Bæjarráð - 626. fundur - 17. ágúst 2009
Þetta var gert:
1. Fundargerðir nefnda.
Íþrótta- og tómstundanefnd 12/8. 107. fundur
Fundargerðin er í 5 liðum.
2. liður. Bæjarráð staðfestir tillögu íþrótta- og tómstundanefndar um opnunartíma sundlauga í Ísafjarðarbæ veturinn 2009-2010.
3. liður. Bæjarráð vísar kostnaði við rampasvæði til fjárhagsáætlunar næsta árs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Umhverfisnefnd 6/8. 315. fundur.
Fundargerðin er í tólf liðum.
8. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu umhverfisnefndar um að hefja deiliskipulagsvinnu í miðbæ Þingeyrar.
11. liður. Bæjarráð samþykkir að fela tæknideild að hefja vinnu við endurbætur tjaldsvæðis í Tungudal þannig að tjaldsvæðið sjálft verði stækkað og þjónustuhúsnæði betrumbætt fyrir næsta sumar. Tillögur og kostnaðaráætlun liggi fyrir í vinnu við fjárhagsáætlun ársins 2010.
Bæjarráð staðfestir fundargerðina.
2. Byggðakvóti, mótmæli útgerðarmanna á Flateyri. 2009-02-0053.
Birna Lárusdóttir vék af fundi við umræður og afgreiðslu þessa liðar.
Lagt fram bréf útgerðarmanna á Flateyri dags. 12. ágúst þar sem þeir mótmæla úthlutun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 20. júlí sl. Útgerðarmennirnir mótmæla því að ekkert af þeim 64 þorskígildistonnum sem úthlutað var án staðsetningar skuli hafa farið til Flateyrar en áður hafði Flateyri fengið 150 þorskígildistonn úr úthlutun byggðakvóta þar sem ráðuneytið festi úthlutun á byggðarlög. Leggja útgerðarmennirnir til aðra úthlutunaraðferð þar sem 45 þorskígildistonn af fyrrgreindum 64 fari til Flateyrar en þau 19 þorskígildistonn sem þá eru eftir deilist á Þingeyri, Suðureyri og Hnífsdal en ekkert til Ísafjarðar.
Bæjarráð frestar afgreiðslu á erindinu og felur bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga um úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2008/2009, sérstaklega úthlutunarbætur vegna rækju- og skelbrests.
3. Stefna Ísafjarðarbæjar í sorpmálum, bréf stöðvarstjóra Funa. 2008-06-0054.
Lagt fram bréf stöðvarstjóra Funa dags. 14. ágúst þar sem hann ítrekar nauðsyn þess að bæjarráð/bæjarstjórn ákveði hvað skuli gera í sorpmálum Ísafjarðarbæjar. Vísað er til fundar með bæjarráði, bæjarstjóra og fleirum varðandi málið sem og tillögu starfshóps um endurskoðun sorpmála. Starfshópurinn lagði til að Funi yrði endurnýjaður þar sem það væri hagkvæmasta lausnin fyrir Ísafjarðarbæ.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera tillögu til bæjarráðs um næstu skref í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun sorpmála. Jafnframt er bæjarstjóra falið að gera nágrannasveitarfélögum tilboð um myndun sorpsamlags.
4. Sparisjóðurinn Bolungarvík, endurskipulagning rekstar. 2009-04-0027.
Lagt fram bréf til stofnfjáreigenda frá stjórn Sparisjóðs Bolungarvíkur dags. 6. ágúst. Í bréfinu koma fram upplýsingar um að ráðgjafar eru að störfum vegna samninga við lánardrottna sjóðsins og að eiginfjárhlutfall hans er enn undir lögbundnu lágmarki þannig að sjóðurinn starfar skv. undanþágu frá Fjármálaeftirliti.
Einnig að skv. nýjum lögum um sparisjóði er heimilt að færa niður stofnfé með samþykki fundar stofnfjáreigenda, til jöfnunar taps sem ekki verður jafnað á annan hátt.
Reiknað er með að fljótlega verði boðað til stofnfjárfundar en framhaldsaðalfundi Sparisjóðs Bolungarvíkur frá því að aðalfundur var haldinn 20. maí sl., hefur ítrekað verið frestað.
