Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 14

Dagbók bæjarstjóra dagana 7.–13. apríl 2025, í 14. viku í starfi.
Fastir liðir eins og venjulega, bæjarráð og samráðsfundur sviðsstjóra Ísafjarðarbæjar voru í byrjun vikunnar. Síðan voru nokkrir fundir, svona eins og gengur, sumir sem eru reglulegir og aðrir tilfallandi. „Morgunbollinn“ með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og framkvæmdarstjórum sveitarfélaga er dæmi um fundi sem eru reglulega. Klukkutíma spjall í bítið á þriðjudag. Þar sem til umræðu eru ýmis mál sem eru á okkar borðum, þarna gefst gott tækifæri til að leita ráða og fara yfir stóru málin sem eru á borði Sambandsins og sveitarfélaganna.
Sameinuð almannavarnanefnd Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps fundaði í vikunni. Þar voru ýmis mál á dagskrá en ég vek sérstaka athygli á máli sem var kynnt en þar er fyrirhuguð almannavarnaræfing um óhapp á sjó þann 17. maí næstkomandi. Varðskipið Þór verður á svæðinu og hátt í 30 leikarar (fórnarlömb) taka þátt.
Ég er svo þakklát fyrir fjarfundi. Stundum er reyndar gott að hitta fólk og oft er meiri árangur af staðfundum en það er gott að hafa val.
Ég fór ásamt fulltrúum Húnaþings vestra og sveitarfélagsins Skagafjarðar á fund Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Til umræðu var þingsályktunartillaga um Borgarstefnu. Markmiðið er að borgarstefna verði hluti af samhæfingu stefna í samgöngumálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga og taki mið af samþykktum stefnum stjórnvalda á öðrum málefnasviðum. Ísafjarðarbær hafði sent inn umsögn þar sem bent var á að í drögum að borgarstefnu sé ekki fjallað um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í þjónustu við landsbyggðina. Í drögunum kemur ekkert fram um Reykjavíkurflugvöll sem hlýtur að hafa skyldum að gegna gagnvart íbúum landsbyggðar og benti ég á þetta og að úr þessu verði að bæta. Nánar um málið á vef Alþingis.
Gissur og ég eftir undirritun samkomulags vegna Eyrarkláfs.
Ég átti fund með forsvarsmanni Eyrarkláfs en hann var staddur á landinu og við notuðum tækifærið og undirrituðum samkomulagið sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í marsbyrjun. Staðan á málinu er sú að í haust verður umhverfismatsskýrslan tilbúin. Þá er verið að fara yfir innsendar athugssemdir og umsagnir sem bárust vegna framkvæmdarinnar þegar skipulagslýsingin var auglýst.
Framkvæmdarráð velferðarþjónustu Vestfjarða fundaði í vikunni en við erum að vinna að endurskoðun á samningi, vinna sem mun væntanlega klárast fyrir sumarið.
Ég fór á Flateyri eftir hádegi á fimmtudag og bauð þar upp á að fólk gæti hitt mig, líkt og ég gerði á Þingeyri fyrir rúmum mánuði. Á Flateyri áttum við Bryndís þrjá fundi en á þeim fyrsta voru þrjár konur, á næsta fundi voru fimm konur og á síðasta fundinum var einn karl. Málefnin voru af ýmsu tagi eins og til dæmis skólamáltíðir, samkomuhúsið, starf eldri borgara, eldisleyfi í Önundarfirði og löndunarskylda. Þá fékk bærinn hrós fyrir jólaskreytingar en við höfum verið að bæta þær ár frá ári, sem er gaman og lífgar sannarlega upp á tilveruna í svartasta skammdeginu.
Kristján og Elísabet í Bæ, Staðardal.
Það sést þarna glitta í túnin en það er búið að vera sannarlega vor í lofti síðustu daga.
Aurskriða sem við keyrðum fram á, á leið okkar út í Bæ.
Seinnipartinn á fimmtudag skruppum við Dúi í kaffi og spjall á Bæ í Staðardal, sem er við utanverðan Súgandafjörð. Við eldhúsborðið hjá Kristjáni og Elísabetu voru ýmis mál rædd en hæst bar þó vegurinn þarna úteftir en það líður varla sá dagur að ekki hrynji grjót, ísklumpar, aur eða snjóflóð á veginn úr fjallinu Spilli. Ég þekki það vel, hleyp mjög mikið þangað úteftir og oftar en ekki er grjót, skriður eða ísklumpar á veginum.
