréfi Ísafjarðarbæjar frá 20. janúar sl. og varðar úthlutun byggðakvóta Ísafjarðarbæjar fiskveiðiárið 2011/2012 og þær reglur er Ísafjarðarbær lagði til að farið væri eftir.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna ákveðna þætti er fram koma í bréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og verður erindið lagt að nýju fyrir bæjarráð á næsta fundi.
13. Aðgerðir Landsbankans, um lokanir afgreiðslustöðva á Vestfjörðum. 2012-05-0065.
Umræður um aðgerðir Landsbankans, um lokanir afgreiðslustöðva á Vestfjörðum þar á meðal á Flateyri.
Lögð var fram og samþykkt svohljóðandi bókun í bæjarráði.
,,Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Landsbankans að loka útibúum sínum á Bíldudal, Króksfjarðarnesi, Flateyri og í Súðavík. Enn og aftur er vegið að grunnstoðum veikari samfélaga í kringum landið og er það gert í nafni samfélagslegrar ábyrgðar hjá bankanum. Í tilviki íbúa á Flateyri þurfa þeir að aka ríflega 22 km aðra leiðina til að eiga bankaviðskipti. Mikill fjöldi íbúa á Flateyri eru erlendir ríkisborgarar og ljóst að þeir þurfa í auknum mæli að taka sér leyfi úr vinnu til að sinna sínum bankaviðskiptum og margir eldri borgarar á staðnum hafa hreinlega engin úrræði.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að verja þjónustu við íbúana, í nafni alvöru samfélagslegrar ábyrgðar, ef ríkisbankinn Landsbankinn endurskoðar ekki þessa ákvörðun sína.“
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 8:35.
Þorleifur Pálsson, ritari.
Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.
Marzellíus Sveinbjörnsson.
Arna Lára Jónsdóttir.
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.