Hækkun útsvars vegna breytingar á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk

Bæjarráð hefur lagt til við bæjarstjórn að samþykkja að útsvar Ísafjarðarbæjar árið 2023 verði hækkað um 0,22% stig og verði þannig 14,74%, með hliðsjón af samkomulagi Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins um sérstaka viðbótarfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. Tekjuskattur einstaklinga lækkar um sama hlutfall í báðum skattþrepum. Breytingin hefur því ekki áhrif á heildarstaðgreiðslu íbúa.

Gert er ráð fyrir að þessi hækkun hámarksútsvars renni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og er áætlað að hún auki tekjur inn í málaflokkinn um 5 ma.kr. á næsta ári.

Í minnisblaði Eddu Maríu Hagalín, fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar, kemur fram að útsvarshækkunin skili 48 m.kr. inn í áætlaðan útsvarsstofn Ísafjarðarbæjar árið 2023, sem í heild er 22 ma.kr.

Þegar öll aðildarfélög BsVest eru skoðuð mun breytingin skila sér í auknum tekjum inn í málaflokkinn sem nemur 92 m.kr. til viðbótar við þær 414 m.kr. sem voru. Til viðbótar greiða sveitarfélögin svo 104 m.kr. af sínu útsvari til baka til BsVest. Samanlagt verða það því 611 m.kr.


Tölur um áætlað útsvar og áætlaðan útsvarsstofn annarra sveitarfélaga en Ísafjarðarbæjar eru áætlaðar.

Í minnisblaðinu segir enn fremur að ef hlutfall Ísafjarðarbæjar er 80,4% af þjónustu BsVest og ef allar 92 m.kr. skila sér þangað inn, munu 74 m.kr. skila sér til Ísafjarðarbæjar.

Áætlaður halli á málaflokki fatlaðra hjá Ísafjarðarbæ er 54 m.kr. 2022 og 56,5 m.kr. 2023.