Þessi dagur var engin undantekning því þegar við vorum á ferðinni var nýfallin aurskriða yfir veginn. Um þennan veg fara nokkrir einstaklingar til vinnu og í skóla, daglega. Þarna er einnig mikil traffík á sumrin því í flæðarmálinu í Staðardal, á Skollasandi, er falleg sjávarsýn en þarna er einnig um margar fallegar gönguleiðir. Umræddur vegur, eða um 1 km partur af honum, er mjög hættulegur farartálmi. En það er ekki bara það sem kemur úr fjallinu sem er hættulegt og hamlar samgöngum þarna því í miklu brimi er vegurinn oft ófær vegna þess sem sjógangurinn ryður uppá veginn, grjót og þari, því þarna eru ekki sjóvarnir. Það væri óskandi fyrir íbúa Staðardals (fyrst og fremst) og svo okkur hin sem löðumst að náttúrunni þarna útfrá að eitthvað verði gert. Það að færa veginn aðeins utar og að gerðar verði sjóvarnir á um 1 kílómeters kafla myndu breyta öllu varðandi samgöngur og öryggi þeirra sem þarna búa.
Á meðan margir sinntu sjálfboðaliðastörfum eða kepptu í stærsta gönguskíðamóti Íslands, Fossavatnsgöngunni, sótti ég aðalfundi Lýðskólans á Flateyri og aðalfund Skúrinnar samfélagsmiðstöðvar. Ég fékk þann heiður að vera fundarstjóri á báðum fundunum en í báðum félögum bar ég ábyrgð á rekstri síðasta árs í starfi skólastjóra Lýðskólans. Hvet fólk til að kynna sér heimasíðu og samfélagsmiðla Lýðskólans: Instagram og Facebook.
Í Worldloppet-móttöku í Turnhúsi.
Eins og ég kom að áðan þá fór Fossavatnsgangan fram um helgina, um 460 þátttakendur tóku þátt auk nokkurra tuga sem tóku þátt í öðrum viðburðum henni tengdum. Fossavatnsgangan er elsta skíðamót sem enn er við lýði á Íslandi, en gangan fór fyrst fram árið 1935 og því 90 ára afmæli í ár. Á föstudaginn ávarpaði ég móttöku fyrir Worldloppet þátttakendur. Worldloppet er aðalmótaröð skíðagöngukeppna í heiminum. Það eru fjölmargar frægar göngur sem eru hluti af þessari mótaröð eins og til dæmis Vasagangan í Svíþjóð og Birkebeiner í Noregi. Hægt er að safna stimplum til að verða Worldloppet-meistari, en þá þarf að taka þátt í 10 göngum þar sem ein ganga þarf að vera utan Evrópu.
Systrasynir í Fossavatnspartýi, allir fóru þeir 25 km, magnaðir.
Þá var heljarinnar kaffihlaðborð fyrir þátttakendur Fossavatnsgöngu í íþróttahúsinu á Torfnesi á laugardaginn og um kvöldið var mikil fiskiveisla þar sem árangri liðinna daga var fagnað. Þrátt fyrir að taka ekki þátt eða vera sjálfboðaliði uppi á fjalli, þá mætti ég í kaffið og veisluna um kvöldið, það var mikið stuð, allir glaðir og mikið dansað.
Frach bræður í Hömrum.
Það var mikil tónlistarveisla í vikunni í boði Frach bræðra. Þeir eru fæddir og uppaldir á Ísafirði, foreldrar þeirra eru tónlistarkennarar við Tónlistarskólann. Allir bræðurnir eru mikið menntaðir í tónlist og búa allir um þessar mundir í Kraká í Póllandi þar sem þeir nema meira og stunda list sína. Bræðurnir komu víða við, í skólum, hjá eldri borgurum og fleiri stöðum auk tónleika í Hömrum. Með þessu eru þeir að sýna hlýhug sinn til heimabyggðar sinnar, virkilega vel gert hjá þeim Maksymilian, Mikolaj og Nikodem.
Úr Aldrei búðinni.
Aldrei fór ég suður er handan við hornið en á föstudag opnaði Aldrei búðin, hún er staðsett í Edinborgarhúsinu, gengið inn á gaflinum (þar sem Vesturferðir eru og upplýsingamiðstöðin var áður). Þann dag var boðið á forsýningu á mynd um tilurð og framgang Aldrei fór ég suður hátíðarinnar. Þessi mynd verður sýnd í Ríkissjónvarpinu um páskana. Forsýningin fór fram í bíóinu og að sjálfsögðu var popp og kók í boði.
Mér þykir nauðsynlegt að birta enn eina hlaupasjálfuna af okkur hjónum. Þessi er óvenjuleg því hún er tekin klukkan 6:30, útfrá, þar sem við hlaupum oft. Ekki búin að fá morgunkaffið, bara sítrónuvatn og út að hlaupa.
Við Steinunn tókum morgunskokk á Flateyri á laugardag, fyrir aðalfundina tvo.
Annars var bara hefðbundið stúss í vinnunni og utan vinnu, hljóp til dæmis slatta og dundaði aðeins í ræktuninni minni. Gott að slaka og hlaða batteríin á sunnudegi en það gerðu nú aldeilis ekki Vestramenn þar sem þeir sigruðu FH 1-0!