Bæjarráð - 582. fundur - 21. júlí 2008
Þetta var gert:
1. Verkefnasamningur við HSV. ? Fulltrúar mæta á fund bæjarráðs. 2008-06-0027.
Til fundar við bæjarráð eru mætt Ingi Þór Ágústsson, verkefnastjóri HSV og Margrét Halldórsdóttir, íþrótta- og tómstundafulltrúi Ísafjarðarbæjar, til viðræðna um drög að verkefnasamningi á milli HSV og Ísafjarðarbæjar, sem og um skilgreiningu verkefna samkvæmt þeim samningi.
Bæjarráð lítur svo á, að hér sé um tilraunaverkefni að ræða og samþykkir verkefnasamninginn með fylgiskjali um skilgreiningu verkefna með þeirri breytingu á samningi, að gildistími sé út árið 2009.
2. Trúnaðarmál.
Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í trúnaðarmálabók bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.
3. Bréf Áslaugar J. Jensdóttur og Magnúsar H. Alfreðssonar. ? Faktorshúsið í Hæstakaupstað. 2008-07-0029.
Lagt fram bréf frá Áslaugu J. Jensdóttur og Magnúsi H. Alfreðssyni, Aðalstræti 42, Ísafirði, dagsett 10. júlí s.l., þar sem þau greina frá endurbyggingu sinni á Faktorshúsi í Hæstakaupstað á Ísafirði. Í bréfinu er óskað eftir að Ísafjarðarbær nýti sér heimild í 7. grein laga um húsafriðun, um að fella niður fasteignagjöld af friðuðum húseignum.
Bæjarráð felur bæjarritara að kanna hvort önnur sveitarfélög séu að nýta sér heimildir í 7. grein laga um húsafriðun og þá með hvaða hætti.
4. Bréf Sparisjóðsins á Ísafirði. ? Veðbandslausn. 2008-07-0031.
Lagt fram bréf frá Sparisjóðnum á Ísafirði dagsett 11. júlí s.l., þar sem SpÍs óskar eftir veðbandslausn á lóðarskika úr jörðinni Hóli í Önundarfirði, sem til stendur að leigja undir sumarhús. Sparisjóðurinn óskar eftir veðbandslausn fyrir hönd eigenda jarðarinnar, þeirra Magnúsar Hrings Guðmundssonar og Jensínu Ebbu Jónsdóttur bænda á Hóli.
Bæjarráð samþykkir erindi Sparisjóðsins á Ísafirði, um veðbandslausn á lóðarskika úr jörðinni Hóli í Önundarfirði.
5. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. - 53. Fjórðungsþing. 2008-03-0060.
Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 16. júlí s.l., er varðar 53. Fjórðungsþing, sem haldið verður dagana 5. og 6. september n.k. og tilnefningar sveitarfélaga á þingfulltrúum.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkir, að allir aðalbæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar hafi seturétt á þinginu og fari með atkvæði Ísafjarðarbæjar að jöfnu.
6. Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. ? Endurnýjun öryggiskerfis á Hlíf I, Ísafirði. 2008-07-0034.
Lagt fram bréf frá Sædísi M. Jónatansdóttur, fulltrúa á Skóla- og fjölskylduskrifstofu, dagsett 18. júlí s.l., þar sem gerð er grein fyrir, að öryggiskerfi á Hlíf I á Ísafirði hefur verið dæmt ónýtt og lögð áhersla á, að nú þegar verði hafist handa um að fá nýtt öryggiskerfi á Hlíf I.
Í bréfinu er lagt til, að tæknideild Ísafjarðarbæjar verði falið að leita lausna í endurnýjun á öryggiskefi fyrir Hlíf I og að annast útboð og framkvæmd verksins.
Bæjarráð samþykkir tillögu bréfritara um að fela tæknideild Ísafjarðarbæjar málið.
7. Bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis. ? Áfangaskýrsla um mat á breytingum á nýskipan lögreglu. 2008-07-0032.
Lagt fram bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti dagsett 15. júlí s.l., ásamt áfangaskýrslu um mat á breytingum á nýskipan lögreglu.
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:33.
Þorleifur Pálsson.
Svanlaug Guðnadóttir, formaður bæjarráðs.
Gísli H. Halldórsson.
Magnús Reynir Guðmundsson.