Bæjarráð - 493. fundur - 11. september 2006
Þetta var gert:
1. Fundargerð nefndar.
Starfshópur um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði 5/8. 5. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
2. Bréf Ragnheiðar Hákonardóttur og Guðbjartar Ásgeirssonar. - Staðsetning ljósastaurs við Túngötu 1, Ísafirði.
2006-09-0050.
Lagt fram bréf frá Ragnheiði Hákonardóttur og Guðbjarti Ásgeirssyni, Urðarvegi 33, Ísafirði, dagsett 10. ágúst s.l., er varðar mótmæli við staðsetningu á ljósastaur við Túngötu 1 á Ísafirði. Á fund bæjarráðs undir þessum lið, er mættur Jóhann B. Helgason, bæjartæknifræðingur.
Bæjarráð felur bæjartæknifræðingi að sjá um að ljósastaur á horni Túngötu og Hafnarstræti verði færður til og staðsettur í samræmi við lýsingarhönnun Orkubús Vestfjarða, er lögð var fram í bæjarráði.
3. Bréf F&S hópferðabíla ehf., Þingeyri. - Áætlun almenningssamgangna á milli Þingeyrar-Flateyrar-Ísafjarðar.
2006-05-0069.
Lagt fram bréf frá F&S hópferðabílum ehf., Þingeyri, dagsett 7. september s.l., þar sem óskað er eftir að niður falli ferð í almenningssamgöngum á milli Ísafjarðar og Flateyrar kl. 06:30, en í þess stað haldist áfram inni ferð á milli Ísafjarðar og Flateyrar kl. 17:00, og Flateyrar og Ísafjarðar kl. 17:30, ferð sem sett var upp til prufu nú í sumar alfarið á kostnað verktaka. Ofangreindar breytingar koma ekki til með að valda kostnaðarauka fyrir Ísafjarðarbæ.
Bæjarráð samþykkir erindi F&S hópverðabíla ehf. til reynslu.
4. Vísan tillögu Í-lista frá 208. fundi bæjarstjórnar til bæjarráðs. - Erindi Svæðisráðs Vestfjarða, beiðni um endurgreiðslu. 2005-08-0023.
Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 8. september s.l., vegna vísan 208. fundar bæjarstjórnar á neðangreindri tillögu Í-lista til bæjarráðs, samkvæmt tillögu Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra.
,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir, að fallast á erindi Svanlaugar Guðnadóttur fh. Svæðisráðs Vestfjarða, dags. 26. júní 2006, um endurgreiðslu vegna afnota fatlaðra af ferðaþjónustu Ísafjarðarbæjar á tímabilinu 1. janúar 2003 til 1. nóvember 2005, samtals að upphæð kr. 347.648.-, en samkvæmt úrskurði félagsmálaráðuneytisins, frá 8. ágúst 2005, var óheimilt að taka greiðslu fyrir aksturinn.?
Greinargerð:
Félagsmálaráðuneytið fer með sveitarstjórnarmál í landinu og úrskurðar um fjölmörg deilumál sem upp kunna að koma. Í máli því, sem rætt er hér að framan, hefur félagsmálaráðuneytið úrskurðað, að Ísafjarðarbæ sé óheimilt að taka greiðslu af fötluðum eða aðstandendum þeirra, fyrir akstur fatlaðra til og frá stofnunum. Eftir að slíkur úrskurður liggur fyrir ætti ekki að véfengja hann og þverskallast við að leiðrétta mistök, sem bæjarstjórn og starfsmenn Ísafjarðarbæjar hafa gert undanfarin þrjú ár. Afgreiðsla meirihluta bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, á fundi bæjarráðs 3. júlí s.l., er dæmigert fyrir afstöðu meirihlutans til þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og er enn eitt dæmið um það afskiptaleysi sem meirihluti bæjarstjórnar og bæjarstjóri hafa gagnvart starfsfólki sínu, sem gengur sífellt á lagið og tekur sér völd, sem eiga að vera í höndum bæjarstjórnar.
