Bæjarráð - 702. fundur - 23. maí 2011
Þetta var gert:
1. Atvinnumál í Ísafjarðarbæ. - Atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar mætir á
fund bæjarráðs.
Til fundar við bæjarráð er mætt atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar, en í henni sitja sem aðalmenn Ingólfur Þorleifsson, formaður, Benedikt Bjarnason og Sigurður Hreinsson. Jafnframt eru mættir á fund bæjarráðs þeir Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar og Shiran Þórisson, fulltrúi Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Shiran Þórisson gerði grein fyrir þeirri vinnu, sem í gangi er fyrir og með atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar, um atvinnumálastefnu fyrir Ísafjarðarbæ.
Almennar umræður urðu um atvinnumál í Ísafjarðarbæ, stöðu þeirra og framtíðarsýn.
2. Fundargerð nefndar.
Barnaverndarnefnd 19/5. 117. fundur.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Félagsmálanefnd 17/5. 356. fundur.
Fundargerðin er í tíu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Hafnarstjórn 19/5. 153. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
4. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að útbúa tillögu til bæjarstjórnar er varðar
endurskoðun á aðalskipulagi vegna uppbyggingar sjóvarnargarðs út frá
Skutulsfjarðarbraut fram af Torfnesi á Ísafirði.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
3. Minnisblað bæjarstjóra. - Markaðsmál og ímynd Vestfjarða. 2011-03-0158.
Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsett 17. maí sl., er varðar markaðsmál og ímynd Vestfjarða. Minnisblaðið fjallar meðal annars um hvort sveitarfélög á Vestfjörðum ætli að vinna saman að markaðs- og ímyndarmálum svæðisins og láta Markaðsstofu Vestfjarða bera ábyrgð á þeirri vinnu, sem og hvort sveitarfélögin eru tilbúin til að auka fjármagn til Markaðsstofunnar til kynningar á svæðinu.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að farið verði í verkefnið ,,Markaðs- og ímyndarmál Vestfjarða“, fjármögnun er vísað til endurskoðunar á fjárhagsáætlun 2011.
4. Bréf Fiskistofu. - Rekstrarleyfi til fiskeldis í Önundarfirði. 2011-04-0084.
Lagt fram bréf frá Fiskistofu dagsett 13. maí sl., er fjallar um bréf Ísafjarðarbæjar frá 3. maí sl., þar sem svarað er erindi Fiskistofu um umsögn á rekstrarleyfi til fiskeldis í Önundarfirði. Í umsögn Ísafjarðarbæjar er rætt um tímabundið rekstrarleyfi til 4-5 ára.
Í tilefni þessa bendir Fiskistofa á, að í 1. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 segir: ,,Telji Fiskistofa að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi til tíu ára í senn. Ef vistfræðileg rök mæla með því er heimilt að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma.“ Fiskistofa telur að áform um gerð nýtingaráætlunar fyrir svæðið á næstu árum falli ekki undir þessa undantekningu enda liggi ekki fyrir hvenær slík áætlun verður gerð eða á hvaða forsendum hún verður byggð.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, með tilvísun til bréfs Fiskistofu, að leyfi verði veitt til 10 ára.
5. Minnisblað bæjarritara. - Breyting á opnunartíma Bæjar- og
héraðsbókasafns.
Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 19. maí sl., þar sem fram kemur tillaga frá stjórnendum Bæjar- og héraðsbókasafns Ísafjarðarbæjar, um að skerða opnunartíma safnsins. Í dag er opið alla virka daga frá klukkan 13 til 19, en tillaga er um að opnunartíminn verði frá klukkan 13 til 18. Ekki verði breyting á opnunartíma á laugardögum, sem er frá klukkan 13 til 16.
Bæjarráð samþykkir tillögu um skerðingu opnunartíma Bæjar- og héraðsbókasafns.
6. Bréf Jónu Símoníu Bjarnadóttur, forstöðumanns Bæjar- og héraðsbókasafns
og Héraðsskjalasafns Ísafjarðarbæjar. - Átaksverkefni í skjalaflokkun.
Lagt fram bréf frá Jónu Símoníu Bjarnadóttur, forstöðumanni Bæjar- og héraðs- bókasafns og Héraðsskjalasafns Ísafjarðarbæjar dagsett 20. maí sl., þar sem hún gerir grein fyrir átaksverkefni í skjalaflokkun og skráningu árið 2011. Hugmyndin er að tengja þetta verkefni við samstarf við Vinnumálastofnun og er komið loforð frá þeirri stofnun hvað þetta varðar. Þetta tengist og áframhaldandi vinnu með skjalastörf fyrir Þjóðskjalasafn á þessu ári.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu með Jónu Símoníu Bjarnadóttur, forstöðumanni.
7. Bréf Héraðssambands Vestfirðinga. - Vegur upp Dagverðardal í
Skutulsfirði.
Lagt fram bréf frá Kristjáni Þ. Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Héraðssambands Vestfirðinga, dagsett 18. maí sl., er varðar ástand vegar upp Dagverðardal í Skutulsfirði, upp á íþróttasvæði Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar. Bréfinu fylgja myndir er sýna að hluta ástand vegarins.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna, hvort og þá með hvaða hætti Vegagerðin getur aflagt vegi. Jafnfram verði óskað svara, hvort vegur um Dagverðardal sé ekki öryggisleið vegna jarðganga undir Breiðadals- og Botnsheiðar.
8. Ályktanir frá 11. ársþingi HSV haldið þann 10. maí 2011.
Lagðar fram tvær ályktanir frá 11. ársþingi Héraðssambands Vestfirðinga, er haldið var þann 10. maí sl. Ályktanirnar eru svohljóðandi.
11. ársþing HSV haldið Í Ísafjarðarbæ 10. maí 2011, færir Ísafjarðarbæ og Súðarvíkurhreppi þakkir fyrir þeirra stuðning við HSV á liðnum árum. Jafnframt skorar þingið á sveitarfélögin að styðja áfram dyggilega við íþrótta- og æskulýðsstarf.
11. ársþing HSV haldið í Ísafjarðarbæ 10. maí 2011, skorar á Ísafjarðarbæ að halda áfram samstarfi við HSV með verkefnasamningi. Einnig er skorað á Ísafjarðarbæ að horfa til HSV þegar verkefni myndast hjá Ísafjarðarbæ svo hægt sé að stækka og styrkja verkefnasamninginn.
Lagt fram til kynningar.
9. Bréf frá Hvetjanda hf. - Aðalfundarboð 15. júní 2011.
Lagt fram bréf frá Hvetjanda hf., eignarhaldsfélagi, dagsett 17. maí sl., þar sem boðað er til aðalfundar félagsins þann 15. júní n.k. kl. 13:00. Fundurinn verður haldinn á Skrifstofuhótelinu, Hafnarstræti 9-13, Ísafirði. Fundurinn er boðaður með dagskrá.
Bæjarráð felur Daníel Jakobssyni, bæjarstjóra, að mæta á aðalfund Hvetjanda hf., fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 10:07.
Þorleifur Pálsson, bæjarritari
Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráð
Albertína Elíasdóttir
Arna Lára Jónsdóttir
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri