Samþykkt að varpa umframefni úr uppdælingu í sjó innan við Pollgötu
Bæjarráð samþykkti á 1230. fundi sínum að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja að umframefni úr uppdælingu vegna dýpkunar Sundabakka verði varpað í sjóinn innan við Pollgötu á Ísafirði.
Um 500 þúsund rúmmetrum af efni verður dælt upp við dýpkun Sundahafnar, sem hófst í lok ársins 2022. Um það bil 100-150 þúsund rúmmetrar fara við gerð landfyllingar í Álftafirði og annað eins magn fer í landmótun á Suðurtanga. Eftir standa um 200 þúsund rúmmetrar af efni sem fyrirhugað var að nota í landmótun norðan Skutulsfjarðareyrar. Þegar uppdæling hófst var ljóst að ekki næðist að klára tilheyrandi breytingar á skipulagi til að fara í framkvæmdir vegna þeirrar landfyllingar og því var ákveðið að skoða aðrar mögulegar staðsetningar fyrir efnið.
Meðal annars var skoðað að setja efnið á odda Suðurtanga í nokkrum mismunandi útfærslum, sem og tillaga frá fyrri stigum málsins um að varpa því í sjó við Óshlíð. Þá óskaði Vegagerðin eftir því að skoðað yrði að losa efnið í sjóinn innan við Pollgötu. Í minnisblaði Kjartans Elíassonar hjá mannvirkjadeild Vegagerðarinnar kemur fram að efnið yrði losað á svæði þar sem dýpi er nú á bilinu -2 til -8 metrar og yrði losuninni háttað þannig að efnið yrði neðansjávar á stórstraumsfjöru. Vegagerðin hefur lagt mat á strauma og ölduhreyfingar við Pollgötu og telur ekki hættu á að efnið hreyfist mikið eftir að því verður sleppt.
„Helsti kosturinn við þessa leið, að setja efnið í sjóinn innan við Pollgötu, er að hún felur ekki í sér aukinn kostnað fyrir Ísafjarðarbæ auk þess sem við vitum að þörf er á bættum sjóvörnum við götuna. Ef við setjum efnið sem verður til við dýpkun Sundabakka á þennan stað verða framkvæmdir vegna sjóvarna ódýrari enda ekki þörf á að byggja garða á jafn miklu dýpi og ella,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri. „Það hefur líka lengi legið fyrir að þörf er á að gera hjóla- og göngustíg meðfram Pollinum og þessi lausn þýðir að sú vinna verður einnig einfaldari þegar þar að kemur.“
Vegagerðin er framkvæmdaraðili uppdælingarinnar við Sundabakka og það kemur því í hlut stofnunarinnar að sækja um leyfi fyrir vörpun efnis innan Pollgötu til Umhverfisstofnunar.