Sigríður Júlía verður bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir verður næsti bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hún tekur við af Örnu Láru Jónsdóttur sem verið hefur bæjarstjóri frá árinu 2022 en náði á laugardaginn kjöri á Alþingi.
Sigríður Júlía hefur setið í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þetta kjörtímabil og verið bæði forseti bæjarstjórnar og formaður skipulags- og mannvirkjanefndar. Hún hefur síðustu misseri verið skólastjóri Lýðskólans á Flateyri en áður starfaði hún um árabil sem sviðsstjóri hjá Skógræktinni.
Sigríður Júlía er með meistaragráðu í skógfræði frá lífvísindaháskólann að Ási í Noregi og B.S.-gráðu í landnýtingu frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Sigríður Júlía býr á Suðureyri og er gift Steinþóri Bjarna Kristjánssyni. Hún á tvo syni og fjögur stjúpbörn.
Ráðning Sigríðar Júlíu verður tekin fyrir á bæjarstjórnarfundi næstkomandi fimmtudag og mun hún hefja störf 7. janúar 2025.
„Vestfjörðum og Ísafjarðabæ hefur gengið vel síðustu árin. Við höfum náð tökum á fjármálum bæjarins og sjáum fram á áframhaldandi uppbyggingu. Það kom okkur ekki á óvart að kjósendur vildu Örnu á þing og úr því að svo fór er gott að hafa Siggu sem getur stokkið til með skömmum fyrirvara og klárað kjörtímabil Í-listans. Hún er vel inni í öllum málum og frábær samstarfsfélagi,“ segir Gylfi Ólafsson, oddviti Í-listans.