Bæjarráð - 729. fundur - 12. desember 2011
Þetta var gert:
1. Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2012. 2011-08-0013.
Lögð eru fram drög að fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2012. Síðari umræða um fjárhagsáætlunina er áætluð fimmtudaginn 15. desember n.k. Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerði bæjarráði grein fyrir drögum að fjárhagsáætluninni. Áætluninni verður dreift til bæjarfulltrúa síðar í dag.
Bæjarráð vísar drögum að fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2012, til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 15. desember n.k.
2. Bréf Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. - Framlag vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í grunnskólum fjárhagsárið 2012. 2011-09-0056.
Lagt fram bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dagsett 8. desember sl., þar sem gerð er grein fyrir áætluðu framlagi úr Jöfnunarsjóði til Ísafjarðarbæjar vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í grunnskólum fjárhagsárið 2012.
Lagt fram til kynningar í bæjarráði. Sent sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs til kynningar.
3. Bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs. - Kauptilboð í áhaldahúsið á Þingeyri. 2011-12-0005.
Lagt fram bréf frá Jóhanni B. Helgasyni, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, dagsett 5. desember sl., ásamt kauptilboðum er borist hafa í áhaldahús Ísafjarðarbæjar á Þingeyri. Borist hafa tvö kauptilboð í eignina.
Bæjarráð óskar eftir minnisblaði frá sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, um hvernig leyst verði þau mál er tengjast notkun áhaldahúss á Þingeyri í dag.
4. Bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs. - Gleiðarhjalli, Ísafirði, framkvæmdir á árinu 2012. 2011-05-0032.
Lagt fram bréf frá Jóhanni B. Helgasyni, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, dagsett 9. desember sl., er varðar heimild til að hefja undirbúning útboðs á hönnun varna neðan Gleiðarhjalla, Ísafirði.
Jafnframt kemur fram í bréfinu, að frummatsskýrsla hefur nú verið send til Skipulagsstofnunar til yfirferðar og gert ráð fyrir að frummatsskýrsla verði auglýst í þessum mánuði og að kynningarfundur fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar verði haldinn þann 10. janúar á næsta ári.
Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar.
5. Val á bæjarlistamanni Ísafjarðarbæjar. 2011-11-0072.
Á 727. fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 28. nóvember sl., var tekið fyrir minnisblað bæjarritara er fjallaði um val bæjarlistamanns Ísafjarðarbæjar og getið um nokkrar tilnefningar er borist hafa eftir auglýsingu á heimasíðu bæjarins. Á ofangreindum fundi bæjarráðs var málinu frestað og er nú tekið fyrir að nýju.
Bæjarráð hefur komist að niðurstöðu um val á bæjarlistamanni og mun tilkynna það við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu á Eyrartúni, Ísafirði, þann 6. janúar n.k.
6. Erindi Héraðssambands Vestfirðinga. - Rekstur íþróttasvæðisins á Torfnesi. 2011-10-0009.
Lagt fram erindi frá Héraðssambandi Vestfirðinga, um rekstur íþróttasvæðisins á Torfnesi, erindi sem áður var tekið fyrir á 727. fundi bæjarráðs þann 28. nóvember sl. Á þeim fundi var bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar falið að koma á fundi milli aðila. Sá fundur hefur verið haldinn og er erindið nú aftur tekið fyrir í bæjarráði.
Á fund bæjarráðs eru mættir fulltrúar frá HSV, þeir Jón Páll Hreinsson, formaður og Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri, til frekari viðræðu um erindi HSV.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að leggja fram minnisblað um hvað varðar kostnað, mannahald og ábyrgð rekstraraðila, í samræmi við umræður í bæjarráði.
7. Bréf Umhverfisstofnunar. - Kvíaeldisstöð Arnarlax ehf., Arnarfirði. 2011-06-0045.
Lagt fram bréf frá Umhverfisstofnun dagsett 30. nóvember sl., ásamt kynningu á tillögu að starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Arnarlax ehf. í Arnarfirði. Umsagnafrestur um tillöguna er til 3. febrúar 2012.
Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar til frekari vinnslu.
8. Bréf Sveitarfélagsins Skagafjarðar. - Ályktun vegna tillagna frá starfshópi sjávarútvegsráðherra. 2011-12-0012.
Lagt fram bréf frá Sveitarfélaginu Skagafirði dagsett 2. desember sl., þar sem fram kemur bókun að ályktun vegna tillagna frá starfshópi sjávarútvegsráðherra um kvótamál.
Lagt fram til kynningar.
9. Minnisblað bæjarritara. - Kaupsamningur í húseignina Silfurgötu 5, Ísafirði. 2011-10-0004.
Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 9. desember sl., þar sem greint er frá, að nýr kaupsamningur hefur borist vegna sölu á Silfurgötu 5, Ísafirði, frá Gistingu Fasteignum ehf., en áður hafði kaupsamningur frá Gistingu ehf., verið lagður fyrir bæjarráð þann 7. desember sl. og afgreiðslu hans frestað. Óskað er eftir afgreiðslu bæjarráðs á því hvort salan verði heimiluð til Gistingar Fasteigna ehf., í stað Gistingar ehf.
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við þessar breytingar, þar sem kaupskilmálar og söluverð er hið sama og á fyrri kaupsamningi.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 9:50.
Þorleifur Pálsson, ritari.
Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.
Albertína Elíasdóttir.
Arna Lára Jónsdóttir.
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.