Atvinnu- og menningarmálanefnd - 110. fundur - 9. ágúst 2011
Mættir: Ingólfur Þorleifsson, formaður, Sigurður Hreinsson og Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar, sem jafnframt ritaði fundargerð. Benedikt Bjarnason var fjarverandi, í hans stað mætti Sigríður Ó. Kristjánsdóttir.
Dagskrá fundarins:
1. Umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 839. mál.
Tilvísun frá bæjarráði. 2011-07-0027.
Nefndin kemur sér ekki saman um umsögn um frumvarpið.
Sigurður Hreinsson lét bóka eftirfarandi:
„Umsögn Atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, mál 839. Vísað til nefndarinnar frá bæjarráði.
Í mörg ár hafa staðið yfir deilur um stjórnun fiskveiða við Ísland og hafa sjónarmið hagsmunaraðila verið ólík og illsættanleg. Þess ber að geta að með orðinu „hagsmunaraðilar“ er ekki eingöngu átt við einsleitan hóp stórútgerða með vinnslu sem hafa yfir að ráða umtalsverðu magni kvóta. Hagsmunaraðilar eru ekki síður mikill fjöldi sveitarfélaga, íbúar í hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins, vinnslur án útgerða, útgerðir án vinnslu, útgerðir án kvóta, sjómenn, landverkafólk og þannig má lengi, lengi telja.
Í annarri grein laganna (b lið) eru ákvæði sem gefa heimamönnum ákveðinn forgang að kvóta í því sveitarfélagi, en ekki ótakmarkaðan forgang líkt og núverandi kerfi gerir. Lögin eiga að tryggja að afli hvers sveitarfélags fari um hafnir þess og tryggja með þeim hætti viðkomandi sveitarfélagi tekjur bæði af kvótaleigu og af hafnargjaldi. Í sömu grein eru jafnframt tilteknar undanþágur gagnvart þeim sem fjárfesta í nýjum skipum, um að möguleiki sé á kvótaleigu til allt að fimm ára.
Þá er í sömu grein (lið d) ákvæði sem tryggja jafnan aðgang allra fiskvinnsla að öllum lönduðum afla. Verðmyndum á fiski er gerð gegnsæ með því að allur afli fari um fiskmarkaði sem tryggir að samkeppnisstaða innan vinnslugreinarinnar er á jafnréttisgrundvelli og að þau fyrirtæki sem undirbjóða önnur á neytendamörkuðum eru ekki að gera það á grundvelli lægra fisksverðs frá eigin útgerð. Með þessum ákvæðum er staða sjómanna jöfnuð verulega frá því sem nú er og ekki síður samkeppnisstaða fiskvinnslanna.
Í fjórðu grein er fjallað um strandveiðar. Tilkoma strandveiða er mikilvægt skerf í tilliti atvinnuréttar og ekki síður sem aðferð til að koma nýjum aðilum inn í greinina. Öll frekari þróun á því kerfi er jákvæð og hvetjandi fyrir þá aðila sem hyggjast hefja sín fyrstu skref í sjálfstæðum rekstri í sjávarútvegi.
Í 5. grein er tekið á þeim þætti sem snýr að skuldastöðu sjávarútvegsins vegna kvótakaupa. Ljóst er að það verð sem hefur viðgengist á kvóta, er í engu samræmi við fjárhagslegan ávinning af auknum veiðiheimildum. Sú gríðarlega útlánaaukning sem bankakerfið stóð fyrir á árunum 2003-2008 var ekki nema á mjög takmarkaðan hátt að þjóna sjávarútveginum, heldur fyrst og fremst bönkunum sjálfum með þeim tilgangi að fénýta greinina. Skuldir sjávarútvegsins eru verulega íþyngjandi fyrir greinina. Raunar hafa sérfræðingar hjá Háskólanum á Akureyri sýnt fram á það með greiningum sínum á skuldaaukningu greinarinnar á áðurnefndu tímabili, að mjög lítill hluti þeirra skulda nýttist til að auka hagkvæmni greinarinnar í heild. Fjárfesting í rekstrarfjármunum stóð í stað á umræddu tímabili og má leiða að því líkum að hafi einhverjir aðilar notið góðs af þessari skuldaaukningu, hafi það örugglega komið niður á öðrum aðilum innan greinarinnar. Ótakmarkað framsal og óbein veðsetning á aflaheimildum stuðlaði þannig að fjármálalegum óstöðugleika og slæmri nýtingu á fjármunum í aðdraganda hrunsins.
Í greinargerð með frumvarpinu er að lokum tiltekin nauðsyn þess að óháð endurskoðun verði gerð á aðferðafræði og árangri fiskifræðinga Hafró. Á tuttugu ára tímabili, 1952-1972, voru veidd að meðaltali yfir 450 þúsund tonn af þorski árlega. Þegar Hafró tók til við að stjórna fiskveiðum í lok þess tímabils, var markmið þeirra að árleg veiði þorsks myndi aukast í 550 þúsund tonn. Aflaheimildir í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári eru hinsvegar ekki nema 160 þúsund tonn. Það gerir árangur upp á 30% af markmiðum og 35% af þekktri veiðigetu þorsksstofnsins. Ljóst má telja að aðferðafræði Hafró er kolröng og þjóðhagsleg nauðsyn þess að nýta fiskistofnana betur er gríðarleg. Miðað við það gríðarlega fiskmagn sem hefur verið á miðum allt í kringum landið á þessu ári hefði að ósekju mátt veiða a.m.k. 200 þúsund tonnum meira af þorski. Reiknað í gjaldeyri, gerir það upphæð nálægt 100 milljörðum króna í aukningu útflutningstekna.
Það er álit undirritaðs/nefndarinnar að af þeim frumvörpum sem komið hafa fram um stjórn fiskveiða frá upptöku kvótakerfisins, gangi þetta tiltekna frumvarp þingmanna Hreyfingarinnar hvað lengst í þá átt að sætta sjónarmið ólíkra hagsmunaraðila og tryggja á sama tíma viðurkennd viðmið í atvinnufrelsi og samkeppnismálum.“
Ingólfur Þorleifsson formaður lét bóka eftirfarandi:
„Eins og álit hagfræðinga hafa sýnt þá eru allar kollsteypur á kerfinu ekki vænlegar til árangurs. Skýrslur sýna jafnframt að upptaka aflaheimilda mun koma af stað fjöldagjaldþroti innan greinarinnar, og valda ómældum skaða. Í þessu frumvarpi koma þó fram veigamikil atriði sem hafa verið í umræðunni um upptöku skulda þeirra útgerða sem keypt hafa veiðiheimildir og skuldsett sig vegna þess, samhliða upptöku veiðiheimilda. Það hlýtur að vera forsenda áframhaldandi reksturs fjölda fyrirtækja sem verða fyrir upptöku aflaheimilda.
Ég tel þó að ef fara á í breytingar á kerfinu þá eigi þær að vera í anda tillagna sáttanefndarinnar svokölluðu sem skipuð var fulltrúum allra stjórnmálaflokka, sem vann skýrslu um málið, og skilaði samhljóða tillögum um leiðir til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu.“
2. Önnur mál
- Virðisaukinn 2011
Ákveðið að Virðisaukinn verði veittur mánudaginn 22. ágúst.
Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 17.12
Ingólfur Þorleifsson, formaður
Sigurður Hreinsson
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir
Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, upplýsingafulltrúi