Almannavarnanefnd – sameinuð - 14. fundur - 31. desember 2012
Fundinn sátu: Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn, Sigurður Mar Óskarsson, fulltrúi björgunarsveita, Hermann Hermannsson, slökkviliðsmaður, Maron Pétursson, slökkviliðsmaður, Helgi Kristinn Sigmundsson, læknir FSÍ, Jóhann Birkir Helgason, bæjartæknifræðingur, Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps var í símasambandi og Anna Guðrún Gylfadóttir, byggingarfulltrúi sem einnig ritaði fundargerð.
Dagskrá:
1. Snjóflóðahætta í Ísafjarðarbæ og Súðavík
Á fundinn voru mættir Rúnar Óli Karlsson og Magni Hreinn Jónsson frá Veðurstofu Íslands. Skv. veðurspá er úrkomubakki fyrir utan og verður úrkoma fram eftir degi en fer að lægja með deginum. Flóð hafa fallið á Súðavíkurhlíð. Opnun á Súðavíkurhlíð verður metin eftir hádegi. Meiri söfnun er í hlíðum í nótt en síðustu daga og því skapast meiri hætta.
2. Snjómokstur
Vegagerðin sagði að ekki væri áætlað að moka djúpið í dag en áætlað væri að hefja mokstur í Djúpinu á morgun 1. janúar ef veður leyfir.
Bátur er á leið til Súðavíkur til að sækja mannskap. Ómar benti á að bæir í Djúpinu væru innlyksa vegna þess að ekki er mokað. Ef hætta skapast þá væri erfitt að koma fólki í burtu.
3. Rýmingar
Ef veður lægir mun rýmingu verða aflétt af flestum stöðum. Rýming hefur verið óbreytt frá 12. fundi 28. desember sl. Ef flug kemst á til Ísafjarðar þá er heimilt að opna flugstöðina til að koma farþegum til og frá flugvelli. Aðilum sem hafa þurft að rýma hús sín hafa verið send reglulega SMS skilaboð um stöðu mála.
Varaaflstöðvar hafa dottið út og stendur viðgerð yfir á vélum á Ísafirði og í Bolungarvík, þetta hefur valdið miklum vandræðum. Varaaflstöðin í Bolungarvík er á hættusvæði en veðurstofan hefur ekki miklar áhyggur af henni þessa stundina. Starfsmenn OV eru með Tetrastöðvar og öruggt samskiptakerfi milli stafsmanna OV. Olíuforði á díesel vélar er góður og ætti að geta keyrt vélarnar í nokkra sólarhringa. Ekkert rafmagn er í sveitunum í Önundarfirði og hefur ekki tekist að ná því inn. Mjólkárlína er úti.
Orkubú Vestfjarða veit ekkert um varaafl fyrir farsímakerfin, það er ekki tengt OV. Bent var á að hafa samband við Mílu, Vodafone, Nova og Símann vegna þessa.
4. Fréttatilkynning
Almannavarnanefnd mun senda frá sér fréttatilkynningu um stöðu rýminga, lokun vega og veðurhorfur. Fréttatilkynningin mun birtast á heimasíðu lögreglunnar, almannavarnanefndar og á heimasíðu Ísafjarðarbæjar.
Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og undirrituð. Fundi slitið kl. 10:45.
Jóhann Birkir Helgason
Hlynur H. Snorrason
Hermann Hermannsson
Sigurður Mar Óskarsson
Helgi Kr. Sigmundsson
Ómar Már Jónsson
Anna Guðrún Gylfadóttir
Maron Pétursson