Bæjarráð - 704. fundur - 3. júní 2011
Þetta var gert:
1. Yfirlit um rekstur Ísafjarðarbæjar fyrstu mánuði 2011. - Fjármálastjóri
mætti á fund bæjarráðs.
Til fundar við bæjarráð er mættur Jón H. Oddsson, fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar og gerði hann bæjarráði grein fyrir rekstri bæjarfélagsins fyrstu fjóra mánuði ársins 2011.
2. Fundargerð nefndar.
Barnaverndarnefnd 26/5. 118. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
3. Bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs. - Almenningssamgöngur í
Ísafjarðarbæ. 2011-03-0098.
Lagt fram bréf Jóhanns B. Helgasonar, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar dagsett 1. júní sl., þar sem hann gerir grein fyrir þeirri vinnu er fram hefur farið við endurskoðun á almenningssamgöngum í Ísafjarðarbæ. Jóhann B. Helgason, sviðsstjóri óskar eftir, að farið verði með allar tölulegar upplýsingar í bréfinu sem trúnaðarmál.
Lagt er til í bréfinu, að samið verði við F&S hópferðabíla ehf., um framlengingu á gildandi samningi, til eins árs, miðað við þær breytingar er fram koma í ofangreindu bréfi.
Jafnframt er lagt til, að bæjarráð veiti Jóhanni B. Helgasyni í samráði við bæjarstjóra, heimild til að semja til eins árs við annan aðila um skólaakstur í Skutulsfirði. Samningur verði lagður fyrir bæjarráð til staðfestingar.
Bæjarráð samþykkir erindið og leggur til að tillagan verði lögð fyrir bæjarstjórn. Bæjarráð telur þó að skoða þurfi betur með ferðir seinnipartinn til Suðureyrar, hugsanlega má samnýta Þingeyrarferð kl. 15 og ferðaþjónustu fatlaðra.
4. Minnisblað bæjarritara. - Umsagnir um umsókn Langa Manga, um
endurnýjun rekstrarleyfis. 2010-06-0042.
Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 31. maí sl., er varðar umsagnir byggingafulltrúa Ísafjarðarbæjar og eldvarnaeftirlitsmanns Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar, á umsókn veitingastaðarins Langa Manga, Ísafirði, um endurnýjun rekstrarleyfis, samkvæmt bréfi sýslumannsins á Ísafirði dagsettu 9. maí sl.
Byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemdir við veitingu rekstrarleyfis, hvorki út frá staðsetningu húseignarinnar sem um ræðir, né fyrirkomulag húsnæðisins. Hins vegar er gerð athugasemd við snyrtimennsku og umgengni í kringum staðinn og mælst til að áréttað sé við sýslumann að rekstraraðili hugi að þeim málum.
Eldvarnaeftirlitsmaður Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar gerir í skýrslu sinni alvarlegar athugasemdir við brunavarnir húsnæðisins og tekur fram að lítið hafi verið gert til úrbóta frá síðustu skoðun þar áður, samkvæmt kröfubréfi dagsettu 27. maí 2010.
Sökum þessa getur eldvarnareftrilitið ekki fallist á að rekstrarleyfi verði gefið út, þar sem að brunavarnir húsnæðisins eru ekki í lagi.
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við fyrirhugaða leyfisveitingu. Þó er skilyrði að kröfur eldvarnareftirlitsins verði uppfylltar.
5. Bréf björgunarsveitarinnar Sæbjargar, Flateyri. - Beiðni um styrk vegna
sjómannadagsins á Flateyri. 2011-05-0056.
Lagt fram bréf Ívars Kristjánssonar, Flateyri, f.h. björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri, þar sem sótt er um styrk vegna hátíðarhalda sjómannadagsins nú í ár.
Bæjaráð vísar erindinu til bæjarstjóra til úrvinnslu.
6. Bréf sýslumannsins á Ísafirði. - Umsögn um endurnýjun á rekstrarleyfi fyrir
Fisherman Hótel, Suðureyri.
Lagt fram bréf frá sýslumanninum á Ísafirði dagsett 26. maí sl., þar sem leitað er umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn Fisherman ehf., Suðureyri, á endurnýjun rekstrar- leyfis og lengingar opnunartíma veitingahússins Talisman og Fisherman Hótels.
Bæjarráð óskar umsagnar byggingarfulltrúa og eldvarnaeftirlitsmanns Ísafjarðar- bæjar, en gerir ekki athugasemdir við fyrirhugaða leyfisveitingu.
7. Bréf sýslumannsins á Ísafirði. - Umsögn um endurnýjun á rekstrarleyfi fyrir
Hótel Sandafell, Þingeyri.
