Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1010. fundur 19. mars 2018 kl. 08:05 - 09:14 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Arna Lára Jónsdóttir formaður
  • Nanný Arna Guðmundsdóttir varamaður
  • Daníel Jakobsson aðalmaður
  • Marzellíus Sveinbjörnsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri
  • Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Snjóflóðavarnir undir Kubba, framkvæmdaleyfi. - 2010120048

Lögð fram greiðslu-, mannafla og verkáætlun frá Framkvæmdasýslu ríkisins, dagsett 13. mars 2018, vegna ofanflóðavarna í Kubba Ísafirði.
Lagt fram til kynningar.

2.Viðbygging við Íþróttahúsið Torfnesi. - 2018010005

Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokks, óskaði eftir umræðu í bæjarráði um þarfagreiningu og skoðun á fleiri kostum vegna mögulegrar viðbyggingar við íþróttahúsið á Torfnesi.
Umræður fóru fram um mögulegar viðbyggingar við íþróttahúsið á Torfnesi.

Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:
„Undirritaður hvetur formann bæjarráðs til að beita sér fyrir því að heildarskipulag Íþróttahússins á Torfnesi og lóðar þess verið skoðað og að gerð verði þarfagreining sem tekur á framtíðarnotkun hússins til a.m.k. næstu 20 ára. Þannig verði tryggt að nýting lóðar hússins verði eins og best verði á kosið og rekstrarkostnaður hússins hagkvæmur. Ljóst er að ýmsar hugmyndir eru á lofti er varða notkun hússins. Því þarf að kalla eftir hugmyndum bæjarbúa og skoða hvaða starfsemi á að vera þarna til langs tíma. Verði það ekki gert er hætt við að þetta verði bútasaumur þar sem einn bútur mun hugsanlega takmarka möguleika á nýrri aðstöðu í framtíðinni með tilheyrandi raski og auknum rekstrarkostnaði. T.d. má nefna hvernig best mætti koma fyrir búningsklefum og móttöku í húsinu verði þar sú fjölbreytta starfsemi sem nú eru uppi hugmyndir um s.s. uppbygging sundlaugar eða pottaaðstöðu og líkamsræktaraðstöðu. Einnig þarf að gera mun betri þarfagreiningu vegna þeirrar líkamsræktaraðstöðu sem nú á að koma upp og hvernig þeim rekstri skal vera háttað. Jafnframt er mikilvægt að gerð sé þarfagreining um hvernig best er að hátta starfsemi í húsinu þannig að bæði byggingar og rekstrarkostnaður verði sem minnstur og að hann verði í takt við þarfir íbúa og óskir þeirra.“

Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins styður bókun Daníels Jakobssonar.

Arna Lára Jónsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun:
„Uppbygging líkamsræktaraðstöðu á Torfnesi er þörf framkvæmd og mikilvægt er að hún gagnist bæjarbúum sem best. Haldinn var kynningarfundur með arkitekti hússins, Vilhjálmi Hjálmarssyni, 8.mars sl. með hagsmunaaðilum. Þar voru kynnt frumhönnun, afstöðumynd, sneiðmyndir og grunnteikningar af öllum hæðum hússins ásamt því að arkitektinn svaraði spurningum. Á fundinum komu fram gagnlegar athugasemdir sem munu nýtast í frekari vinnu. Viðbyggingin kemur yfir anddyri hússins og gert er ráð fyrir nýbyggingu norðaustan megin við íþróttahúsið sem inniheldur móttökueldhús, lyftu og íþróttasal. Þessi staðsetning mun ekki hafa áhrif á aðra uppbyggingu á Torfnesi og takmarkar ekki hugmyndir um byggingu sundlaugar á suðvestur hlið hússins eins og margar bæjarbúa dreymir um. Það er gert ráð fyrir aðkomu fatlaðra, lyftuhúsi, salernum og sér búningsherbergjum auk aðstöðu fyrir kennara og starfsmenn. Ákvörðun um fullnaðarhönnun byggða á þessum hugmyndum verður tekin í apríl.“
Fylgiskjöl:

3.Snjóbifreið á Þingeyri - 2018030076

Lagt fram bréf Kristjáns Gunnarssonar og Hreins Ólafssonar f.h. björgunarsveitarinnar Dýra á Þingeyri, ódagsett en móttekin 16. mars sl., þar sem óskað er eftir því að snjóbifreiðin LEITNER LH 250 verði staðsett á Þingeyri sem öryggistæki til að komast t.d. yfir til Arnarfjarðar. Bifreiðin þarfnast mikils viðhalds og er björgunarsveitin tilbúin til að greiða kostnað við það.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að snjóbifreiðin verði gefin björgunarsveitinni Dýra á Þingeyri.

