Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum tekur gildi

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa nú staðfest sameiginlega svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2024-2035, í samræmi við 6. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.

Fremsta markmið áætlunarinnar er að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu.

Í henni eru einnig:

  • Upplýsingar um stöðu úrgangsmála á Vestfjörðum.
  • Aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun.
  • Stefna um úrgangsforvarnir.

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum 2024-2035

Stefna sveitarfélaganna á Vestfjörðum í úrgangsmálum

Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa komið sér saman um eftirfarandi megináherslur í úrgangsmálum á gildistíma svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs, þ.e. til ársins 2035.

  1. Sveitarfélög á Vestfjörðum stefna að virku hringrásarhagkerfi í landshlutanum, með það að meginmarkmiði að draga úr myndun úrgangs, auka endurvinnslu, auka aðra endurnýtingu og lágmarka förgun, þannig að magn þess úrgangs sem ekki nýtist í hagkerfinu verði eins lítið og mögulegt er, að teknu tilliti til tæknilegra og efnahagslegra takmarkana.
  2. Sveitarfélögin munu beita hagrænum hvötum í úrgangsmálum, með hagsmuni náttúrunnar og komandi kynslóða að leiðarljósi.
  3. Sveitarfélögin leggja áherslu á að lágmarka flutninga, m.a. með því að stuðla að sem mestri úrvinnslu úrgangs á svæðinu, enda leiði það til bestu mögulegu nýtingar auðlinda og lágmörkunar kolefnisspors.
  4. Sveitarfélögin leggja sérstaka áherslu á að lífrænn úrgangur sem til fellur á Vestfjörðum fari ekki til spillis.
  5. Sveitarfélögin vilja auka verulega samvinnu sín á milli, bæði hvað varðar úrgangsþjónustu og sameiginlega hagsmunagæslu, m.a. hvað varðar búsetujafnrétti og jöfnun flutningskostnaðar.

Aðgerðaáætlun skiptist í 22 aðgerðir í eftirfarandi málaflokkum:

  1. Samstarf og eftirfylgni
    1. Stofnun úrgangsráðs Vestfjarða
    2. Ráðning í fasta stöðu hringrásarfulltrúa hjá Vestfjarðastofu
    3. Sameiginlegar umsóknir um styrki til úrbóta á úrgangsmálum
  2. Úrgangsforvarnir
    1. Kynningarátak um hringrásarhagkerfið
    2. Uppbygging innviða til úrgangsforvarna
  3. Söfnun og flokkun úrgangs
    1. Samræming flokkunarleyfa
    2. Greining á möguleikum til heimajarðgerðar
    3. Fjölgun grenndarstöðva
    4. Bætt meðhöndlun textílefna
    5. Söfnun úrgangs á ferðamannastöðum
  4. Förgunarstaðir og mengaður jarðvegur
    1. Skráning aflagðra förgunarstaða
    2. Bætt nýting garðúrgangs
  5. Uppbygging innviða
    1. Greining á möguleikum á jarðgerð í héraði
    2. Greining á mögulegri uppbyggingu seyrustöðvar á Reykhólum
    3. Greining á möguleikum á uppbyggingu sorporkuvers á Vestfjörðum
    4. Uttekt á urðunarstöðum fyrir óvirkan úrgang
  6. Samþykktir gjaldskrár og kostnaður
    1. Samræming samþykkta um meðhöndlun úrgangs fyrir öll sveitarfélögin
    2. Upplýsingum um kostnað vegna úrgangsmála miðlað milli sveitarfélaga
  7. Samningar við verktaka
    1. Hagkvæmnisathugun á rekstrarformi
    2. Samstarf um útboð og fleira
  8. Útgáfa og kynning
    1. Bætt upplýsingaflæði um söfnun úrgangs, afdrif og kostnaðarskiptingu
  9. Nýsköpun
    1. Úttekt á möguleikum til nýsköpunar í úrgangsmálum á Vestfjörðum