Vilberg Valdal Vilbergsson — Minning
Á morgun, 14. desember, verður borinn til grafar Vilberg Valdal Vilbergsson, tónlistarmaður, rakari og heiðursborgari Ísafjarðarbæjar, sem lést 6. nóvember á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík, 94 ára að aldri.
Villi Valli fæddist á Flateyri 26. maí 1930. Foreldrar hans voru Vilberg Jónsson, vélsmiður, og Jóhanna Steinunn Guðmundsdóttir húsmóðir.
Strax á barnsaldri var ljóst að Villi Valli bjó yfir óvenjulegum tónlistarhæfileikum og hann var ekki nema tólf ára þegar hann lék í fyrsta sinn á harmoniku fyrir dansi á Flateyri. Þrettán ára var hann farinn að leika einn á dansleikjum. Næstu árin lék hann ýmist einn eða með öðrum hér vestra og einnig í Reykjavík árið 1949. Harmonikkan var hans aðalhljóðfæri en hann lærði einnig á saxófón hjá Guðmundi Nordahl. Árið 1950 flutti Villi Valli til Ísafjarðar til að nema hárskera- og rakaraiðn hjá Árna Matthíassyni og varð það hans aðalstarf í yfir sextíu ár.
Í gegnum tíðina stofnaði og lék Villi Valli í fjölmörgum hljómsveitum auk þess sem hann stjórnaði Lúðrasveit Ísafjarðar um tíma og var virkur félagi í sveitinni um áratugaskeið. Þrátt fyrir að listsköpun hans hafi aðallega verið á tónlistarsviðinu var Villi Valli einnig iðinn myndlistarmaður.
Villi Valli var útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2001 og heiðursborgari Ísafjarðarbæjar árið 2018.
Eiginkona Villa var Guðný Magnúsdóttir, f. 1929, d. 2017. Þau eignuðust fjögur börn: Rúnar, Söru, Bryndísi og Svanhildi.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vottar fjölskyldu og vinum Villa Valla dýpstu samúð.