4.Tillaga að nýtingu gamla Kaupfélagsins á Þingeyri - 2018030072

Lagður er fram til kynningar tölvupóstur Sarah Maloney, Megan Perra, Arnhildar Lillýjar Karlsdóttur og Elfars Loga Hannessonar, dags. 13. mars sl., þar sem óskað er eftir afnotum af gamla Kaupfélaginu á Þingeyri fyrir listagallerí.
Bæjarráð samþykkir erindið að því gefnu að ástand hússins leyfi það. Verkefnið verði unnið í fullu samstarfi við tæknideild og felur bæjarstjóra að gera samning við bréfritara.

5.Móttaka ferðamanna í Ísafjarðarkirkju - 2018030075

Umræður um ferðamenn og gesti í Ísafjarðarkirkju.
Ræddar voru hugmyndir um að Ísafjarðarbær útvegi starfsmann í Ísafjarðarkirkju til að sinna ferðamönnum, sem tilraunverkefni sumarið 2018. Bæjarráð óskar eftir því að hafnarstjórn taki málið til umfjöllunar.

6.Ósk um breytingu á nafni Torfnesvallar. - 2018030023

Lagt fram að nýju, bréf frá knattspyrnudeild Vestra, dagsett 27. febrúar 2018, þar sem fram kemur beiðni um breytingu á nafni Torfnesvallar. Á 1009. fundi bæjarráðs 12. mars sl., tók bæjarráð jákvætt í erindið en óskaði eftir áliti knattspyrnudeildar Harðar. Samþykki Harðar fyrir nafnbreytingunni barst með tölvupósti frá HSV 16. mars sl., og er hann einnig lagður hér fram.
Bæjarráð samþykkir beiðni knattspyrnudeildar Vestra um breytingu á nafni Torfnesvallar í nafnið Olísvöllurinn á Torfnesi.

7.Móttaka kvótaflóttamanna á árinu 2018. - 2017120027

Lagt fram minnisblað frá sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, dagsett 13.2.2018, þar sem óskað er eftir heimild til að fjögla stöðugildum á leikskólanum Grænagarði á Flateyri.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera viðauka og leggur til við bæjarstjórn að samþykkja erindið.

8.Frumvarp til laga um Þjóðskrá Íslands, 339. mál - 2018020003

Lagður fram tölvupóstur Sigrúnar Helgu Sigurjónsdóttur f.h. nefndasviðs Alþingis, dagsettur 12. mars sl., þar sem Ísafjarðarbæ er sent til umsagnar frumvarp til laga um Þjóðskrá Íslands, 339. mál. Umsagnarfrestur er til 3. apríl nk.
Lagt fram til kynningar.

9.Tillaga til þingsályktunar um byggðaáætlun. - 2018020003

Lagður fram tölvupóstur Jóhannesar Tómassonar, f.h. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dagsettur 13. mars sl., þar sem kynnt er að tillaga til þingsályktunar um byggðaáætlun sé komin í kynningu í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur er til 21. mars nk.
Lagt fram til kynningar.

10.Frumvarp til laga um almenn hegningarlög (bann við umskurði drengja), 114. mál. - 2018020003

Lagður fram tölvupóstur Kristjönu Benediktsdóttur f.h. nefndasviðs Alþingis, dagsettur 12. mars sl., þar sem Ísafjarðarbæ er sent til umsagnar frumvarp til laga um almenn hegningarlög (bann við umskurði drengja), 114. mál. Umsagnarfrestur er til 28. mars nk.
Lagt fram til kynningar.

11.Velferðarnefnd - 426 - 1803009F

Fundargerð 426. fundar velferðarnefndar sem haldinn var 13. mars sl. Fundargerðin er í 7 liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.Barnaverndarnefnd á norðanverðum Vestfjörðum - 156 - 1802027F

Fundargerð 156. fundar barnaverndarnefndar sem haldinn var 14. mars sl. Fundargerðin er í 4 liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
  • 12.3 2018030065 Barnavernd - ýmis mál 2018
    Barnaverndarnefnd á norðanverðum Vestfjörðum - 156 Barnaverndarnefnd á norðanverðum Vestfjörðum leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar og sveitastjórn Súðavíkurhrepps að stöðugildi tilsjónar fari úr 50% í 60% stöðugildi. Vísað er til 24. gr. barnverndarlaga nr. 80/2002. Nefndin óskar eftir að starfsmenn nefndarinnar taki saman kostnað vegna úrræðisins, enda ekki gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018. Bókun fundar Bæjarráð felur bæjarstjóra að útbúa viðauka vegna tillögunnar.

Fundi slitið - kl. 09:14.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?