Atvinnu- og menningarmálanefnd - 80. fundur - 5. febrúar 2008
Mætt voru: Kristján G. Jóhannsson, formaður, Áslaug J. Jensdóttir varaformaður, Sigurður Hreinsson, Kári Þór Jóhannsson og Guðmundur Þór Kristjánsson.
Einnig sátu fundinn Steinþór Bragason og Ólafur Ingólfsson frá ráðgjafafyrirtækinu Alsýn, Neil Shiran Þórisson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Heimir Hansson frá Upplýsingamiðstöð ferðamála.
Halldór Halldórsson bæjarstjóri sat fund atvinnumálanefndar og ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
1. Staða mála hjá Alsýn atvinnuráðgjöf.
Samkvæmt samningi Ísafjarðarbæjar og Alsýnar mæta fulltrúar Alsýnar á fund atvinnumálanefndar til að gera grein fyrir stöðu verkefna. Steinþór og Ólafur eru mættir á sinn fyrsta fund til að gera grein fyrir verkefnum eins og þau standa í dag. Skrifleg skýrsla sem Alsýn á skv. samningi að skila 1. febrúar 2008 verður lögð fram á næsta fundi þar sem mikið er að gera hjá Alsýn vegna þess að frestir vegna styrkumsókna eru að renna út um þessar mundir. Alsýn er mörgum fyrirtækjum og einstaklingum innan handar við að sækja um styrki í ýmis verkefni.
Fulltrúar Alsýnar gerðu grein fyrir fjölmörgum verkefnum sem eru í vinnslu en eru þess eðlis að ekki er hægt að gera grein fyrir einstökum málum. Greinargerð um verkefnin var afhent atvinnumálanefnd sem trúnaðarmál.
Steinþór og Ólafur véku af fundi kl. 16:40.
2. Ferðamál og atburðastjórnun.
Heimir Hansson forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar ferðamála gerði grein fyrir stöðu ýmissa mála er snúa að ferðamálum og atburðastjórnun.
Rætt var um að Ísafjarðarbær hefur tekið að sér sífellt fleiri verkefni í atburðastjórnun á undanförnum árum. Þannig eru viðburðir sem bærinn styrkti áður með fjárframlagi, orðnir að verkefni sveitarfélagsins.
Atvinnumálanefnd telur það form heppilegast fyrir sem flesta viðburði að þeim sé stýrt af ,,grasrótinni? ef svo má að orði komast. Þátttaka bæjarins sé þá frekar í formi styrkja en í því að taka að sér rekstur viðburða með atburðastjóra og fjárframlagi að auki.
Stefnt er á fund með fulltrúum menningarmálanefndar til að ræða stefnumótun Ísafjarðarbæjar varðandi atburðastjórnun.
Rætt var um tjaldsvæði Ísafjarðarbæjar og þörf á framkvæmdum næsta vor. Heimir gerði grein fyrir fundum með tæknideild og rekstraraðilum vegna tjaldsvæðis í Tungudal. Þar þarf að stækka þjónustuhús, bæta aðstöðu og aðgengi að heitu vatni og bæta við plássi fyrir húsbíla. Sama gildir um önnur tjaldsvæði í byggðakjörnum innan Ísafjarðarbæjar. Tjaldsvæðið við Dynjanda í Arnarfirði þarfnast frekara viðhalds, bæði bílaplan, grjóthleðslur og húsið sjálft. Búið er að sækja um styrk til að fjármagna viðhald við tjaldsvæðið við Dynjanda.
Rekstur Upplýsingamiðstöðvar ferðamála hefur gengið ágætlega og staðist áætlanir. Nú standa yfir breytingar á húsnæði miðstöðvarinnar til að gera það aðgengilegra fyrir ferðafólk. Markaðsstofa Vestfjarða verður í sama húsnæði og Upplýsingamiðstöðin en er tímabundið í húsnæði Vesturferða sem eru í Edinborgarhúsinu eins og Upplýsingamiðstöðin.
Rætt var um tjaldsvæðið í Tungudal og hvort hægt væri að útbúa betri aðstöðu úti í bæ, sérstaklega fyrir húsbíla.
Heimir Hansson vék af fundi kl. 17:15.
3. Ráðstöfun fjármuna vegna tekjusamdráttar bæjarsjóða og hafnarsjóða.
Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar 8. janúar sl. fól bæjarráð bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar að ræða við atvinnumálanefnd um hugsanlega ráðstöfun á 15.427.035 kr. sem félagsmálaráðuneytið hefur úthlutað til Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2007 vegna tímabundins samdráttar í aflamarki þorsks.
Atvinnumálanefnd telur að hluti þessara fjármuna fari til að fjármagna samning við atvinnuráðgjafafyrirtækið Alsýn. Gerðar eru miklar kröfur til Alsýnar um að fjölga störfum og hægt að bæta við verkefnum eftir því sem atvinnumálanefnd ákveður.