Lagt fram til kynningar.
5. Minnisblað bæjarritara. ? Eitt kauptilboð í Ránargötu 10, Flateyri. 2009-06-0036.
Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 6. ágúst varðandi kauptilboð er borist hefur í Ránargötu 10, Flateyri. Á bæjarráðsfundi 20. júlí var samþykkt að auglýsa húsið til sölu en þá hafði kauptilboð frá Guðmundu G. Björgvinsdóttur að upphæð kr. 1.000.-. borist.
Byggingarfulltrúi hefur veitt þá umsögn að ekkert sé því til fyrirstöðu af skipulagsástæðum að selja Ránargötu 10. Í framhaldi af sölu verði að sækja um leyfi til að breyta húsinu í bílskúr og athuga þurfi breytingu á deiliskipulagi í tengslum við það næst þegar deiliskipulagi verður breytt.
Eftir auglýsingu hafa ekki fleiri tilboð en Guðmundu G. Björgvinsdóttur borist og stendur enn tilboð hennar að upphæð kr. 1.000.-.
Bæjarráð samþykkir tilboð Guðmundu G. Björgvinsdóttur að upphæð kr. 1.000.-. Jafnframt samþykkir bæjarráð að falla frá eldri ákvörðun um niðurrif hússins. Skilyrði fyrir sölunni er að ytra byrði hússins verði gert upp innan tveggja ára frá sölu þess.
6. Verðskrá í mötuneytum grunnskóla Ísafjarðarbæjar. 2009-08-0013.
Lagt fram bréf grunnskólafulltrúa dags. 11. ágúst þar sem hún kynnir hvernig einingaverð í mötuneytum hækkar í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs. Einingaverð hækkar úr 540 kr. í 597 kr. og að sama skapi hækkar niðurgreiðsla Ísafjarðarbæjar úr 170 kr. í 185 kr. Mun þá stök máltíð kosta 412 kr., mánaðaráskrift 7.663 kr., haustönn 23.436 kr. og vorönn 30.132 kr.
Bæjarráð staðfestir niðurgreiðsluna og gjaldskrána fyrir mötuneytin.
7. Stýrihópur sóknaráætlunar fyrir Ísland 2009-08-0011.
Lagt fram bréf stýrihóps Sóknaráætlunar Íslands dags. 4. ágúst. Í bréfinu er kynnt sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja undirbúning að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og samfélagi. Starfinu hefur verið gefið nafnið ,,20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland?.
Vinnuhópar skipaðir aðilum úr atvinnulífi, stjórnmálum, stjórnsýslu og íslensku samfélagi yfirleitt hittast dagana 18. og 26. ágúst. Óskað er eftir sem víðtækastri þátttöku.
Lagt fram til kynningar.
8. Allsherjarnefnd Alþingis sendir frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna, 149. mál, persónukjör til umsagnar. 2009-08-0008.
Lagt fram bréf allsherjarnefndar Alþingis dags. 4. ágúst þar sem boðið er upp á að veita umsögn um 149. mál, frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna, 149. mál, persónukjör. Veittur er frestur til 25. ágúst til að veita umsögnina.
Lagt fram til kynningar.
9. Fjórðungssamband Vestfirðinga, fundargerð stjórnar.
Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga ásamt fundargerð stjórnar frá 5. ágúst.
Lagt fram til kynningar.
10. Bréf UNICEF Ísland varðandi aðstæður íslenskra barna. 2008-10-0036.
Lagt fram bréf frá UNICEF Ísland dags. 28. júlí þar sem UNICEF leggur áherslu á stöðu barna í samfélaginu þegar ákvarðanir eru teknar til að takast á við efnahagsþrengingar. Býður UNICEF jafnframt upp á aðstoð vegna þeirra verkefna sem framundan eru.
Bæjarráð vísar erindinu til Skóla- og fjölskylduskrifstofu.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:45
Svanlaug Guðnadóttir, formaður bæjarráðs.
Birna Lárusdóttir.
Sigurður Pétursson.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, sem jafnframt ritaði fundargerð