Bæjarráð - 564. fundur - 3. mars 2008
Þetta var gert:
1. Útboð trygginga Ísafjarðarbæjar. - Niðurstaða samanburðar.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, veittu upplýsingar um niðurstöður samanburðar á tilboðum er bárust í tryggingar Ísafjarðarbæjar frá tryggingarfélögunum, Sjóvá Almennar, Tryggingamiðstöðinni og Vátryggingafélagi Íslands. Eftir samanburð er niðurstaðan sú að mati bæjarstjóra og fjármálastjóra, að tilboð Sjóvá Almennra sé hagstæðasta tilboðið.
Með tilvísun til niðurstöðu bæjarstjóra og fjármálastjóra leggur bæjarráð til við bæjarstjórn, að gengið verði til samninga við Sjóvá Almennar tryggingar hf., á grundvelli tilboðs félagsins.
2. Fundargerðir nefnda.
Barnaverndarnefnd 27/2. 94. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fræðslunefndar 26/2. 269. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Hafnarstjórn 25/2. 133. fundur.
Fundagerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Íþrótta- og tómstundanefnd 27/2. 89. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
5. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu íþrótta- og tómstundanefndar.
Kostnaður færist á liðinn 21-81-995-1.
6. liður. B. Umsókn MÍ vísað til umsagnar menningarmálanefndar.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.
3. Minnisblað bæjarstjóra. - Afsláttur fasteignagjalda af hesthúsum. Lögaðilar. 2008-02-0031.
Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 27. febrúar s.l., þar sem hann gerir grein fyrir skoðun sinni á fyrirspurn fjármálastjóra frá 12. febrúar s.l., vegna beiðni Massa þrif ehf., Ísafirði, á styrk til greiðslu fasteignagjalda af eigninni Kirkjubóli 3, Skutulsfirði, vegna notkunar hennar sem hesthúss. Bæjarstjóri fól Þóri Erni Guðmundssyni, starfsmanni á tæknideild, að skoða málið sérstaklega og fylgir niðurstaða hans hér með.
Málið er nú í höndum bæjarráðs og lítur bæjarstjóri svo á að niðurstaða þess, geti haft almenn áhrif á núgildandi reglur og að þeim þurfi að breyta.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá tillögu að nýjum reglum er varða styrkveitingar til greiðslu fasteignagjalda af hesthúsum með tilvísun til tillagna tvö, þrjú og fjögur í minnisblaði bæjarstjóra og breytingum á lið fjögur í núgildandi reglum, um lok styrkveitinga.
4. Minnisblað bæjarritara. - Byggðakvóti vegna Þingeyrar 2006/2007. 2007-03-0097.
Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 28. febrúar s.l., er varðar skiptingu úthlutaðs byggðakvóta til Þingeyrar fiskveiðiárið 2006/2007. Drög að tillögu um skiptingu byggðakvótans voru send sjávarútvegsráðuneyti síðla í nóvember 2007 og hefur ráðuneytið nú svarað því erindi og leggur fram tillögu, sem er í megin dráttum samhljóða tillögu frá Ísafjarðarbæ. Tillagan er sú, að 25% af úthlutuðum byggðakvóta alls 87 þorskígildistonnum skiptist jafnt á milli umsækjenda er uppfylla reglur og 75% skiptist miðað við aflahlutdeildir viðkomandi skipa eins og þær voru við upphaf fiskveiðiársins 2006/2007.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillögur um skiptingu byggðakvóta vegna Þingeyrar verði samþykktar.
Birna Lárusdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.
5. Minnisblað bæjarstjóra. - Söfnun vegna óveðurs í Færeyjum. 2008-02-0116.
Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 27. febrúar s.l., varðandi söfnun fyrir íbúa Skálavíkur á Sandoy í Færeyjum eftir mikið óveður, sem geisaði á eyjunum og olli tjóni víða og mjög miklu tjóni í Skálavík. Bæjarstjóri leggur til að málið verði tekið til umræðu í bæjarráði, annars vegar til að ræða fjárframlag úr bæjarsjóði og hins vegar til að vekja athygli á þeirri söfnun, sem stendur yfir og hvetur fyrirtæki og fólk í Ísafjarðarbæ, til að láta eitthvað af hendi rakna til söfnunarinnar. Íbúar Ísafjarðarbæjar eiga Færeyingum mikið að þakka, því þeir söfnuðu stórum fjárhæðum eftir snjóflóði 1995. Leikskólinn Grænigarður á Flateyri er gjöf Færeyinga, því söfnunarfé frá þeim fjármagnaði byggingu leikskólans að langmestu leyti.
