Vil­berg Val­dal Vil­bergs­son — Minning

Frá útnefningu Villa Valla til heiðursborgara árið 2018. Með honum á myndinni eru fulltrúar bæjarstj…
Frá útnefningu Villa Valla til heiðursborgara árið 2018. Með honum á myndinni eru fulltrúar bæjarstjórnar, þau Sigurður Hreinsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir og Kristján Andri Guðjónsson.

Á morgun, 14. desember, verður borinn til grafar Vil­berg Val­dal Vil­bergs­son, tónlistarmaður, rak­ari og heiðurs­borg­ari Ísa­fjarðarbæj­ar, sem lést 6. nóv­em­ber á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Bergi í Bol­ung­ar­vík, 94 ára að aldri.

Villi Valli fædd­ist á Flat­eyri 26. maí 1930. For­eldr­ar hans voru Vil­berg Jóns­son, vélsmiður, og Jó­hanna Stein­unn Guðmunds­dótt­ir hús­móðir.

Strax á barnsaldri var ljóst að Villi Valli bjó yfir óvenjulegum tónlistarhæfileikum og hann var ekki nema tólf ára þegar hann lék í fyrsta sinn á harmoniku fyrir dansi á Flateyri. Þrettán ára var hann farinn að leika einn á dansleikjum. Næstu árin lék hann ýmist einn eða með öðrum hér vestra og einnig í Reykjavík árið 1949. Harmonikkan var hans aðalhljóðfæri en hann lærði einnig á saxófón hjá Guðmundi Nordahl. Árið 1950 flutti Villi Valli til Ísafjarðar til að nema hárskera- og rakaraiðn hjá Árna Matthíassyni og varð það hans aðalstarf í yfir sextíu ár. 

Í gegnum tíðina stofnaði og lék Villi Valli í fjölmörgum hljómsveitum auk þess sem hann stjórnaði Lúðrasveit Ísafjarðar um tíma og var virkur félagi í sveitinni um áratugaskeið. Þrátt fyrir að listsköpun hans hafi aðallega verið á tónlistarsviðinu var Villi Valli einnig iðinn myndlistarmaður.

Villi Valli var út­nefnd­ur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2001 og heiðurs­borg­ari Ísa­fjarðarbæj­ar árið 2018.

Eig­in­kona Villa var Guðný Magnús­dótt­ir, f. 1929, d. 2017. Þau eignuðust fjög­ur börn: Rún­ar, Söru, Bryn­dísi og Svan­hildi.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vottar fjölskyldu og vinum Villa Valla dýpstu samúð.