Bæjarstjórn

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
402. fundur 25. ágúst 2017 kl. 12:00 - 12:35 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson varamaður
  • Kristján Andri Guðjónsson forseti
  • Jónas Þór Birgisson aðalmaður
  • Arna Lára Jónsdóttir aðalmaður
  • Sif Huld Albertsdóttir varamaður
  • Marzellíus Sveinbjörnsson aðalmaður
  • Sigurður Jón Hreinsson aðalmaður
  • Martha Kristín Pálmadóttir varamaður
  • Gunnhildur Björk Elíasdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri
  • Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri
Dagskrá

1.Fiskeldi - uppbygging og áskoranir - 2017060040

Ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar vegna tillagna starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem gefnar voru út 23. ágúst 2017.
Til máls tóku: Kristján Andri Guðjónsson, forseti, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Arna Lára Jónsdóttir, Jónas Þór Birgisson, Marzellíus Sveinbjörnsson og Sigurður J. Hreinsson.

Kristján Andri Guðjónsson, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar leggur fram eftirfarandi ályktun f.h. allra bæjarfulltrúa:

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gagnrýnir harðlega hugmyndir um að laxeldi í Ísafjarðardjúpi verði slegið á frest á grunni fyrirliggjandi áhættumats frá Hafrannsóknarstofnun.
Þá getur bæjarstjórn alls ekki sætt sig við að ekkert samráð sé haft við íbúa á norðanverðum Vestfjörðum í stefnumótun um fiskeldi og nánast látið sem þeir séu ekki til sem hagsmunaaðilar þegar kemur að laxeldi við Ísafjarðardjúp.
Bæjarstjórn gerir þá kröfu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann setji á starfshóp með aðild sveitarfélaga við Djúp sem rýni framkomnar tillögur og áhættumat vegna laxeldis þar sem leitt verði í ljós hvað þarf til að fiskeldi geti hafist í Ísafjarðardjúpi án ónauðsynlegra tafa.
Ekki verður fallist á að laxar í Ísafjarðardjúpi eigi sér líffræðilega sérstöðu í samanburði við aðra íslenska laxa með þeim hætti að vernd þeirra geti talist náttúruvernd, enda voru ár í Ísafjarðardjúpi ræktaðar upp úr engu á 20. öldinni með laxastofnum víðsvegar að af landinu.
Ekki verður heldur fallist á að „Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi“ sé í dag tilbúið til þess að verða gert að undirstöðuþætti í burðarþolsmati. Stutt er síðan hafist var handa við gerð áhættumatsins. Til þess að áhættumatið teljist vísindalegur grunnur þarf það að hljóta trausta vísindalega rýni þannig að leitt verði í ljós hvort nálgun áhættumatsins geti talist fullnægjandi.
Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa mótað sameiginlega stefnu um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti. Það verður því ekki unað við að raunhæf þróun samfélagsins verði slegin af borðinu á veikum eða illa undirbúnum forsendum. Það er vilji Ísafjarðarbæjar að farið verði af stað með laxeldi í sjó í Ísafjarðardjúpi, en að það verði gert með fullri virðingu fyrir náttúru, umhverfi og mannlífi þannig að samfélög við Djúp fái að blómstra án þess að valda óafturkræfu tjóni á náttúru landsins.“

Forseti ber ályktunina upp til atkvæða.

Ályktunin samþykkt 9-0.

Fundi slitið - kl. 12:35.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?