Rúmu tonni af textíl safnað í hverjum mánuði

Árið 2024 söfnuðust 14.379 kg af textíl í textílgáma Ísafjarðarbæjar, eða um 1,2 tonn á mánuði. Það sem af er þessu ári hafa safnast 3.394 kg. 1,2 tonn af textíl fylla um það bil sex Euro-palletur.
Síðan í byrjun árs 2024 eru sveitarfélög skyldug til að safna textíl, í kjölfar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Kostnaður við förgun á hverju kílói af textíl er 140 kr. sem gerir þá um 2.000.000 kr. á ári, en þá er ekki talin vinna starfsfólks við losun grenndargámanna.
Það gerist því miður ítrekað að textílgámarnir á Ísafirði eru sneisafullir á laugardegi, þrátt fyrir að hafa verið tæmdir á föstudegi. Í gámunum má oft finna fatnað sem ekki hefur verið tekinn úr umbúðunum og er því greinilega heill og ónotaður.
Það að heil og ónotuð föt skili sér í textílgámana bendir til þess að margir kaupi meira af fötum en þeir raunverulega þurfa.
Íbúar eru því hvattir til að staldra við áður en ný föt eru keypt:
- Spyrjið ykkur hvort þið þurfið virkilega viðkomandi flík
- Veljið gæði fram yfir magn
- Kaupið notað þegar það er hægt
- Skiptið og gefið innan samfélagsins áður en hent er
Með því að taka meðvitaðri ákvarðanir um fatainnkaup er hægt að draga úr sóun, spara opinbert fé og hlífa umhverfinu.
Sjá einnig:
Sveitarfélögin fá fatahrúguna í hausinn en engar tekjur
Sjö tonn af fatnaði á hverjum einasta degi