Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 15

Dagbók bæjarstjóra dagana 14.-20. apríl 2025, í 15. viku í starfi.

Dymbilvikan var drjúg til ýmissa verka í hefðbundnum verkefnum bæjarstjóra.

Við Bryndís kíktum á Byggðasafnið niðri í Neðstakaupstað, þar áttum við gott spjall við starfsfólkið og fengum að skoða geymsluna þar sem unnið er að skráningu og varðveiðslu muna. Þá heimsótti ég slökkviliðið, þeir eru staðsettir með skrifstofur í Regus, skrifstofurými en upp kom mygla í húsnæði slökkviliðsins og því var ekki annað að gera en að leigja hjá Regus þar til ný slökkvistöð hefur risið en hún er einmitt á framkvæmdaáætlun á þessu og næsta ári. Þá fékk ég að skoða tækjakost slökkviliðsins sem er góður en undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að endurnýjun á tækjum og búnaði.


Í kaffi niðri á byggðasafni. Það er svona verið að fara í gegnum allskonar dót og undirbúa sumarið, fyrsta skip er væntanlegt 6. maí.


Ég og Siggi slökkviliðsstjóri við slökkvibíl sem er sérhannaður til að fara inní reykfyllt göng.

Sjóböðin í Önundarfirði er verkefni sem mörg okkar hafa heyrt um. Við fengum heimsókn í vikunni þegar Runólfur og Áslaug komu hér á skrifstofuna og kynntu okkur fyrir verkefnið, stöðu þess og áform næstu mánuði og árið. Stefnt er að því að klára deiliskipulag og breytingu á aðalskipulagi með haustinu en síðasta eina og hálfa árið hafa þau verið að vinna með Náttúrustofu Vestfjarða sem hefur verið að taka út ýmsa náttúru-/vistfræðilega þætti eins og gróður og fuglalíf. Það verður spennandi að sjá þetta verkefni þróast og verða svo að veruleika.


Hans Orri arkitekt hjá Sen&Son og Runólfur á slóðum væntanlegra sjóbaða í Önundarfirði.

Baklandsfundur Í listans fór fram á þriðjudagskvöld, það var gott spjall sem við áttum þar. Þar var ákveðið að aðalfundur Í listans fari fram 13. maí næstkomandi.

Á Í-lista fundi í Rögnvaldarsal í Edinborgarhúsinu.
Á Í-lista fundi.

Bæjarstjórn fundaði á öðrum vikudegi og öðrum tíma en vanalega, kemur til af því að skírdagur hitti akkúrat inn á „hefðbundna“ tímasetningu bæjarstjórnarfundar og vegna setningar Skíðaviku var fundurinn kl. 15 í stað 17.

Setning Skíðaviku fór fram með pompi og prakt. Ég skoraði á Jón Pál bæjarstjóra í Bolungarvík í sprettgöngu, það gekk vel, ég lenti í öðru sæti en Jón Páll hafði mig með sjónarmun og að sjálfsögðu þakka ég honum fyrir drengilega keppni. Við urðum svo fræg að ná að komast á forsíðu Morgunblaðsins daginn eftir.

Einar Yngva að kanna hitastigið á snjónum og meta rennslisaðstæður.

Einar Yngva að kanna hitastigið á snjónum og meta rennslisaðstæður.

Bæjarstjórar á forsíðu Morgunblaðsins.
Forsíða Morgunblaðsins.

Við Jón Páll að undirbúa okkur og peppa fyrir verkefnið, Dúi starfsmaður á plani.
Við Jón Páll að undirbúa okkur og peppa fyrir verkefnið, Dúi starfsmaður á plani.

Það voru margir viðburðir á Skíðaviku en Skíðavikan er 90 ára í ár (þó ekki nítugasta skiptið sem hún er haldin, tveir heimsfaraldrar ollu því að hún var ekki haldin, annars vegar vegna mænuveiki 1949 og hins vegar vegna Covid). Skipulagið er þannig að það eru alltaf nokkrir fastir póstar sem Skíðafélag Ísfirðinga sér um sem eru: Setning skíðavikunnar, sprettgangan, skíðaskotfimi, fjallaskíðaferð (í Botnsdal) og húllumhæ á skíðasvæðunum. Í ár var afmælisgleði á gönguskíðasvæði á Seljalandsdal, furðuföt, karamelluregn, skíðafleyting og stuð.

