Fjárhagsáætlun 2025: Samantekt bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2025 var samþykkt á 543. fundi bæjarstjórnar sem fór fram þann 5. desember 2024.

Eftirfarandi er samantekt bæjarstjóra, Örnu Láru Jónsdóttur, um áætlunina:

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2025 gerir ráð fyrir 776 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 223 milljónir króna, samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 1.266 milljónir króna, sem eru 14,1% af heildartekjum.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2025 sýnir að okkur hefur tekist, með góðri samvinnu, að ná góðum árangri í rekstri sveitarfélagsins.

Árangurinn er afrakstur mikillar vinnu þar sem unnið hefur verið með skýra framtíðarsýn sem byggir á markmiðum sem við settum okkur í upphafi kjörtímabilsins. Markmiðin eru fyrst og fremst að tryggja sjálfbæran rekstur og styrkja þjónustu við bæjarbúa.

Áætlunin endurspeglar mikinn vöxt og uppbyggingu sem við finnum í okkar samfélagi. Það gengur vel í atvinnulífinu, fólki er að fjölga og það skilar sér í bættum rekstri bæjarins.

Blikur eru á lofti í ytra efnahagsumhverfi sveitarfélagsins, meðal annars vegna kjarasamningaviðræðna, en verðbólgan er að hjaðna og það skiptir rekstur bæjarins miklu máli. Skuldir eru að lækka. Stór stabbi af lánum var greiddur upp fyrr á þessu ári og farið var í gegnum yfirstandandi ár án þess að fara í lántöku. Þar sem áætlun 2025 gerir ráð fyrir ríflegum rekstrarafgangi er stefnt af því að sigla einnig í gegnum næsta ár án þess að taka lán. Allt byggir það þó á því að ytra efnahagsumhverfið verði sveitarfélaginu hagfellt og að forsendur áætlunarinnar gangi eftir.

Á árinu 2025 eru nauðsynlegt að fylgja eftir umbótaverkefnum í rekstri. Þar má helst nefna áframhaldandi sölu úr eignasafni Fastís og samstarf við íbúðarfélagið Brák þar sem við beðið er eftir niðurstöðu varðandi eignir á Suðureyri og Þingeyri.

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2025 byggir á grunni sjálfbærni og ábyrgs rekstrar. Þannig horfum við til framtíðar með það að markmiði að Ísafjarðarbær verði áfram sterkt og gott samfélag. Ég þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg við gerð áætlunarinnar, okkar góða starfsfólki og bæjarfulltrúum.

Kynning fjárhagsáætlunar
Greinargerð fjárhagsáætlunar
Rekstrar- og efnahagsreikningur
Fjárhagsyfirlit sundurliðað

Helstu tölur úr fjárhagsáætlun 2025

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 776 milljónir króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 223 milljón króna
  • Skuldaviðmið er áætlað um 68,5% í árslok 2025
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta eru tæpar 1.266 milljónir króna sem eru 14,1% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta er 14,94%
  • Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðahúsnæði er lækkuð til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats, verður 0,50% af hús- og lóðamati.
  • Áætlaðar fjárfestingar nema 1.714 milljónum króna og nemur hlutur Ísafjarðarbæjar 980 milljónum króna

Í fjárhagsáætlun 2025 er áfram lögð áhersla á að standa vörð um grunnþjónustu við íbúa. Umhverfismál eru fyrirferðamikil og vinna við stórt Evrópuverkefni á sviði fráveitumála er fyrirhuguð í Skutulsfirði. Vel gengur með hreinsistöðvarverkefnin á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri og er vonast til að þær verði komnar í fullna virkni næsta sumar.

Fleiri nýjungar er að finna í áætlun, til dæmis þróun frístundastarfs fyrir ungmenni, hækkun uppbyggingarsamninga við íþróttafélög og aukin þjónusta í minni byggðarkjörnum.

Helstu fjárfestingar 2025

Fjárheimild til framkvæmda fyrir árið 2025 er um 380 milljónir króna í A hluta og 600. mkr í B hluta, eða samtals um 980. m.kr. Meðal framkvæmda má nefna:

  • Ofanflóðavarnir á Flateyri
  • Grunnur lagður að nýrri slökkvistöð á Ísafirði
  • Endurbætur og viðhald skólahúsnæðis og -lóða
  • Framkvæmdir við íþróttamiðstöðvar á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri
  • Endurnýjun lóðar á leikskólanum Sólborg
  • Leiktæki á lóð Grunnskólans á Ísafirði
  • Dælur fyrir fótboltavöll á Torfnesi
  • Endurbætur á Safnahúsi fyrir 100 ára afmæli hússins
  • Endurgerð gangstétta og gönguleiða, til dæmis gerð göngustígs meðfram tjörninni á Suðureyri
  • Leikvellir á opnum svæðum
  • Framkvæmdir á útisvæði í Neðstakaupstað
  • Framkvæmdir við Ísafjarðarhöfn
    • Hönnun og undirbúningur vegna móttökuhúss fyrir farþega skemmtiferðaskipa
    • Malbikun Hrafnatanga
    • Nýtt gámaplan
    • Göngustígar á hafnarsvæði
    • Stækkun skútuhafnar og flotbryggja
    • Trébryggja ferðabáta
  • Framkvæmdir við aðrar hafnir
    • Endurbygging innri hafnargarðs á Þingeyri
    • Ný flotbryggja á Suðureyri
  • Fráveita
    • Sameining útrása og uppsetning hreinsistöðvar á Suðureyri
  •  Vatnsveita
    • Prufu- og rannsóknarholur á Flateyri og Þingeyri
  • Þjónustuíbúðir
    • Kjallari á Hlíf

Útsvar og fasteignagjöld

Lagt er til að áætlaðar útsvarsgreiðslur fyrir árið 2025 verði 3.240 m.kr. samanborið við 3.000 m.kr. í áætlun 2024.

Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa í þessari áætlun en gert er ráð fyrir að stað­greiðslu­­skyldar tekjur hækki um 5,6%. Í áætlun 2025 er staðgreitt útsvar áætlað 3.239,5 m.kr., eftirágreitt útsvar áætlað 129 m.kr. og lækkanir og niðurfærsla áætluð 119 m.kr. 

Samkvæmt fjárhagsáætlun er lagt til að hlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði árið 2025 lækki og verði 0,50% af hús- og lóðarmati. Hlutfall fasteignaskatts af öðrum fasteignum verður óbreytt, það er 1,65% af hús- og lóðarmati. Fast­eigna­gjöld 2025 eru áætluð 1.034 m.kr.