Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 3

Lestrarverkefni á leikskólanum Grænagarði á Flateyri.
Lestrarverkefni á leikskólanum Grænagarði á Flateyri.

Dagbók bæjarstjóra dagana 20.-26. janúar 2025, í þriðju viku í starfi.

Þriðja vika í starfi bæjarstjóra var lífleg eins og hinar fyrri. Það er gott að hefja vinnuvikuna á bæjarráðsfundi. Bæjarráð fer, ásamt bæjarstjóra, með framkvæmdastjórn sveitarfélagsins og fjármálastjórn, það hefur umsjón með stjórnsýslu sveitarfélagsins, undirbýr og semur drög að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og stofnana hans og fyrirtækja, ásamt að sjá til þess að ársreikningar séu samdir og lagðir fyrir.

Í vikunni var fundur í svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða sem ég sit í en núna er verið að vinna drög að köflum skipulagsins. Kaflarnir eru:

  • Framtíðarsýn og áskoranir
  • Náttúra og auðlindir
  • Atvinna og sóknarfæri
  • Samfélag og menning
  • Grunnkerfi og tækni

Svæðisskipulag er skipulagsáætlun um sameiginleg hagsmunamál og svæðisbundnar áherslur, og er oft haft á orði í nefndinni til að fólk nái utan um hvað svæðisskipulag er að þar erum við að fást við „stóru strokurnar“ í heildarmyndinni. Sem dæmi má nefna byggðaþróun, samgöngur, orku og náttúruvernd. Við erum bjartsýn og vonumst til að ná að vinna þetta verkefni hratt og vel en það fær svo sína meðferð í sveitarfélögunum og fer jafnframt í kynningu eins og venjan er með skipulag. Ef allt gengur samkvæmt áætlun ætti svæðisskipulag fyrir Vestfirði að vera tilbúið vorið 2026.

Ég átti fundi með flestöllum sviðsstjórum Ísafjarðarbæjar þar sem við fórum yfir starfsáætlanir þessa árs. Mjög mikilvægt svo ég sé inni í stöðu á fjölbreyttum verkefnum sem sviðstjórarnir og þeirra fólk vinna að.

Sigga Júlla og Jóna Lára, skólastjóri GÖ.Sigga Júlla og Jóna Lára, skólastjóri GÖ.

Ég heimsótti grunnskóla Önundarfjarðar, leikskólann Grænagarð á Flateyri og kíkti í íþróttahúsið á Flateyri. Með mér í för var Hafdís, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs. Bæði í grunnskólanum og í leikskólanum er mikil áhersla á lestur.

Lestrarormurinn í Grunnskóla Önundarfjarðar.
Heimalestursormurinn í Grunnskóla Önundarfjarðar.

Jóna Lára skólastjóri grunnskólanum sagði okkur frá lestrarátaki sem hófst í byrjun skólaárs en það er útfært á þrjá vegu; lestrardagbók þar sem kláraðar bækur eru skráðar í bókadagbók, lestrarbingó og heimalestrarmiðar þar sem nemendur búa til heimalestrarorm sem stefnt er að, að nái um alla ganga skólans.

Sigga Júlla og Hildur, leikskólastjóri á Flateyri.
Sigga Júlla og Hildur, leikskólastjóri á Flateyri.

Þá áttum við gott spjall við Hildi leikskólastjóra á Grænagarði en það er skemmtilegt að segja frá því að á þessum leikskóla eru tveir starfsmenn að fara í fæðingarorlof með vorinu en það er alltaf gaman þegar maður heyrir af fjölgun á svæðinu.

Börn að leik í íþróttahúsinu á Flateyri.
Börn að leik í íþróttahúsinu á Flateyri.

Í íþróttahúsinu stóð yfir boltaæfing grunnskólabarna, mikið líf þar.

Við Bryndís bæjarritari áttum góðan fund með formönnum hverfisráða Önundar-, Dýra- og Súgandafjarðar, þeim Sunnu, Guðrúnu og Ólöfu þar sem við fórum yfir framkvæmdaáætlun bæjarins, vinnu við gerð þjónustustefnu þar sem við bindum miklar vonir við þátttöku íbúa á íbúafundum og síðast en ekki síst undirbúning að útfærlsu svo kallaðra „staðaraugna“ og skerpingu á hlutverki hverfaráða. Það var tæpt á ýmsu og ljóst að framundan er spennandi vinna. En íbúar eiga eftir að heyra meira af þessu þegar fram líða stundir.

Slökkviliðið við Grunnskólann á Ísafirði.
Slökkviliðið við Grunnskólann á Ísafirði.

Annars var líka mikið að gera í félagslífinu. Ég er svo heppin að eiga stjúpdóttur í 10. bekk í Grunnskólanum á Ísafirði en þar er hefð að í upphafi þorra býður bekkurinn foreldrum, eldri systkinum, ömmum og öfum á þorrablót. Þetta er í 45. sinn sem blótið er haldið og verður líklega lengi í minnum haft því þegar setið var til borðs fór fólk að finna brunalykt og við nánari athugun kom í ljós að fyrir utan skólann stóð ruslagámur í ljósum logum. Salurinn var rýmdur á meðan beðið var eftir að slökkviliðið kæmi á staðinn, sem þeir gerðu fljótt og vel og þá gat skemmtunin haldið áfram. Ég má ekki til þess hugsa hvað hefði gerst ef ekki hefði einhver verið í skólanum þetta kvöld, hvað þá ef gámurinn hefði staðið nær byggingunni.

Námskeið í mexíkóskri matargerð á Suðureyri.
Námskeið í mexíkóskri matargerð á Suðureyri.

Ég fór á námskeið í mexíkóskri matargerð sem kvenfélagið Ársól á Suðureyri stóð fyrir en það var Omar, maðurinn hennar Judy organista, sem leiðbeindi. Svakalega góður matur og frábær félagsskapur.

Kaffinefnd kvenfélagsins Brynju á Flateyri.
Tobba, Steinunn, Mekkín og Gústa skipa kaffinefnd kvenfélagsins Brynju á Flateyri.

Þá kíktum við Dúi og Guðrún í sólarkaffi á Flateyri í dag, sunnudag, en það var kvenfélagið Brynja sem stóð fyrir því. Það er öllum samfélögum ómetanlegt að þar starfi kvenfélög, ég þreytist ekki á segja það og vil þá minna á að 1. febrúar er einmitt dagur kvenfélagskonunnar.

Sólarkaffi og sólarpönnukökur voru sem sagt í „brennidepli“ í vikunni en sólin fer að sjást að nýju um þetta leytið í flestum byggðarlögum hér en þó ekki fyrr en 17. febrúar hér á Suðureyri, var mér sagt í pottinum í vikunni. Það er ágætt, fínt að dreifa köku- og pönnukökuáti yfir lengra tímabil.

Vetrarhlaup með Dúa.
Vetrarhlaup með Dúa.

Náði að hlaupa tvisvar í vikunni, fara á gönguskíði og oft í sund. Áfram þið!

Mjög annasöm vika framundan, njótið komandi vinnuviku, það ætla ég að gera!