Dagur Benediktsson er íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2024
Skíðagöngumaðurinn Dagur Benediktsson var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2024 við hátíðlega athöfn á veitingastaðnum Logni í gær, sunnudaginn 12. janúar.
Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar stendur fyrir valinu á íþróttamanni Ísafjarðarbæjar og er kallað eftir tilnefningum frá öllum íþróttafélögum í sveitarfélaginu. Íþróttamaður ársins hlýtur verðlaunafé frá Ísafjarðarbæ að upphæð 200.000 kr. en Arctic Fish veitir einnig íþróttamanni ársins og efnilegasta íþróttamanni ársins verðlaunafé að upphæð 100.000 kr. og 50.000 kr.
Þetta er í annað sinn sem Dagur hlýtur þessa útnefningu en hann var einnig íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022.
Dagur er landsliðsmaður í skíðagöngu og fimmfaldur Íslandsmeistari. Hann var tilnefndur af félagi sínu, Skíðafélagi Ísfirðinga, og í rökstuðningi segir meðal annars að hann sé fremsti skíðagöngumaður landsins.
Besti árangur ársins hjá Degi á alþjóðlegum vettvangi árið 2024 var þegar hann náði bestu FIS punktum ferilsins á gríðarsterku móti í Idre í Svíþjóð og landaði 26 sæti í 20 km göngu með frjálsri aðferð.
Dagur Benediktsson er fremsti skíðagöngumaður landsins. Hann er í A-landsliði Íslands í skíðagöngu og keppir fyrir Íslands hönd á mörgum helstu stórmótum heimsins.
Dagur ólst upp í Skíðafélagi Ísfirðinga en æfir nú og keppir um allan heim fyrir hönd Ísfirðinga. Hann er mikill keppnismaður, samviskusamur og skipulagður íþróttamaður sem leggur gríðarlega vinnu í að ná árangri. Dagur ver yfir 700 klukkustundum á ári í æfingar, sem jafngildir um tveimur klukkustundum á dag, alla daga ársins. Þrátt fyrir aga og vinnusemi finnur hann alltaf leið til að gera æfingarnar skemmtilegar, sem æfingafélagar hans kunna vel að meta.
Dagur er mikilvæg fyrirmynd fyrir yngri iðkendur Skíðafélags Ísfirðinga og gefur mikið af sér þegar hann er heima á Ísafirði. Á síðasta keppnistímabili náði Dagur sínum besta árangri á sterku móti í Idre í Svíþjóð, þar sem hann fékk bestu FIS punkta ferilsins og endaði í 26. sæti í 20 km göngu með frjálsri aðferð. Hann var fyrsti Íslendingurinn í mark í Fossavatnsgöngunni og hápunktur ársins var þegar hann varð fimmfaldur Íslandsmeistari á Seljalandsdal síðasta vetur.
Dagur Benediktsson er ómetanlegur fulltrúi skíðagöngunnar á Íslandi og verðugur tilnefningar til Íþróttamanns ársins.
Eyþór Freyr Árnason, efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2024.
Við sama tilefni var efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2024 einnig útnefndur og var það Eyþór Freyr Árnason, skíðagöngumaður í Skíðafélagi Ísfirðinga, sem hreppti titilinn að þessu sinni. Eyþór hefur æft skíðagöngu frá unga aldri og þykir mjög metnaðargjarn, fórnfús og duglegur. Eyþór var bikarmeistari SKÍ í 15-16 ára flokki árið 2024 og tvöfaldur Íslandsmeistari í 15-16 ára flokki bæði í hefðbundinni og frjálsri aðferð.
Eyþór Freyr Árnason er mikill íþróttamaður sem leggur mikinn metnað í það sem hann er að gera. Hann hefur æft skíðagöngu og fótbolta af kappi, með góðum árangri. Með mikilli vinnusemi og skýrum markmiðum hefur Eyþór vaxið með hverjum vetrinum sem skilaði honum mjög góðum árangri síðastliðinn keppnisvetur, eins og Íslandsmeistaratitlum og bikarmeistaratitli. Eyþór er sterk fyrirmynd sem sýnir gott fordæmi og verður virkilega spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.
Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnudeild Vestra.
Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnudeild Vestra hlaut hvatningarverðlaun skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar, fyrir eldmóð, atorkusemi og góðan árangur á árinu 2024, en þetta var fyrsta árið sem Vestri tefldi fram meistaraflokki kvenna. Ekki hafði verið kvennalið í fótbolta í Ísafjarðarbæ síðan árið 2013, þá undir nafni BÍ/Bolungarvíkur.
Þá fengu ungmenni sem hafa verið valin í úrtakshóp fyrir landslið hjá sínum sérsamböndum viðurkenningu fyrir góðan árangur í íþróttum.
Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2024: Tilnefningar