Lagt fram bréf frá sýslumanninum á Ísafirði dagsett 31. maí sl., þar sem leitað er umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn Eiríks Eiríkssonar á endurnýjun rekstrarleyfis gististaðarins Hótel Sandafell, Hafnarstræti 7, Þingeyri.
Bæjarráð óskar umsagnar byggingarfulltrúa og eldvarnaeftirlitsmanns Ísafjarðar- bæjar, en gerir ekki athugasemdir við fyrirhugaða leyfisveitingu.
8. Bréf Jónu Benediktsdóttur. - Ósk um rökstuðning vegna ráðningar
sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar. 2011-04-0100.
Lagt fram bréf frá Jónu Benediktsdóttur, Fjarðarstræti 39, Ísafirði, dagsett 27. maí sl., þar sem óskað er eftir rökstuðningi vegna ráðningar sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.
9. Bréf Fiskistofu. - Rekstrarleyfi til fiskeldis í Önundarfirði. 2011-04-0084.
Lagt fram bréf frá Fiskistofu dagsett 27. maí sl., þar sem fram kemur að Gísla Jóni Kristjánssyni, Ísafirði, hefur verið veitt rekstrarleyfi til fiskeldis í Önundarfirði til 10 ára. Jafnframt kemur fram í bréfinu að leyfi Gísla Jóns til kvíaeldis á þorski í Skutulsfirði fellur úr gildi frá og með 1. júlí 2011.
Lagt fram til kynningar.
10. Bréf Hafrannsóknastofnunar. - Efling starfsemi á Ísafirði. 2011-04-0067.
Lagt fram bréf frá Hafrannsóknastofnun dagsett 30. maí sl., þar sem stofnunin fagnar þeim áhuga sem bæjaryfirvöld í Ísafjarðarbæ sýna starfsemi stofnunarinnar á Ísafirði. Stofnunin tekur mið af áhuga bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar, við frekari uppbyggingu starfseminnar um landið á komandi árum.
Lagt fram til kynningar í bæjarráði. Bæjarstjóra falið að svara bréfinu.
11. Bréf SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu. - Tilkynning um val á trúnaðar- manni hjá Ísafjarðarbæ. 2011-05-0054.
Lagt fram bréf frá SFR-stéttarfélagi í almannaþjónustu dagsett 21. maí sl., þar sem tilkynnt er um kosningu trúnaðarmanns SFR meðal starfsmanna hjá Ísafjarðarbæ.
Lagt fram til kynningar.
12. Minnisblað formanns bæjarráðs. - Breytingar á skipan í fræðslunefnd.
Lagt fram minnisblað frá Eiríki Finni Greipssyni, formanni bæjarráðs, dagsett 1. júní sl., þar sem hann gerir grein fyrir væntanlegum breytingum á fulltrúa í fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar, þar sem Margrét Halldórsdóttir, formaður, fer úr nefndinni, en lagt verður til að Gísli H. Halldórsson komi í hennar stað og verði jafnframt formaður nefndarinnar.
Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn.
13. Bréf Helgu M. Pálsdóttur hdl. - Greiðslustöðvun Spýtunnar ehf., Ísafirði.
2011-06-0001.
Lag fram bréf frá Helgu M. Pálsdóttur hdl., dagsett 30. maí sl., þar sem tilkynnt er að Spýtunni ehf., Stakkanesi 16, 400 Ísafirði, hefur verið veitt greiðslustöðvun með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða, sem kveðinn var upp 27. maí sl. Boðað er til fundar með lánadrottnum þann 10. júní n.k. kl. 10:00 og verður fundurinn haldinn á Skrifstofu- hótelinu Ísafirði, Hafnarstræti 9, Ísafirði.
Lagt fram til kynningar í bæjarráði. Erindið sent fjármálastjóra til upplýsinga.
14. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Hreinsun og losun skolps.
2011-06-0002.
Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 25. maí sl., minnisblað um meðhöndlun, hreinsun og losun á skólpi frá þéttbýli, samkvæmt reglugerð um fráveitur nr. 798/1999. Meðfylgjandi bréfinu eru úrdráttur úr reglugerð um fráveitur og skólp, sem málið varðar. Ef óskað er frekari upplýsinga þá vinsamlegast verði haft samband við Heilbrigðiseftirlitið.
Lagt fram til kynningar í bæjarráði. Erindið sent sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, sem og til umhverfisnefndar.
15. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 787. stjórnarfundar.
Lögð fram 787. fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá fundi er haldinn var þann 27. maí sl., í Allsherjarbúð að Borgartúni 30 í Reykjavík.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 09:29
Fundargerð ritaði Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.
Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.
Albertína F. Elíasdóttir.
Arna Lára Jónsdóttir.
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.