Uppgjör annars ársfjórðungs: Rekstrartekjur 64 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir
12.09.2023
Fréttir
Niðurstaða annars ársfjórðungsuppgjörs 2023 var kynnt í bæjarráði mánudaginn 11. september.
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 136 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir.
Líkt og niðurstaða uppgjörs fyrsta ársfjórðungs sýndi, er rekstrarafgangur lægri en áætlað var í fjárhagsáætlun. Annar ársfjórðungur sýnir nú rekstrarafgang A- og B-hluta upp á 418 m.kr. fyrir janúar til júní 2023. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerir ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 458 m.kr. Rekstrarafgangur er því 40,5 m.kr. lægri en áætlað var.
Rekstrartekjur A- og B-hluta eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 64 m.kr. og rekstrargjöld eru lægri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 31 m.kr.
Meðal skýringa á frávikum A- og B- hluta frá áætlun eru:
- Rekstrartekjur eru 64 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir, þar af eru þjónustutekjur 60 m.kr. hærri en tekjuáætlun. Það skýrist af auknum hafnargjöldum, meðal annars aflagjöldum sem eru 37 m.kr umfram áætlun.
- Rekstrargjöld eru 31 m.kr. undir áætlun. Orkukostnaður er 8 m.kr. hærri en áætlað var vegna meiri hækkunar á gjöldum en gert var ráð fyrir. Æskulýðs- og íþróttamál eru 4,8 m.kr. yfir í orkukostnaði, þar af eru 3 m.kr. vegna íþróttamiðstöðvarinnar á Þingeyri. Viðhaldskostnaður er 38,9 m.kr. yfir áætlun en það mun jafnast út þegar líður á árið. Aðrir liðir eru undir áætlun.
- Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld: Verðbólga ársins 2023 var áætluð 6% en á fyrstu 6 mánuðum ársins er hækkunin orðin 5,3%. Verðbætur eru því samanlagt 133 m.kr. umfram áætlun.