Stóri plokkdagurinn og græn vika

Stóri plokkdagurinn 2025 fer fram sunnudaginn 27. apríl.

Ísafjarðarbær hvetur íbúa og starfsfólk fyrirtækja í sveitarfélaginu til að skella sér út að plokka í sínu næsta nágrenni eða á öðrum vel völdum svæðum. Hægt verður að nálgast glæra poka til verksins í öllum bæjarkjörnum og skilja fulla poka eftir á fyrir fram ákveðnum stöðum, sem listaðir eru hér neðst.

Í næstu viku tekur svo við græn vika í Ísafjarðarbæ þar sem íbúar og fyrirtæki eru hvött til hreinsunar á nánasta umhverfi, til dæmis að hreinsa garða, snyrta tré og runna, sérstaklega þá sem standa út á götu, og sópa stéttir við lóðir. Ef öll sem geta leggja hönd á plóg verða bæjarkjarnarnir okkar fljótt snyrtilegir og fínir fyrir sumarið. 

Gróðurgámar 

Gámar fyrir garðúrgang verða settir upp í öllum kjörnum Ísafjarðarbæjar. Mikilvægt er eingöngu sé settur garðaúrgangur í gámana. Staðsetningar gróðurgáma eru: 

Flateyri:
Á gámasvæði á höfninni.
Hnífsdalur:
Við félagsheimilið.
Ísafjörður:

Gámur er staðsettur inni á gámasvæði Funa en einnig er gámur fyrir utan girðingu sem hægt er að nota þegar afgreiðsla er lokuð.
Suðureyri:
Við Klofning.
Þingeyri:
Við höfnina, þar sem gámabíllinn stoppar venjulega.

Pokar og söfnunarstaðir fyrir plokk

Ágætt er að fergja pokana sem skildir eru eftir ef einhver vindur er.

Flateyri
Á Flateyri verður plokkið í höndum íbúasamtakanna. Hist verður við Bryggjukaffi kl. 11 þar sem ruslapokar verða afhentir og svo gengið skipulega um bæinn í 2-3 tíma. Að plokki loknu og á meðan á plokki stendur er boðið upp á kaffi og heitt súkkulaði á Bryggjukaffi.

Hnífsdalur
Pokar verða við gamla barnaskólann. Fulla ruslapoka má skilja eftir við:

  • Gamla barnaskólann
  • Félagsheimilið

Ísafjörður
Pokar verða í Sundhöllinni, við sparkvöllinn í Holtahverfi og við grenndargámana við Bónus. Fulla ruslapoka má skilja eftir við:

  • Grenndargámana á Landsbankaplaninu
  • Sparkvöllinn í Holtahverfi
  • Grenndargámana við Bónus

Suðureyri
Á Suðureyri verður plokkað í árlegri vorhreinsun Stefnis á morgun, laugardag.

Þingeyri
Á Þingeyri verður plokkið í höndum íbúasamtakanna. Hist verður við Blábankann kl. 11:00 þar sem ruslapokar verða afhentir og svo gengið skipulega um bæinn í 2-3 tíma. Að plokki loknu verður hist aftur við Blábankann þar sem Arctic Fish býður í grill.