Framkvæmdir í Fjarðarstræti — fyrirstöðugarður og malbikun

Mynd úr kortasjá Ísafjarðarbæjar, map.is/isafjordur
Mynd úr kortasjá Ísafjarðarbæjar, map.is/isafjordur

Bæjarráð hefur samþykkt tilboð Tígurs ehf. í gerð 80 metra fyrirstöðugarðs við Norðurtanga á Ísafirði. Verkið felst í flutningi grjóts úr námu í Dagverðardal að garði og röðun í garð. Einnig skal taka upp og endurnýta grjót úr núverandi grjótvörn.

Í útboði er kveðið á um að verktaki skuli gæta þess að ekki sé meira rask utan vinnusvæða en þörf krefur. Þó má gera ráð fyrir að vinnu við verkið fylgi aukin umferð, hávaði og tímabundnar hindranir á aðgengi að svæðinu, sem mun að einhverju leyti hafa áhrif á íbúa í grennd við framkvæmdirnar. Verkið hefst á næstu vikum.

Af þessu tilefni eru eigendur númerslausra bifreiða sem eru á bílaplani við Norðurtanga beðnir um að fjarlægja þá.

Fjörið í Fjarðarstræti heldur svo áfram síðar í sumar þegar neðsti hluti götunnar verður malbikaður, með tilheyrandi raski á umferð. Nánari tímasetning þeirra framkvæmda verður auglýst síðar.