Síðan var fullt af öðrum viðburðum. Pílumót, páskaeggjamót körfuboltans, Leiklistarhópur Halldóru söng lög úr Disney-heiminum, Netagerðin var með viðburði (skapandi rými), Kómedíuleikhúsið var með viðburði. Það var fatamarkaður á Flateyri á skírdag og heilmikil dagskrá á Vagninum alla páskana. Þá frétti ég að Íþróttafélagið Höfrungur á Þingerri hafi verið með íþróttadag á laugardaginn, þar sem boðið var uppá þrautabraut, keppt var í allskonar íþróttagreinum og þá var vatnsbyssustríð í lauginni. Á Suðureyri var tækifærið notað og dagskrá sjómannadagshelgarinnar kynnt, sem er eftir tæpar sex vikur en um er að ræða fimm daga hátíð. Það má því segja að það hafi verið eitthvað um að vera í öllum plássum.

Katla kynnti sjómannadagsdagskrá á Suðureyri.
Katla kynnti sjómannadagsdagskrá á Suðureyri.

Ég var við opnun samsýningar Kötlu Rúnarsdóttur og Mirjam Maekalle: Tungumál væntumþykju. Opnunin fór fram á föstudaginn langa, í sýningarsal Listasafns Ísafjarðar á annarri hæð í Safnahúsinu Ísafirði. Listamennirnir voru á staðnum. Þá kíktum við Dúi á sýningu Helgu Guðrúnar í anddyri Netagerðarinnar, þar sýndi Helga myndlist, þar sem ekki er unnið með hefðbundinn striga heldur textíl sem hefur endað líf sitt í hefðbundum notum eins og dúkar, gardínur og þess háttar. Mér fannst það gaman að sjá þessu nýtingu á textílnum en ég var að fá þær fregnir að 14 tonn af textíl var fargað á síðasta ári í Ísafjarðarbæ, með tilheyrandi kostnaði.


Listaverk á sýningunni í Safnahúsinu.

Rannveig, starfsmaður Listasafns Ísafjarðar, ávarpaði gesti.
Rannveig, starfsmaður Listasafns Ísafjarðar, ávarpaði gesti.

Helga Guðrún við opnunina á sýningu sinni í anddyri Netagerðarinnar.
Helga Guðrún við opnunina á sýningu sinni í anddyri Netagerðarinnar.

Svo var rúsínan í pylsuendanum, tónlistarveislan Aldrei fór ég suður, sem er sannarlega mikill segull. Tónlistarveisla á föstudag og laugardag frá kl. 20, húsið opnaði kl. 19. Mathöllin var á sínum stað, bæði kvöldin þannig að fólk þurfti ekki að svelta og gat þá fengið hinar margrómuðu ísfirsku sælur (kjötlokur). Þá var búð með Aldrei varningi þannig að fólk gat styrkt hátíðina með því að kaupa sér einhvern Aldrei varning. Ég og Arna Lára alþingismaður og fyrrum bæjarstjóri tókum vakt þar á laugardagskvöld. Hátíðin fór vel fram, það gekk allt eins og smurt og gleðin var sannarlega við völd. Fjölmargt tónlistarfólk tróð upp og hélt maður á tímabili að þakið ætlaði af Aldrei skemmunni, stuðið var þvílíkt.

Ég og Kristján Freyr rokkstjóri Aldrei.
Ég og Kristján Freyr rokkstjóri Aldrei.

Við Arna Lára á vaktinni í Aldrei búðinni.
Við Arna Lára á vaktinni í Aldrei búðinni.

Það er ekki sjálfgefið að svona hátíð eins og Aldrei eða Skíðavikan sé til staðar. Svona tekst aldrei nema með hjálp óteljandi sjálfboðaliða og ég segi bara takk öll! Þið eruð snillingar.

Vikan endaði svo á páskamessu í Suðureyrarkirkju þar sem presturinn talaði um í predikun sinni að vikan hæfist á sunnudegi. Ég læt það ekki á mig fá og held mig við að skrifa dagbókina á sunnudegi. Vikan framundan er óvenjuleg, ég verð ekki á skrifstofunni en þið megið samt sem áður eiga von á dagbókarfærslu eftir viku. Ég heyrði það líka í messunni í dag, í predikun prestsins, að vikan framundan er páskavikan. Síðasta vika var dymbilvikan (eins og ég geri ráð fyrir að fólk viti) en einnig oft kölluð kyrrðarvikan, þó það hafi nú ekki verið nein lognmolla, allavega var mikið stuð.

Matilda, organisti í páskamessu.
Matilda, organisti í páskamessu.

Njótið það sem eftir er af páskafríinu.