Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 12

Dagbók bæjarstjóra 24. – 30. mars 2025, í 12. viku í starfi.
Það var þungt í frú bæjarstjóra undir lok vikunnar, einkum tvennt olli því, annars vegar innviðagjöld á skemmtiferðaskipafarþega sem verður ekki hnikað miðað við nýjustu fréttir og hins vegar nýframkomið frumvarp um breytingu á lögum um veiðigjöld. Hvorutveggja eru mál sem skipta okkur sem samfélag máli og því mikilvægt að við spilum rétt úr þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir.
Vikan var annars skemmtileg og full af áskorunum. Það var gaman að sjá uppfærslu nemenda Menntaskólans á Ísafirði á söngleiknum Grease, þvílíkt hæfileikafólk sem við eigum í skólanum okkar. Þau stóðu sig öll vel, hvar sem þau komu að verkefninu, leikarar, söngvarar, dansarar, tónlistarfólk, leikmynda-, búninga og sminkfólk, að ógleymdum leikstjórum og sýningarstjórum. Vel gert!
Frá árshátíð Grunnskólans á Ísafirði.
Þá var árshátíð í Grunnskólanum á Ísafirði í vikunni. Þar var sama sagan, algjörlega frábært og gaman að sjá hvað allt rúllaði fumlaust, enda hefur starfsfólk skólans gert þetta nokkrum sinnum áður. Eva danskennari aðalsprautan, en þetta var reyndar síðasta árið sem hún kemur að verkefninu, var heiðruð í lok sýningar. Takk fyrir skemmtilegt kvöld.
Ég rétt náði í restina á sýningu nemenda Lýðskólans á Flateyri þar sem þau sýndu grímur og ljósmyndir, afrakstur síðustu tveggja vikna í skólanum. Virkilega flott.
Helen Hafgnýr Cova, forsprakki Bókmenntahátíðar á Flateyri.
Það er mikið lán fyrir okkur sem samfélag að hingað flyst fólk af allskonar þjóðernum með fjölbreyttan bakgrunn og með mismunandi markmið. Ein slík er Helen Hafgnýr Cova. Hún stóð fyrir fjögurra daga bókmenntahátíð á Flateyri, sem lauk í dag. Þarna kom saman á þriðja tug fjölbreytts hóps rithöfunda, en eins og Eiríkur Örn Norðdahl segir:
„...fjölbreyttasta bókmenntahátíð sem þjóðin hefur séð. Þarna komu ekki bara saman karlar, konur og kvár af öllum aldri heldur líka aðfluttir, brottfluttir og ófluttir, íslenskir útlendingar og útlenskir íslendingar, kynsegin, skynsegin og hinsegin fólk með nýjar rætur og gamlar rætur og ólíkar rætur og rætur í bakgarðinum og rætur hringinn í kringum veröldina, rætur í fossum og fjöllum og jöklum; framúrstefnuskáld og krimmahöfundar og þýðendur og bókmenntagagnrýnendur og barnabókahöfundar og hljóðaljóðskáld og grínistar og leikarar og myndlistarmenn og tónlistarmenn og meira að segja sundmenn. Til þess að fagna listinni og bókmenntunum og mennskunni. Fyrir fullu húsi sama hvar komið var.“
Rithöfundaspjall á Bókmenntahátíð Flateyrar
Þarna eru þrír rithöfundar, einn umræðustjóri og einn Mosi (kisi).
Ég fór á skemmtilegan viðburð á hátíðinni þar sem barnabókahöfundar fjölluðu um fjölbreytileikann. Ég vona svo sannarlega að þetta verði endurtekið.
Við Hafdís Gunnars, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs fórum í heimsókn í grunnskóla, leikskóla og íþróttahúsið á Þingeyri. Þar var virkilega gaman að koma og kynnast starfinu.
Sáning í grunnskólanum á Þingeyri.
Erna skólastjóri Grunnskólans á Þingeyri, ég og nokkrir nemendur sem vildu fá að vera með á mynd.
Það voru þemadagar í grunnskólanum og nemendur unnu saman að verkefnum þvert á árganga. Þemað var „Tækni“ en ákveðið var að nota þemadaga til að fara á dýptina og blanda tækni og þróun við ræktun og sjálfbærni. Einnig voru nemendurnir að spá í matarhefðum og hvernig þær hafa þróast ásamt tækni.
Eldhúsið á leikskólanum á Þingeyri, þar er eldaður matur fyrir 70-80 munna (leikskóla og grunnskóla).
Á leikskólanum var kjóladagur og afskaplega róleg stemming, hef sjaldan komið inn á leikskóla þar sem ríkir jafnmikil ró.
Ég, Sigga og Hafdís við sundlaugina á Þingeyri.
Í íþróttahúsinu á ÞIngeyri var blandaður hópatími vegna þemadaga í Grunnskólanum.
Í íþróttahúsinu hittum við Siggu og Sigmund, skoðuðum líkamsræktaraðstöðuna, saunaklefann sem Sigmundur hefur verið að lagfæra og fengum okkur svo ís og kaffi á sundlaugarbakkanum.
Það voru fjölmargir fundir á dagskrá í vikunni. Til að mynda funduðum við með fulltrúum hverfaráða og skólastofnana og íþróttamannvirkja í þorpunum vegna útfærslu á „staðaraugum“ sem er verkefni sem er í vinnslu hjá okkur.
Loftslagsstefna sveitarfélagsins verður unnin á næstu misserum, ég sat kynningarfund vegna þess verkefnis.
Það var forstöðumannafundur í vikunni.
Gauti Geirs á kynningu Háafells á umhverfismati í Ísafjarðardjúpi.
Hluti fundarmanna á kynningu Háafells.
Ég fór á opinn fund Háafells í vikunni þar sem kynnt var umhverfismat fyrir 4.500 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Háafell hefur þegar leyfi fyrir 6.800 tonna eldi í Djúpinu og hefur sótt um leyfi til þess að auka það um 4.500 tonn. Fundurinn var í Edinborgarhúsinu og var nokkuð fjölmennur, sennilega 70-80 manns sá ég einhversstaðar.
Bæjar-og sveitarstjórar á Vestfjörðum áttu sinn mánaðarlega fund með Vestfjarðastofu.
Ég fundaði með fjölmörgum einstaklingum vegna allskonar mála sem koma inn á mitt borð.
Í lok vikunnar funduðu bæjar- og sveitarstjórar sjávarútvegssveitarfélaga vegna frumvarpsins sem ég nefndi hér í upphafi. Samtökin hafa sent frá sér umsögn, málið verður til umfjöllunar í bæjarráði á morgun og þá eru allar líkur á því að Ísafjarðarbær sendi inn umsögn í komandi viku.
Umsögn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga í heild
Kvenfélagið Ársól Suðureyri hittumst og borðuðum saman, buðum mökum með.
Það var góð kvöldstund sem við kvenfélagskonur í Ársól áttum í gær, buðum körlunum út að borða og slúttuðum þannig vetrarvertíðinni. Vorið handan við hornið, þó það hafi nú verið nokkuð napurt á sunnudagshlaupinu út fyrir Spilli, þá var það hressandi.
Verk í vinnslu, sáði fyrir grænfóðri.
Ég er allavega byrjuð að undirbúa ræktunarsumarið mikla hér á Eyrargötunni, sáði slatta í dag, sjáum hvað verður.