Útkomuspá 2024: Rekstrarniðurstaða jákvæð um 679,8 milljónir króna
Útkomuspá Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024 var kynnt á 1298. fundi bæjarráðs sem haldinn var mánudaginn 7. október. Niðurstaða spárinnar er að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verður jákvæð um 679,8 m.kr í árslok 2024. A hluti verður jákvæður um 102 m.kr.
Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, er niðurstaða útkomuspárinnar fagnaðarefni.
„Við erum mjög ánægð með að sjá jákvæða útkomuspá fyrir Ísafjarðarbæ í árslok 2024. Þessi niðurstaða endurspeglar markvissa vinnu okkar í bæjarstjórn við að tryggja stöðugleika og ábyrga fjárstjórn, jafnvel þegar við stöndum frammi fyrir ófyrirséðum áskorunum og breytingum. Það er hvetjandi að sjá hvernig samstillt átak í sveitarfélaginu og góð nýting fjármuna leiðir til betri útkomu en upphaflega var áætlað.“
Útkomuspáin samanstendur af af fjárhagsáætlun með viðaukum 1-7 við fjárhagsáætlun sem samþykktir hafa verið af bæjarstjórn, ásamt viðaukum 8 og 9 sem eru ósamþykktir. Til viðbótar er búið að leiðrétta niðurstöðu spárinnar vegna fyrirséðra verkefna sem unnið er að viðauka vegna eða vegna ófyrirséðna tekna/gjalda.
Samþykkt fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu A-hluta upp á 186 m.kr. og jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta upp á 452 m.kr. Sem fyrr segir hafa sjö viðaukar verið samþykktir á árinu og eru tveir á leið til samþykktar. Í lok viðauka 9 er gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu A hluta upp á 159,3 m.kr. og jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta upp á 478,6 m.kr.
Til viðbótar við fyrirliggjandi viðauka hafa eftirfarandi leiðréttingar verið gerðar til að ná saman útkomuspá:
- Hafnarsjóður: Auknar tekjur vegna skemmtiferðaskipa eru nú um 241 m.kr., viðbótarkostnaður var vegna förgunar um 11 m.kr.
- Grunnskólinn á Ísafirði: Fyrirséður er viðbótarkostnaður upp á 7 m.kr. þar sem ekki hefur náðst sú hagræðing í ræstingu sem áætlað var.
- Fasteignir Ísafjarðarbæjar: Aukinn söluhagnaður nemur nú 23 m.kr.
- Barnavernd: Aukinn kostnaður vegna barnaverndarúrræða er fyrirséður um 7,8 m.kr.
- Viðhald gatna: Aukinn kostnaður er fyrirséður um 3 m.kr.