Atvinnumálanefnd leggur til að hluti þessara fjármuna fari til að fjármagna átaksverkefni til að taka á vinnslustoppi yfir sumarið með fyrirtækjunum í bænum. Þannig verði tímabundin atvinna fjármögnuð á móti framlagi fyrirtækja og Vinnumálastofnunar reynist þörf á því.
4. Beiðni um fjármagn í verkefnið ,,Fóður og fjör úti á landi.?
Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar 4. febrúar sl. var ákveðið að óska eftir umsögn atvinnumálanefndar um beiðni um 100.000 kr. styrk í verkefnið ,,Fóður og fjör úti á landi? sem haldið verður víðs vegar um land dagana 21.-24. febrúar n.k.
Atvinnumálanefnd telur um áhugavert verkefni að ræða sem kynnir Ísafjarðarbæ með jákvæðum hætti. Mikilvægt er að verkefnið nái fótfestu þannig að sem flestir veitingastaðir geti tekið þátt í framtíðinni. Mælt er með því við bæjarráð að verkefnið verði styrkt um 50.000 kr.
5. Samningur Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða við atvinnumálanefnd.
Lagður fram samningur milli Ísafjarðarbæjar og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða um störf fyrir atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar dags. í dag 5. febrúar. Verkefni Atvest er að veita atvinnumálanefnd þjónustu sem fólgin er í margvíslegum undirbúningi funda atvinnumálanefndar, fundarsetu, fundarritun og eftirfylgni tillagna og samþykkta. Áætlaður tímafjöldi er 10 tímar á mánuði.
Atvinnumálanefnd samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.
6. Staða mála vegna hugmynda um þjónustu við A-Grænland
Bæjarstjóri gerði grein fyrir því að hafnarstjóri hefur haldið áfram viðræðum við fulltrúa námafyrirtækja. Ekki hefur fengist nein niðurstaða í það mál ennþá.
Umræða var um flug frá Ísafirði til A-Grænlands og nauðsyn þess að samgönguyfirvöld opni völlinn fyrir flug að nýju. Vegna reglugerðarbreytinga má ekki nota flugvöllinn nema settar verði upp nauðsynlegar girðingar og tækjabúnaður til að uppfylla kröfur reglugerðar. Atvinnumálanefnd gerir kröfu um að hægt verði að fljúga um Ísafjarðarflugvöll í millilandaflugi. Aðstæður í dag vinna gegn nýsköpun í atvinnulífi svæðisins og möguleikum á að þróa þjónustu við A-Grænland.
7. Samningur um möguleg vatnskaup í samræmi við viljayfirlýsingu Ísafjarðarbæjar og fyrirtækisins Brúarfoss ehf.
Bæjarstjóri upplýsti að enn standa yfir viðræður milli Ísafjarðarbæjar og Brúarfoss ehf. í samræmi við áformsyfirlýsingu sem undirrituð var á síðasta ári. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu er miðað við að ljúka samningi í síðasta lagi 31. mars 2008. Áformsyfirlýsingin gildir út árið 2008.
8. Upplýsingar um lausar lóðir.
Á fundi atvinnumálanefndar 14. nóvember sl. var formanni falið að ræða við forstöðumann tæknideildar um hvort hægt sé að hafa upplýsingar um lausar lóðir aðgengilegar á netinu.
Formaður upplýsti að tæknideild er að láta útbúa þessa lausn í samstarfi við verkfræðistofuna Snertil. Þá er Skipulagsstofnun að opna skipulagsgátt á vef sínum og mun sveitarfélögum bjóðast að tengjast þeirri gátt. Þess vegna má vænta þess að upplýsingar um lausar lóðir í Ísafjarðarbæ verði aðgengilegar á netinu á næstu misserum.
9. Fundartímar atvinnumálanefndar
Formaður talaði um að halda fundi mánaðarlega kl. 16:00 fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Fundartímar 2008 verða þá 4. mars, 1. apríl, 6. maí, 3. júní, 12. ágúst (annar þriðjudagur í ágúst), 2. september, 7. október, 4. nóvember og 2. desember. Ef halda þarf aukafundi verða þeir boðaðir sérstaklega.
Einnig var rætt um að halda fundi nefndarinnar víðar í sveitarfélaginu, fara í heimsóknir í fyrirtæki og halda fundina til skiptis í byggðakjörnum sveitarfélagsins.
Fleira ekki gert, fundargerðin upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 18:30
Kristján G. Jóhannsson, formaður
Kári Þór Jóhannsson
Áslaug J. Jensdóttir, varaformaður
Sigurður Hreinsson
Guðmundur Þór Kristjánsson
Shiran Þórisson
Halldór Halldórsson