Kr. 347.648.- sem hér eru til umræðu munu ekki sliga bæjarsjóð að neinu marki, a.m.k. ekki á borð við þau stórkostlegu útgjöld, sem ráðist hefur verið í á þessu ári, án þess að þeirra væri getið í gildandi fjárhagsáætlun.
Bæjarráð samþykkir endurgreiðslu vegna ferðaþjónustu fatlaðra í Ísafjarðarbæ vegna tímabilsins 1. janúar 2003 til nóvember 2005 kr. 347.648.-. Ísafjarðarbær hefur fellt niður gjald vegna aksturs fatlaðra og mun skv. upplýsingum sem lagðar voru fyrir bæjarráð 3. júlí s.l., vera eina sveitarfélagið, sem ekki tekur gjald fyrir ferðaþjónustu fatlaðra. Bæjarráð áskilur sér rétt til að krefjast endurgreiðslu kostnaðar frá ríkinu en samþykkir endurgreiðslu með hagsmuni þeirra í huga, sem nýta sér þjónustuna.
5. Bréf fjármálastjóra. - Tilboð Glitnis banka hf., í hugsanleg bankaviðskipti Ísafjarðarbæjar. 2006-08-0073.
Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 8. september s.l., er varðar bréf Glitnis banka hf. til Ísafjarðarbæjar dagsettu 28. ágúst s.l., um hugsanlegt tilboð Glitnis í bankaviðskipti Ísafjarðarbæjar. Erindinu var vísað til umsagnar fjármálastjóra á 492. fundi bæjarráðs. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, er mættur á fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár. Í bréfi fjármálastjóra kemur fram að hann leggur til að tilboð Glitnis hf., um útboð á bankaþjónustu verði afþakkað.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að skoða málið frekar.
6. Minnisblað bæjarritara. - Samningur við Tónlistarfélag Ísafjarðar. 2006-03-0133.
Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett þann 8. september s.l., varðandi samning Ísafjarðarbæjar og Tónlistarfélags Ísafjarðar, um menningarhús á Ísafirði. Samningurinn var undirritaður af Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, þann 23. maí s.l., með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Þar sem samningurinn hefur ekki verið tekin fyrir í bæjarstjórn, er þess óskað að bæjarráð leggi til við bæjarstjórn að ofangreindur samningur verði samþykktur.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að samningurinn verði samþykktur.
7. Bréf fjárlaganefndar Alþingis. - Fundir sveitarfélaga með nefndinni. 2006-09-0042.
Lagt fram bréf frá fjárlaganefnd Alþingis dagsett 5. september s.l., þar sem fram kemur að fjárlaganefnd gefur sveitarstjórnarmönnum kost á að eiga fund með nefndinni vegna fjárlagaársins 2007 dagana 25. og 26. september n.k.
Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að eiga fund með nefndinni.
8. Bréf starfshóps um lífræna byggðaþróun. 2006-09-0041.
Lagt fram bréf, til forráðamanna sveitarstjórna, frá starfshópi um lífræna byggðaþróun dagsett 4. september s.l., ásamt eintaki af skýrslu um lífræna framleiðslu, stöðu hennar og þýðingu fyrir byggðaþróun og atvinnulíf á Íslandi. Með bréfinu er vakin athygli á skýrslunni og þess vænst að hún sé kynnt nánar fyrir sveitarstjórnum og viðeigandi nefndum sveitarfélagsins.
Bæjarráð vísar bréfinu og greindri skýrslu til staðardagskrárnefndar og umhverfisnefndar.
9. Ráðningarsamningur við bæjarstjóra.
Lagður fram ráðningarsamningur Ísafjarðarbæjar við Halldór Halldórsson, bæjarstjóra, með gildistíma frá og með 12. júní 2006 til loka kjörtímabilsins 2010. Jafnframt lagði formaður bæjarráðs fram samanburð á launum bæjarstjóra við laun annara bæjarstjóra í nokkrum sambærilegum sveitarfélögum.
Bæjarráð vísar ráðningarsamningi við bæjarstjóra til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:17.
Þorleifur Pálsson, ritari.
Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.
Gísli H. Halldórsson.
Magnús Reynir Guðmundsson.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.