Bæjarráð samþykkir styrkveitingu að fjárhæð kr. 200.000.-, er færist af liðnum 21-81-995-1. Bæjarráð hvetur jafnframt íbúa og fyrirtæki í Ísafjarðarbæ, að leggja söfnuninni lið.
6. Bréf Viðlagatryggingar Íslands. - Vátryggingaryfirlit veitu- og hafnarmannvirkja. 2008-02-0097.
Lagt fram bréf frá Viðlagatryggingu Íslands dagsett 15. febrúar s.l., ásamt vátryggingaryfirlitum mat á viðlagatryggingum veitu- og/eða hafnarmannvirkja, er hafa verið sérmetin af hálfu Viðlagatryggingar. Óskað er eftir að yfirfarið verði hjálagt mat og nauðsynlegt er að fá upplýsingar um framkvæmdir frá því að mat fór fram, um eignir sem teknar hafa verið úr notun og hugsanleg eigendaskipti eða nýja rekstraraðila.
Bæjarráð vísar erindinu til bæjartæknifræðings til yfirferðar.
7. Bréf samgönguráðuneytis. - Jarðgangagerð á samgönguáætlun. 2008-02-0041.
Lagt fram bréf frá samgönguráðuneyti dagsett 20. febrúar s.l., er varðar áskorun um jarðgöng á milli Súðavíkur og Ísafjarðar. Ráðuneytið telur rétt að taka fram að næstu jarðgöng, sem fyrirhuguð eru á samgönguáætlun eru: Göng milli Bolungarvíkur og Hnífsdals ,,Bolungarvíkurgöng?, göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar ,,Norðfjarðargöng? og göng undir Lónsheiði. Erindi um göng á milli Súðavíkur og Ísafjarðar verður kynnt við næstu endurskoðun samgönguáætlunar.
Lagt fram til kynningar.
8. Bréf umhverfisnefndar Alþingis. - Frumvörp til umsagnar. 2008-02-0123.
Lagt fram bréf umhverfisnefndar Alþingis dagsett 26. febrúar s.l., þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til skipulagslaga, 374. mál, heildarlög, umsögn um frumvarp til mannvirkjalaga, 375. mál, heildarlög og frumvarp um brunavarnir, 376. mál, flutningur verkefna Brunamálastofnunar o.fl. Óskað er eftir að svör berist eigi síðar en 11. apríl n.k.
Bæjarráð vísar beiðni umhverfisnefndar Alþingis um umsagnir til umhverfis- nefndar Ísafjarðarbæjar.
9. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 751. stjórnarfundar.
Lögð fram 751. fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá fundi er haldinn var föstudaginn 22. febrúar s.l., að Borgartúni 30 í Reykjavík.
Lagt fram til kynningar.
10. Rekstrarnefnd Stjórnsýsluhúss. - Ársreikningur 2007. 2006-09-0109.
Lagður fram ársreikningur rekstrarnefndar Stjórnsýsluhúss fyrir starfsárið 2007. Reikningurinn er undirritaður af formanni rekstrarnefndar Óla M. Lúðvíkssyni og Halldóri Margeirssyni, gjaldkera.
Lagt fram til kynningar.
11. Til fundar við bæjarráð mæta Halldór Guðbjarnason og Andri Árnason hrl.
Mættir eru á fund bæjarráðs Halldór Guðbjarnason, fulltrúi aðila er hug hafa á að kaupa vatn af Ísafjarðarbæ til útflutnings og Andri Árnason, hrl. og bæjarlögmaður Ísafjarðarbæjar. Rætt var um samningamál.
Bæjarráð telur að samningur um vatnskaup sé tilbúinn til samþykktar. Búið er að vinna að samningnum undanfarna mánuði og þess gætt við samningsgerð að hagsmunir Ísafjarðarbæjar séu tryggðir í hvívetna. Bæjarráð felur bæjarstjóra, að afhenda bæjarfulltrúum eintak samnings merkt trúnaðarmál.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að samningurinn verði samþykktur.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:50.
Þorleifur Pálsson, ritari.
Svanlaug Guðnadóttir, formaður bæjarráðs.
Birna Lárusdóttir.
Sigurður Pétursson.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.